Hugleiðingar á sumarsólstöðum
Sumarsólstöður eru í dag og um að ræða því lengsta dag ársins - birtan hefur yfirgnæft allt myrkur. Aðeins sól og gleði ríkja, þótt vissulega mætti hitinn vera meiri en raun ber vitni. Á þessum lengsta degi ársins fór ég út að Ólafsfjarðarmúla og horfði á fallegt útsýnið út Eyjafjörðinn. Það jafnast fátt á við að fara þangað og skoða það sem fyrir augu ber. Það er einhvern veginn heillandi og styrkjandi í senn að vera þar og hugsa málin. Ég hef fengið margar spurningar seinustu dagana frá vinum og ættingjum hvað taki nú við hjá mér þegar að ég læt af formennsku í Verði á aðalfundi í næstu viku. Ég segi öllum að ég sé að hugsa mig um. Það er hollt og gott að nota sumarið til að hugsa sig um hvað taki við. Mörgum finnst það ekki fyllilega gott svar, vita að ég hef áhuga á pólitík og vart verður staðar numið hér. Þeir vita eflaust vel að ég unni stjórnmálum.
Ég tók ákvörðun eftir að hafa hugsað mig lengi um að halda til móts við ný verkefni. Ég hafði leitt Vörð í tvö ár og setið um nokkurt skeið þar í stjórn og taldi rétt að söðla um og líta í aðrar áttir. Það er öllum hollt og gott að breyta til reglulega og horfa í aðrar áttir. Ég sagði hér á vefnum í byrjun mars að mér liði eins og manni á vegamótum. Það hefur ekki breyst. Ég tel að ég hafi tekið rétta ákvörðun og er sáttur við að halda á brott úr forystu ungliðafélagsins. Ég tel mig hafa unnið af heilindum og krafti fyrir þennan flokk í bænum og þá sem með mér hafa unnið - hef reynt að leggja mig allan fram og met mikils að hafa kynnst þeim sem með mér hafa verið í verkunum. Það er reynslusjóður sem ég met mikils að hafa upplifað og það er gott veganesti á vegamótunum. Einn sem ég talaði við spurði hvort ég væri að fara burt. Ég veit það satt best að segja ekki hvað tekur við: en það eitt veit ég að stjórnmál heilla mig og munu alltaf gera.
Ég ætla að ljúka minni síðustu skyldu fyrir félagið mitt sem formaður með því að flytja aðalfundi skýrslu stjórnar á þriðjudaginn og koma á framfæri hugleiðingum mínum við þessar breytingar fyrir mig. Að því loknu er komið að sumarleyfi. Þar gefst gott næði til að hugsa meira um stöðuna og njóta þess að sleikja sól og sumaryl. Strax á föstudag held ég reyndar í helgarferð til Reykjavíkur og nágrennis en á laugardag er SUS-dagur í Reykjanesbæ. Það verður mjög ánægjulegt að hitta þar sanna vini og kunningja - samstarfsmenn í SUS-starfinu. Líst mér vel á dagskrána sem þar er boðið upp á og hlakka til helgarinnar. Að þriðjudeginum loknum tekur því gott frí við. Líst mér vel á það og verður fínt að líta á tækifærin sem mér finnst vera til staðar víða og hugsa sig betur um þó að mörgu leyti sé ég viss um hvað ég vilji gera.
Ég hef mikið hugsað það sem af er sumri. Ég hef stundað mun meiri útivist seinustu vikur en mörg hin fyrri árin og lít öðrum augum á svo marga hluti. Ég er vissari um úr hverju ég er og hverju ég vil helga krafta mína. Á gönguferðunum í Kjarnaskógi er sem að maður hugsi öðruvísi en ella. Þar gefst manni næði út í náttúrunni og fær ró og næði af öðrum toga til að spá í spilin en ella væri. Ég vil taka undir með mætum manni sem sagðist hugsa best út í náttúrunni þar sem fegurðin ein ríkti og fuglasöngurinn einn væri ómandi. Það er nærri sanni - satt best að segja vil ég meina að ég sé annar maður nú en ég hef verið lengi og sé að líta á annað upphaf á ævinni minni. Það er svo sannarlega gleðiefni.
<< Heim