Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 júní 2006

Meirihlutasamstarf í bæjarstjórn samþykkt

Sjálfstæðisflokkurinn

Í kvöld kl. 20:00 kom fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Akureyri saman í Kaupangi til að ræða úrslit sveitarstjórnarkosninganna 27. maí sl. og ræða málefnasamning Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, sem myndað hafa meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010. Var góður andi hjá okkur á fundinum og ánægjulegt að hitta góða samherja og ræða pólitík við þá, en nóg er að frétta úr pólitíkinni í kjölfar kosninganna. Í upphafi fundar fór Björn Magnússon, formaður fulltrúaráðsins, yfir úrslitin og þau atriði sem mestu skipta tengt því. Því næst kynnti Kristján Þór Júlíusson, leiðtogi flokksins, málefnasamning meirihlutaflokkanna og skiptingu formennsku í nefndum og ráðum Akureyrarbæjar á kjörtímabilinu, í ítarlegu máli og fór yfir úrslit kosninganna og þau verkefni sem framundan væru í þessu meirihlutasamstarfi.

Samþykkti fulltrúaráðið einróma málefnasamning nýs meirihluta. Munu meirihlutaskipti fara fram með formlegum hætti á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar á þriðjudaginn en kjörtímabili þeirrar bæjarstjórnar sem setið hefur frá árinu 2002 mun ljúka formlega á sunnudaginn, 15 dögum eftir kosningar. Þá mun Framsóknarflokkurinn hverfa úr meirihluta og í staðinn mun Samfylkingin taka sæti í meirihluta með okkur í Sjálfstæðisflokknum. Mikil samstaða var í okkar fólki á fundinum. Var farið vel yfir samninginn og alla þætti samkomulagsins og góð viðbrögð hjá okkur. Svaraði Kristján Þór þeim spurningum sem fyrir lágu og tóku nokkrir fundarmanna til máls á fundinum. Tel ég að bæjarfulltrúar flokkanna hafi unnið vel og líst vel á þennan málefnasamning. Það er auðvitað fagnaðarefni að þessir tveir stærstu flokkar í bæjarstjórn taki höndum saman og vinni af krafti saman að þeim verkefnum sem við blasa.

Ég tel að þessi meirihlutasamningur sé til góða fyrir flokkana báða og ekki síður sveitarfélagið. Með þessari meirihlutamyndun er tryggt að sterkur meirihluti stýrir Akureyrarbæ á nýju kjörtímabili og hægt er að fara í verkefnin af krafti. Ég ætla að vona að samstarf flokkanna tveggja verði mjög gott. Það eru mörg verkefni framundan og styrkleikamerki fyrir báða flokka að tryggja að Akureyrarbær fái styrka stjórn þessara stærstu flokka innan bæjarstjórnar. Fundurinn gekk vel og var gaman að hitta góða félaga og ræða málin. Var boðið upp á veitingar að fundi loknum og sá Helga Ingólfs um veitingarnar af sinni alkunnu snilld. Þetta var gott kvöld í góðra vina hópi.


Að fundinum loknum nú seint í kvöld hélt ég í síðbúna kvöldgöngu í Kjarnaskógi. Það hefur verið dagleg rútína hjá mér að ganga 2,2 kílómetra á kvöldin en nú hefur sá rúntur tvöfaldast enda hef ég að undanförnu gengið tvo hringi af þessu tagi. Þetta er hressandi og gott - það er alltaf gott að fara í skóginn og fá sér góðan göngutúr. Það hefur verið yndislegt að sjá hvernig að sumarblærinn hefur náð tökum á skóginum. Það er farið að verða mjög sumarlegt og fuglasöngur ómar um skóginn og fuglarnir svífa um. Góð útivist í góðu veðri er óviðjafnanleg - það er virkilega notalegt að fara þessa góðu gönguleið daglega og sjá um leið fallega tóna sumarsins ná yfirhöndinni.