Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 júní 2006

Svanfríður verður bæjarstjóri á Dalvík

Svanfríður Inga Jónasdóttir

Meirihlutaskipti urðu í bæjarstjórnum um allt land í gær á fyrsta fundi sveitarstjórna sem kjörnar voru 27. maí sl. Í gær tók því nýr meirihluti Framsóknarflokks og J-lista óháðra við völdum í Dalvíkurbyggð af fyrri meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Sá meirihluti féll í kosningunum en óhætt er að segja að hann hafi fengið þar nokkurn skell. Fyrir því eru margar ástæður sjálfsagt en ég get ekki neitað því að árangur Sjálfstæðisflokksins í Dalvíkurbyggð var langt frá því viðunandi og uppstokkun blasir þar við. Ég vona að félögum mínum þar gangi vel í verkum sínum næstu fjögur árin og komi sterkir og öflugir til næstu kosninga. Á fundinum í gær var Svanfríður Inga Jónasdóttir, fyrrum alþingismaður, ráðin bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð til næstu tveggja ára. Þá verður auglýst eftir bæjarstjóra - frá þeim tíma og út kjörtímabilið verður ráðið í starfið skv. tilnefningu Framsóknarflokks.

Bjarnveig Ingvadóttir, oddviti Framsóknarflokks, verður forseti bæjarstjórnar, en Anna Sigríður Hjaltadóttir, fulltrúi óháðra, verður formaður bæjarráðs. Ég gæti eflaust sagt margt um þennan meirihluta, enda hef ég mínar skoðanir á honum sem ég tel að flestir viti nokkuð vel um. En ég ætla að geyma það til betri tíma. Ég ætla fyrst og fremst að sjá til hvernig þessum meirihluta muni ganga við verk sín. Svanfríður hefur oft viljað verða bæjarstjóri og tekst það nú. Er það svosem ekki óeðlilegt enda hlaut framboðslistinn sem hún leiddi afgerandi flest atkvæði og gott umboð. Það er því eðlilegt að hún fái tækifæri til að gegna þessu embætti. Það er þó greinilegt að Framsóknarflokkurinn í Dalvíkurbyggð, sem hafnaði henni sem bæjarstjóraefni við slit eldri meirihlutans árið 2004 og leiddi til þess að hann var endurreistur, treystir henni ekki meira en svo að hún verði bæjarstjóri aðeins hluta kjörtímabilsins, þó algjörlega ný sé í embættinu.

Ég þekki Svanfríði Jónasdóttur mjög vel. Hún var til fjölda ára kennari minn í Dalvíkurskóla, bæði fyrir og eftir að hún var aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar í fjármálaráðuneytinu. Ég veit sem er að hún er vinnusöm og metnaðarsöm um þau verkefni sem hún vinnur að. Hún var afbragðskennari og ég tel að hennar besta hilla í lífinu hafi verið kennslan enda naut hún sín vel í þeim geira, áður en hún tók sæti á Alþingi. En nú verða þáttaskil hjá Svanfríði enn eina ferðina. Það er vonandi að fyrrnefndir mannkostir hennar nýtist vel í þeirri virðingarstöðu sem hún hefur verið kjörin til. Málefnasamningur meirihlutaflokkanna lofar góðu enda fullur af fögrum fyrirheitum, eins og vinstrimanna er von og vísa jafnan.

Það verður fróðlegast vissulega að sjá hvort að þessir listar geti stjórnað af krafti og af ábyrgð næstu fjögur árin í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar. Fyrst og fremst vil ég óska Svanfríði til hamingju með embættið og óska henni heilla í verkefnum sínum næstu tvö árin.