Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 júní 2006

Nýr meirihluti tekur við á Akureyri

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum í bæjarstjórn Akureyrar í dag á fyrsta fundi sínum á kjörtímabilinu. Fundurinn var líflegur og voru skiptar skoðanir uppi á málefnasamningi meirihlutaflokkanna og fóru fulltrúar minnihlutans: Jóhannes G. Bjarnason, Baldvin H. Sigurðsson og Kristín Sigfúsdóttir yfir skoðanir sínar í ítarlegu máli og voru um margt mjög ósátt og nefndu þar til fjölda atriða. Það er svosem eðlilegt og ekkert nýtt að minnihluti sé ósáttur við meirihlutann. Það eru eðli stjórnmála. Starfsaldursforseti, Oddur Helgi Halldórsson, stýrði fundi framan af enda sá bæjarfulltrúi sem lengst hefur þar setið, eða seinustu 9 árin. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi okkar sjálfstæðismanna, var síðan kjörin forseti bæjarstjórnar og tekur hún við af Þóru Ákadóttur sem var forseti frá árinu 2002. Ég vil óska Sigrúnu Björk innilega til hamingju með forsetatignina.

Kristján Þór Júlíusson var endurráðinn bæjarstjóri á fundinum. Hann hefur nú verið bæjarstjóri á Akureyri samfellt í heil átta ár og er níundi bæjarstjórinn í sögu Akureyrarbæjar. Hann hefur nú gegnt embættinu lengst frá því að Helgi M. Bergs var bæjarstjóri hér í áratug, 1976-1986. Tveir aðrir, Magnús Guðjónsson og Bjarni Einarsson, voru bæjarstjórar í níu ár samfellt. Lengst á bæjarstjórastóli í sögu sveitarfélagsins hafa setið fyrstu tveir bæjarstjórarnir, þeir Jón Sveinsson og Steinn Steinsen. Jón sat í 15 ár, 1919-1934, en Steinn sat í heil 24 ár, 1934-1958. Bæjarstjóratal má finna hér. En þessi fundur var um margt helst formlegur og aðeins fór fram kjör í eina nefnd, bæjarráð. Hinar nefndir bíða til næsta fundar þann 20. júní. Kjör í bæjarráð af okkar hálfu hlutu Sigrún Björk Jakobsdóttir og Elín Margrét Hallgrímsdóttir.

Framundan eru væntanlega lífleg fjögur ár í bæjarstjórn og verður áhugavert að fylgjast með verkum meirihlutans og þeim sem leiða munu sveitarfélagið á þessu kjörtímabili.