Stendur Framsóknarflokkurinn í lappirnar?
Óhætt er að segja að seinustu dagar hafi verið stormasamir í íslenskum stjórnmálum og stefnir í að framundan sé heitt pólitískt sumar, rétt eins og 2004 en með öfugum formerkjum. Það er eiginlega með ólíkindum að fylgjast með stöðunni innan Framsóknarflokksins. Þar virðist hver höndin vera upp á móti annarri og vandræðagangurinn er svo mikill að erfitt er að hafa yfirsýn yfir allt sem gengur á. Ráðherrar flokksins lýsa vantrausti hvorn á annan, deilt er um tímasetningu flokksþings Framsóknarflokksins og formannsslagur virðist að hefjast í skugga trúnaðarbrests formanns og varaformanns Framsóknarflokksins. Eins og ég benti á í gær virðist Framsóknarflokkurinn í mikilli upplausn og þar ríkir hörð og köld valdabarátta - þar eru menn þegar farnir að horfa til þess hvernig pólitískum völdum verði skipt í kjölfar brotthvarfs Halldórs Ásgrímssonar úr ríkisstjórn og forystu flokksins. Virðist sem fátt sé heilagt í þeim pælingum öllum.
Í skugga svo mikilla væringa og deilna sem við öllum blasir innan samstarfsflokks Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Íslands þarf að greina stöðuna í þá þætti sem skipta máli. Að mínu mati eru hér í gangi tvær atburðarásir. Í fyrra lagi eru þau mál sem snúa að Framsóknarflokknum - ég lít á að flokksþingsmál Framsóknarflokksins og leiðtogakjör þeirra í kjölfar afsagnar Halldórs Ásgrímssonar sé sérmál og það er þeirra mál. Í seinna lagi er ríkisstjórnin og skipun ráðherra í hana í kjölfar afsagnar forsætisráðherrans. Það liggur ljóst fyrir að Halldór ætlar að fara frá sem ráðherra og það þarf að manna stjórnina að því loknu. Ef það getur ekki gengið hratt og örugglega hljótum við sjálfstæðismenn að meta flokkinn ekki stjórntækan og hljótum að velta því fyrir okkur að láta landsmenn taka afstöðu til flokkanna að nýju og greiða atkvæði um stöðu mála. Þetta er afskaplega einfalt í mínum huga og um seinna atriðið snýst málið nú hina næstu daga.
Í skugga annarra átaka er framsóknarfólk nú farið að rífast um tímasetningu flokksþings og innri mál í kjölfar afsagnar Halldórs. Það er mál Framsóknarflokksins og engra annarra. Það er þeirra að velja ráðherra sína. Það getur enginn gert fyrir þá. Ég tel að það sé afgerandi skoðun sjálfstæðismanna að ríkisstjórn Geirs verði að taka við í síðasta lagi á mánudaginn næsta, helst á laugardag eða sunnudag. Við sjáum það vel þessa dagana að Framsóknarflokkurinn er í algjöru rusli. Þar virðist ekki vera samstaða um eitt né neitt og meira að segja er þetta fólk farið að rífast núna um tímasetningu flokksþings þegar að aðalmál þeirra nú á að vera að manna ríkisstjórnina hratt og örugglega og velja ráðherra sína í kjölfar afsagnar Halldórs Ásgrímssonar. Þetta mun allt ráðast á næstu dögum. Það er óhugsandi að Sjálfstæðisflokkurinn bíði lengur en fram að lokum helgarinnar að mínu mati. Það þarf að binda enda á alla óvissu.
Geir H. Haarde tjáði sig um stöðu mála á mánudagskvöld hafandi fengið þau skilaboð frá forystumönnum Framsóknarflokksins að sátt væri í málinu milli aðila innbyrðis í forystunni. Það virðist alls ekki vera og ekki seinna en við lok fundarins á Þingvöllum hafði varaformaðurinn strunsað í burtu reiður og öllum ljóst að sáttin þar væri engin. Í mínum huga lítur málið þannig út að Framsóknarflokkurinn verður að sýna fram á það með afgerandi hætti að loknum miðstjórnarfundi sínum að hann sé stjórntækur áfram í skugga úlfúðar og innri átaka innan flokksins. Geti menn ekki bundið enda á óvissu sína varðandi ráðherramál fljótt og örugglega hljóta sjálfstæðismenn að verða hugsi yfir stöðu mála.
Ef að Framsókn getur ekki staðið í lappirnar með ráðherramál sín með sóma hljóta kosningar til Alþingis að taka bráðlega við. Fyrir því er vilji meirihluta þingmanna ef ekki semst um mál með þeim hætti að klára þá ellefu mánuði sem eru til kosninga. Það er alltaf erfitt að keyra snögglega á kosningar svosem enda gefst lítill tími til undirbúnings. Í október 1979 urðu stjórnarslit vegna innri krísu í stjórn Ólafs Jóhannessonar og þá voru kosningar boðaðar fyrstu helgina í desember, sex vikum eftir stjórnarslit. Það er því hægt að vinna hratt og örugglega ef Framsóknarflokkurinn getur ekki axlað sína ábyrgð og staðið í lappirnar.
Mér sem sjálfstæðismanni líst engan veginn á stöðuna í Framsóknarflokknum og tel óhugsandi að við eyðum sumrinu í að horfa á Framsóknarflokkinn hrynja niður innanfrá. Það er þá vænlegra að huga að kosningum til að leysa úr þeim brýnu verkefnum sem blasa við í landsstjórninni. Það verður Sjálfstæðisflokknum til gæfu að stýra málum rétta leið ef til glundroða kemur og ég tel (og finn) á viðbrögðum félaga minna um allt land að við viljum taka hratt og örugglega af skarið komi til ástands.
<< Heim