Meirihlutaskipti í bæjarstjórn framundan
Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tekur við völdum í bæjarstjórn Akureyrar á morgun á fyrsta fundi tímabilsins. Eins og venjulega stýrir starfsaldursforseti fundi og kosinn er bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar. Nú horfir svo við að Oddur Helgi Halldórsson, leiðtogi L-listans, er starfsaldursforseti bæjarstjórnar Akureyrar. Hann kom fyrst í bæjarstjórn árið 1997 sem aðalmaður af hálfu Framsóknarflokksins, eftir að hafa verið fyrsti varamaður þeirra í bæjarstjórn 1994-1997. Þá var Framsókn með fimm bæjarfulltrúa og ráðandi stöðu - það er óhætt að segja að þeir dagar séu liðnir. Árið 1998 urðu slit milli aðila - flokksmenn vildu ekki stilla Oddi Helga upp í öruggt sæti. Hann fór því í sérframboð á eigin vegum undir merkjum Lista fólksins og gerði það einnig í kosningunum 2002 og 2006. L-listinn fékk einn mann 1998, tvo árið 2002 en missti annan manninn nú og helming fylgisins.
Á föstudag kynntu bæjarfulltrúar meirihlutaflokkanna málefnasamning Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem samþykktur var á flokksfundum kvöldið áður. Það er mjög margt spennandi framundan sé miðað við þennan málefnasamning. Þar kemur m.a. fram ný nefndaskipan þar sem gert er ráð fyrir að jafnréttis- og fjölskyldunefnd ásamt áfengis- og vímuvarnarnefnd verði sameinaðar í fjölskylduráð sem einnig mun fara með tómstundamál; stofnuð verður ný nefnd, umhverfisnefnd, sem fer með sorpmál og málefni núverandi náttúruverndarnefndar; menningarmálanefnd verður lögð niður en menningarmál ásamt málefnum sem tilheyra kynningar- og markaðssetningu, atvinnumálum og ferðaþjónustu verða sett undir Akureyrarstofu. Stjórn Akureyrarstofu verður skipuð fimm fulltrúum bæjarstjórnar. Starfsemi og skipulag stofunnar verður nánar útfært í samvinnu við hagsmunaaðila á Akureyri.
Í málefnasamningnum eru skilgreind meginmarkmið meirihlutaflokkanna. Aðgerðaáætlun fyrir framkvæmd samningsins verður unnin í september. Þar verða einstök verkefni skilgreind, tímasett, kostnaðarmetin og þeim forgangsraðað. Merkilegast að mínu mati er að Akureyrarbær mun draga sig út úr Sorpsamlagi Eyjafjarðar b/s og stofna hlutafélag ásamt fyrirtækjum til að annast sorpförgun, bygging íþróttahúss við Giljaskóla, markviss lækkun leikskólagjalda (þau hafa verið þau lægstu hér og verða áfram), skattar lækkaðir á atvinnurekstur með lækkun holræsagjalds á árinu 2007, almenningssamgöngur verða gjaldfrjálsar frá 2007, bæði hjá Strætisvögnum Akureyrar og í Hríseyjarferju, bærinn mun beita sér fyrir því að vinna við gerð Vaðlaheiðarganga hefjist árið 2007 og unnið verður að því ásamt ráðuneyti að lengja flugbraut Akureyrarflugvallar og að hér verði útflutningsflughöfn.
Mér líst vel á verkefnin framundan og tel að framundan sé sterkur og öflugur meirihluti í bæjarstjórn sem mun keyra málin áfram og tryggja öfluga og sterka forystu fyrir sveitarfélagið. Það er svo sannarlega gleðiefni.
Málefnasamningur Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar
<< Heim