Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 júní 2006

Spunarokkarnir eru þagnaðir

Geir H. Haarde og Halldór Ásgrímsson

Tæp vika er síðan að Halldór Ásgrímsson yfirgaf forsætisráðuneytið og vék úr kastljósi íslenskra stjórnmála eftir þriggja áratuga stjórnmálaferil. Löngum ferli hans sem forystumanns flokks síns innan ríkisstjórnar lauk þar með - enn er Halldór þó formaður Framsóknarflokksins og situr á þingi fyrir flokkinn. Því skeiði lýkur á flokksþingi Framsóknarflokksins í ágúst en hann mun víkja af þingi strax í kjölfar þess. Hann mun því ekki taka sæti á þingi í haust og mun Sæunn Stefánsdóttir fara inn á þing. Með brotthvarfi Halldórs af þingi verða því fimm konur í tólf manna þingflokki Framsóknarflokksins. Starfsaldursforseti þingsins frá og með því verður Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum ráðherra, en hún hefur nú verið á þingi samfleytt í 28 ár - hún kom inn á þing í vinstrisveiflunni sögufrægu árið 1978 sem feykti formanni Framsóknarflokksins í Stjórnarráðið merkilegt nokk. Jóhanna og Halldór sátu saman í ríkisstjórn í þrjú ár, í vinstristjórninni 1988-1991.

Geir H. Haarde hefur verið húsbóndi í Stjórnarráðinu í þessa tæpu viku. Loksins er formaður stærsta stjórnmálaflokks á þeim stað sem honum ber í íslenskum stjórnmálum. Við komuna í Stjórnarráðið mætti nýja forsætisráðherranum slitnir spunarokkar og bilaðir spilarokkar - það er enda hægt að fullyrða að lágt sé risið á spunasérfræðingunum sem eftir standa nú er Halldór yfirgefur forsætið. Spunamennska var eitt helsta meginstef forsætisráðherraferils Halldórs Ásgrímssonar. Hann sótti með mjög áberandi hætti í smiðju áróðurstengdra vinnubragða í stjórnmálum og leitaði að mestu til Bretlands í því skyni - horft var til þeirrar spunapólitíkur sem Tony Blair hefur staðið fyrir um nokkurt skeið. Óhætt er að fullyrða að Halldór hafi stjórnað með ólíkum hætti og forveri hans á formannsstóli, Steingrímur Hermannsson. Hann var enda ófeiminn við að gagnrýna Halldór meðan hann var í Stjórnarráðinu.

Í pólitík sinni þann tíma sem hann leiddi ríkisstjórn safnaði Halldór að sér liði fyrrum fréttamanna sem aðstoðarmanna og almennatengslaráðgjöfum innan flokksins og í ráðuneytinu. Almennt séð er einsdæmi hér á landi að forsætisráðherra hafi á sínum snærum á að skipa fjölda fyrrum fréttamanna í opinberu hlutverki sem málsvara flokksins og ráðuneytisins, bæði í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi. Með þessa menn innanborðs reyndi Halldór oft að spinna umræðuna og túlka með öðrum hætti og beina henni í aðra farvegi. Er upp komu stór mál voru sendir af örkinni spunameistararnir þrír, þeir sem voru virkir í netskrifum innan flokksins og voru málsvarar Halldórs víða. Spuninn teygði sig því allvíða. Þessi tengsl voru ný af nálinni óneitanlega á þessum vettvangi. Þessir spunasérfræðingar voru Björn Ingi Hrafnsson, Steingrímur Ólafsson og Pétur Gunnarsson - allt fréttamenn sóttir til verka hjá Halldóri.

Fátt er nú að segja af spunarokkunum þremur sem sóttir voru til að leiða Halldór leiðina til öndvegis. Tveir höfðu yfirgefið skútuna er forsætisráðherraferill Halldórs lauk og einn sat eftir og beið nýs húsbónda. Björn Ingi er nú orðinn háseti á skipi Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar í borginni og hefur verið leiddur til nýrra verkefna í öndvegi borgarmálanna - ekki þarf hann frekar að hugsa um stjórnmálaferil Halldórs Ásgrímssonar. Honum tókst að komast inn í borginni með naumindum en er nú formaður tveggja stórra nefnda borgarinnar og formaður í borgarráði. Ný verkefni blasa því við honum. Fyrir nokkrum mánuðum hvarf Pétur Gunnarsson til verka á Fréttablaðinu og varð fréttastjóri á blaðaskútu Þorsteins Pálssonar og Kára Jónassonar. Eitthvað plagaði það frjálslynda þríeykið á þingi (æi þið munið þessa sem enginn tekur alvarlega). Nú stefnir hann á aðstoðarmannasæti utanþingsráðherrans sem Halldór valdi.

Eftir stendur Steingrímur S. Ólafsson sem lengi var fréttamaður á Stöð 2 og síðar húsbóndi á slúðursíðunni mögnuðu frettir.com. Hann var eftir því sem mér skilst enn á fullu í verkunum í Stjórnarráðinu þegar að pólitískur ferill Halldórs Ásgrímssonar geispaði golunni eftir langar annir svona rétt fyrir heyskapinn í sveitinni. Pólitíski spuninn sem hann spann fyrir Halldór Ásgrímsson með tvímenningunum endaði sem pólitísk sorgarsaga. Hann flæktist í spunanum uns engin undankomuleið var í stöðunni. Pólitíski spuninn varð svo sannarlega að örlagavef á vegferð þess stjórnmálamanns sem lengst hefur setið í ríkisstjórn síðan að meistari Bjarni Ben var í stjórnmálum. Eftir því sem mér skilst hefur Geir H. Haarde ekki áhuga á svona spunameistara og hefur afþakkað sér hann. Það var nú gott að heyra.

Það er varla biðröð eftir því að fá ráðleggingar frá svona spunarokkurum eftir að kunn urðu örlög forsætisráðherraferils Halldórs Ásgrímssonar. Þegar að manni verður hugsað til spunarokkanna (og þeirra nýju tíma sem blasa við Framsókn nú) sem voru einkennandi fyrir forsætisráðherraferil fráfarandi formanns Framsóknarflokksins er ekki fjarri því að hugurinn reiki til eins besta kvæðis meistarans frá Fagraskógi en það hljóðar svo:

Rokkarnir eru þagnaðir
og rökkrið orðið hljótt.
Signdu þig nú barnið mitt
og sofnaðu fljótt.

Signdu þig og láttu aftur
litlu augun þín
svo vetrarmyrkrið geti ekki
villt þér sýn.

Lullu lullu bía,
litla barnið mitt.
Bráðum kemur dagurinn
með blessað ljósið sitt.

Bráðum kemur dagurinn
með birtu og stundarfrið.
Þá skal mamma syngja
um sólskinið.