Halldór hættir - ný ríkisstjórn tekur við
Ríkisstjórn Geirs H. Haarde tók við völdum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum laust eftir hádegið. Þar kvöddu þrír ráðherrar ríkisstjórn landsins og í staðinn komu aðrir þrír sem aldrei áður hafa verið í ríkisstjórn. Á fundinum lét Halldór Ásgrímsson af forsætisráðherraembætti. Brotthvarf hans úr ríkisstjórn markar endalok stjórnmálaferils hans en hann hefur nú verið í ríkisstjórn samtals í rúm 19 ár og hefur aðeins dr. Bjarni Benediktsson verið lengur ráðherra en hann. Það eru vissulega þáttaskil þegar að Halldór hverfur úr ríkisstjórn, enda hefur hann verið ein helsta burðarás þessarar ríkisstjórnar sem annar flokksleiðtoginn sem myndaði fyrsta ráðuneyti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar árið 1995. Samstarf flokkanna hefur verið mjög traust og leikur enginn vafi á því að sterk pólitísk tengsl Halldórs og Davíðs mörkuðu undirstöðu vel heppnaðs samstarfs. Stærstu tíðindi þessa ráðherrakapals tengjast einmitt Jóni Sigurðssyni og svo auðvitað Valgerði Sverrisdóttur. Jón kemur inn í stjórn við merkilegar aðstæður. Mikið er talað um, eins og ég minntist á hér fyrr í vikunni, að hann verði eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli. Það verður allavega að teljast klókt fyrir Halldór að velja Jón til ráðherrastarfa - bæði er hann tengdur innstu kjörnum flokksins bæði fyrr og nú og hefur ólíka skírskotun og margir þingmenn flokksins. Hann er ekki tengdur neinum innanflokkserjum og er vissulega mjög traustur maður og fer í verkefni síns ráðuneytis í skugga mikilla átaka um stórmál. Það mun mikið reyna á hann og vissulega verður mjög fylgst með honum í sínum verkum, enda er hann ráðherra utan þings og hefur því bæði allt aðra stöðu en ella. Verði hann formaður síns flokks mun hann fá aðra vigt en ella í pólitísku samhengi. Það verður því mikið fylgst með verkum Jóns á ráðherrastóli. Það mátti greina mikinn létti á Halldóri Ásgrímssyni í dag er hann hætti sem ráðherra. Það er langt síðan að hann hefur verið eins glaður og hress að mínu mati. Það var sem þungu fargi af honum létt. Hvernig svo sem sagan mun meta forsætisráðherraferil Halldórs Ásgrímssonar er það hiklaust mitt mat að stjórnmálaferill hans hafi bæði verið langur og glæsilegur - hann var í forystusveit lengi og leiddi mörg umdeild mál til lykta og lagði meginhluta ævistarfs síns í íslensk stjórnmál. Ég vil óska Halldóri og fjölskyldu hans heilla á þessum þáttaskilum í ævi hans og vona að honum muni vegna vel á þeim vettvangi sem hann velur sér nú við lok stjórnmálaferilsins. Hann er einn af litríkustu stjórnmálamönnum landsins seinustu áratugina.
Nú eru bæði Davíð og Halldór horfnir á braut úr ríkisstjórn og nokkur þáttaskil blasa nú sérstaklega við í skugga formannsskipta í Framsóknarflokknum. Nú er það nýrra forystumanna að stjórna samstarfinu og leikur enginn vafi á því að Geir er vel að forsætinu kominn, enda hefur hann nú verið ráðherra samtals í heil átta ár og nýtur bæði mikilla vinsælda og trausts landsmanna. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, er nú orðinn starfsaldursforsetinn í ríkisstjórninni en hann er eini ráðherrann frá upphafsári núverandi samstarfs, árið 1995, sem er enn í ríkisstjórn. Hann var menntamálaráðherra 1995-2002 en kom aftur í stjórnina að loknu rúmlega árshléi og þá sem dómsmálaráðherra. Næstlengst hefur setið Geir H. Haarde, forsætisráðherra. Allnokkrar mannabreytingar hafa orðið á kjörtímabilinu en það helgast auðvitað verulega af því að margir ráðherranna hafa ákveðið að hætta þátttöku í stjórnmálum, flestir þeirra eftir langan stjórnmálaferil.
Engar breytingar verða nú hjá okkur sjálfstæðismönnum á ráðherraliði, utan þess að Sigríður Anna hættir eins og flestir vita. Inn koma Magnús Stefánsson, Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz. Magnús er vel kominn að því að verða félagsmálaráðherra - hann var lengi sveitarstjórnarmaður og hefur verið þingmaður nær samfellt frá árinu 1995. Hann var reyndar utan þings 1999-2001 en kom inn við brotthvarf Ingibjargar Pálmadóttur úr stjórnmálum. Hann er leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Jónína Bjartmarz hefur verið á þingi frá því að Finnur Ingólfsson hætti í stjórnmálum og varð seðlabankastjóri við árslok 1999. Hún hefur lengi verið talin vænlegt ráðherraefni og oft verið spáð að hún komi inn í stjórn. Jón Sigurðsson tekur svo sæti í ríkisstjórn og verður fimmti ráðherrann frá fullveldisstofnun sem ekki er þingmaður samhliða því.
Valgerður Sverrisdóttir er nú orðin fyrsta konan á utanríkisráðherrastóli. Hún er fyrsta konan í sögu landsins sem situr við borðsendann, nær forsetanum, á ríkisráðsfundi. Hennar staða er því söguleg og vert að óska henni til hamingju til það. Mörgum er þó sennilega spurn um hvernig utanríkisráðherra Valgerður Sverrisdóttir muni verða. Hún er mun Evrópusinnaðri en tveir forvera sinna og hefur ekki útilokað aðildarviðræður og talaði sérstaklega opinskátt í þeim efnum á flokksþingi Framsóknarflokksins í ársbyrjun 2005 og studdi umdeilda tillögu þar um að flokkurinn hefði ESB-aðild sem stefnu að loknu þessu kjörtímabili. Valgerður mun ekki verða áberandi í varnarviðræðunum eins og fram hefur komið og fylgja þau Geir H. Haarde, forsætisráðherra, áfram. Valgerður hefur jafnan þótt vera ákveðin og það gustar af henni. Það verður vissulega merkilegt að sjá hvernig henni muni vegna í ráðuneyti og hverjar áherslur hennar verða.
Eins og fyrr segir verða að mínu mati allnokkur þáttaskil núna þegar að Halldór Ásgrímsson víkur af ráðherrastóli og úr hringiðu íslenskra stjórnmála, enda hefur hann verið í forystusveit lengur en ég man eftir mér. Hann varð fyrst ráðherra árið 1983 og hefur verið formaður eða varaformaður Framsóknarflokksins frá árinu 1980. Að baki er því langur stjórnmálaferill. Hann er starfsaldursforseti Alþingis og á að baki meira en þriggja áratuga þingsetu. Íslendingar, sem standa á þrítugsaldri eða eru yngri, muna ekki eftir íslenskum stjórnmálum án Halldórs Ásgrímssonar. Það er því alveg ljóst að nokkur þáttaskil blasa nú við þegar að hann hverfur úr sviðsljósi stjórnmála. Það er alveg greinilegt af fréttaviðtölum dagsins að Halldór og Sigurjóna, eiginkona hans, hlakka mjög til að geta lifað sínu lífi án stjórnmálanna. Í góðu viðtali á NFS í dag talaði Sigurjóna um þessar breytingar og mátti greina að hún væri alsæl með þessa stöðu mála.
<< Heim