Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 júní 2006

Haldið á vit nýrra verkefna

Stjórn Varðar kom saman á fundi þann 14. júní sl. og ákvað þar að boða til aðalfundar félagsins þriðjudaginn 27. júní í Kaupangi. Ég hef tekið þá ákvörðun að ég ætla ekki að vera í kjöri á aðalfundinum og mun því láta af formennsku í Verði undir lok þessa mánaðar. Ég hef verið formaður þessa góða félags í tvö ár og ég tel það mjög hæfilegan og góðan tíma. Þegar litið er yfir formannatalið á vef félagsins er það almennt séð sögulega séð álitlega langur tími og mjög fáir sem hafa gegnt þessu embætti lengur en tvö ár. Það er eðlilegt að nú fái aðrir tækifæri til að fá að leiða þessi verkefni. Eins og allir vita sem sinnt hafa verkefnum af þessum toga er það stórt verkefni að leiða flokksfélag - það útheimtir vinnu og að hugsað sé um það eins og barnið sitt. Ég hef reynt mitt besta til að vinna verkin eins vel og mögulegt má vera.

Það er ljóst að félagið hefur verið öflugra seinustu tvö árin en mörg árin þar á undan. Jafnframt er gleðiefni að fleiri konur eru þátttakendur í stjórnarstörfum en var lengi vel þar áður. Ég ákvað hvert skyldi stefna nú hina seinustu daga en fyrirfram hafði ég í upphafi þess starfsárs sem senn er á enda hugsað innra með mér að vera í mesta lagi eitt ár enn og hætta við svo búið. Ég hef tekið þá ákvörðun að réttast sé að þessi breyting verði á núna. Það eru margir gleðilegir hápunktar í starfi félagsins á þessum tveim starfsárum. Við vorum auðvitað í kosningabaráttu nú undir lok formannsferilsins og ég tók þátt í þeim verkefnum sem mér fannst mikilvægust. Ég hef alltaf haft gaman af verkum í kosningabaráttu. Það er mjög áhugavert að vinna svona vinnu undir miklu álagi og svo mikið er víst að kosningabaráttan nú var mjög athyglisverð og ekki síður eftirmáli hennar.

Ég tel erfiðasta tímann þessi tvö ár hafa verið prófkjör flokksins í febrúarmánuði á þessu ári. Útkoma þess fyrir ungliða í Verði var sannkallað kjaftshögg og það leiddi til þess að ég hugleiddi mikið mína stöðu. Það var mikið umhugsunarefni auðvitað að flokksmenn hér treystu engum ungliða til að taka sæti ofarlega á lista og leiddi t.d. slakt gengi ungliða í prófkjörum fyrir þessar kosningar til þess að framboð ungliða kom fram undir merkjum O-listans. Þó að því hafi svosem ekki gengið eins vel og kannanir sýndu um tíma var alveg ljóst að tilkoma þess framboðs leiddi til þess að margir fóru að hugsa meira og betur um að ná til ungs fólks, sem var auðvitað gleðiefni. Mér fannst fulltrúar Framfylkingar sem buðu fram undir merkjum aldurs síns hugaðir og djarfir að halda í framboðið. Þó að þeir næðu ekki markmiðum sínum fannst mér þeir koma fram af ábyrgð og tala fyrir mikilvægi þess að ungt fólk fengi frama.

Eftir stendur auðvitað að ég taldi mjög dapurt að enginn ungliða skyldi fá gott umboð til að fara ofarlega á lista og ég tel að margir sjálfstæðismenn hér í bæ hafi séð það mjög vel er líða tók á kosningabaráttuna að það skaðaði framboðslistann að hafa ekki ungliða í vonarsæti - einu af sex efstu sætunum. Í topp tíu sætum var aðeins einn ungliði og sem dæmi má nefna að aðeins einn ungur karlmaður í Verði var á framboðslistanum. Heilt yfir var þessi atburðarás og staða mála almennt til þess að margir hugsuðu stöðuna enn betur en ella. Það var mjög ánægjulegt að svo fór. Ég fór í viðtöl vegna þessara mála og tjáði skoðanir mínar. Ég sá ekki eftir neinu í þeirri atburðarás allri og ég tel að margir séu mun meðvitaðri um það nú en áður að til þess að ná til ungra kjósenda þarf ungt fólk að vera áberandi. Eðlilegt er að við hugsum öll vel um stöðu mála og hvernig virkja skal ungt fólk til stjórnmálaforystu - það er lykilmarkmið allra flokka.

Á þessum tveim árum hef ég unnið í starfi SUS á landsvísu en ég hef verið í stjórn SUS lengur en ég hef verið formaður Varðar. Mun ég halda áfram af krafti í verkefnunum þar. Það er enginn vafi á því að sumarið 2005 var nokkuð erfiður tími fyrir mig. Á þessum tíma fyrir ári síðan tók stjórn Varðar þá ákvörðun að styðja Borgar Þór Einarsson til formennsku í SUS. Ég tók þá ákvörðun fyrir mig persónulega að styðja hann til verksins. Ég hafði kynnst Borgari Þór í fjölda verkefna og vissi að hann væri maður sem myndi leiða verkin af krafti og hefði áhuga á stjórnmálastörfum - hefði metnað að leiðarljósi fyrir SUS. Það gekk á ýmsu í aðdraganda SUS-þingsins í Stykkishólmi og væri áhugavert að fara yfir þá sögu alla í ítarlegu máli þegar vel stendur á. Það kemur að því fyrr en síðar. En ég tel alveg óhætt að fullyrða að mjög hafi nærri mér gengið í þeim darraðardans öllum. Jafnan hefur mér mislíkað mjög misklíð vissra fylkinga innan SUS.

En ég hef semsagt ákveðið nú að hætta í forystusveit ungliðafélags flokksins hér í bæ. Eftir stendur mikið þakklæti af minni hálfu til allra þeirra sem ég hef unnið með í ungliðahreyfingunni þessu ár sem ég hef þar verið í stjórn en ég hef eignast marga vini í gegnum öll þessi verkefni. Met ég mjög mikils að hafa fengið tækifæri til að vinna með þeim öllum. Í mörgum verkefnanna var líf og fjör aðalatriðið og við unnum samhent að því sem skiptir máli. Nú taka ný verkefni við. Ég hef alla tíð verið mjög pólitískur og unnað stjórnmálum mikils - þau hafa átt stóran hluta hjartans míns alla mína ævi. Það hefur verið mér bæði unun og ferskleiki að geta verið til staðar í verkefnum flokksins míns.

Svo verður áfram og nú taka við ný verkefni á stjórnmálabrautinni - það er alltaf gott að vera til staðar meðan að næg verkefni eru til staðar.