Ráðherrahrókeringar í ríkisstjórninni
Tilkynnt var í dag um skipan ráðherra í ríkisstjórn frá og með 15. júní nk. er Halldór Ásgrímsson, fráfarandi formaður Framsóknarflokksins, lætur af embætti forsætisráðherra. Formenn flokkanna gengu hratt og örugglega frá því verki að loknum miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur við embætti forsætisráðherra og verður sextándi forsætisráðherrann á lýðveldistímanum. Geir var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 1981-1985. Hann hefur verið alþingismaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1987. Hann varð fjármálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árið 1998 og kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 1999. Hann varð formaður flokksins og utanríkisráðherra við brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum haustið 2005. Mikið gleðiefni er að formaður Sjálfstæðisflokksins, stærsta flokks landsins, taki að nýju við forsætinu.
Miklar breytingar verða á ráðherrastólum af hálfu Framsóknarflokksins. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tekur við embætti utanríkisráðherra af Geir H. Haarde. Hún verður fyrsta konan sem gegnir því embætti. Valgerður hefur setið á þingi frá árinu 1987 og verið iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá brotthvarfi Finns Ingólfssonar úr stjórnmálum í árslok 1999. Jón Sigurðsson, seðlabankastjóri, verður iðnaðar- og viðskiptaráðherra í stað Valgerðar. Hann verður fyrsti maðurinn til að gegna ráðherraembætti án þess að vera þingmaður frá því að Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra 1988-1991. Jón hefur til fjölda ára verið virkur í starfi Framsóknarflokksins og gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir hann og verið seðlabankastjóri frá árinu 2003. Mikill orðrómur er um hlutverk Jóns í stjórnmálum, en við öllum blasir að hann er traustur og öflugur maður sem nýtur virðingar langt út fyrir raðir Framsóknarflokksins.
Jón Kristjánsson hættir sem ráðherra á sama tíma og Halldór Ásgrímsson og lætur af embætti félagsmálaráðherra. Jón tilkynnti jafnframt um það að hann ætli ekki að gefa kost á sér í þingkosningum að ári en verður óbreyttur þingmaður til næsta vors. Magnús Stefánsson tekur við embætti félagsmálaráðherra í stað Jóns. Sæunn Stefánsdóttir mun taka sæti á þingi við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar. Sigríður Anna Þórðardóttir víkur úr ríkisstjórn og fær Framsóknarflokkurinn því að nýju umhverfisráðuneytið. Jónína Bjartmarz mun taka við því ráðuneyti. Óbreytt skipting verður að hálfu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, utan þess að Sigríður Anna fer út úr stjórn og Geir verður forsætisráðherra. Það eru mikil vonbrigði fyrir okkur sjálfstæðismenn að missa Sigríði Önnu úr ríkisstjórn. Hún hefur unnið af heilindum og af krafti alla tíð í þeim verkefnum sem henni hefur verið treyst fyrir.
Þessi ríkisstjórn er mynduð á sama grunni og fjórða og síðasta ráðuneyti Davíðs Oddssonar, sem sat frá vori 2003 til haustsins 2004. Styrkleikar flokkanna eru eins nú og var í stjórnarmyndun vorið 2003, utan þess að Gunnar Örlygsson fór úr Frjálslynda flokknum og kom til liðs við okkur sjálfstæðismenn. Það er að mörgu leyti eðlilegt að snúa til þess kerfis og ljúka kjörtímabilinu með þeim hætti og það hófst. Það eru mikil vonbrigði eins og fyrr segir að missa Sigríði Önnu úr ríkisstjórn, en það skrifast vissulega á þessar hrókeringar og afturhvarf til þess hvernig hlutirnir voru fyrir 15. september 2004. Mér finnst mikill sjónarsviptir af Sigríði Önnu Þórðardóttur úr ríkisstjórn við þessi ráðherraskipti.
Fyrir mestu er að nú hafi náðst full samstaða um ráðherraskipan að loknum forsætisráðherraskiptum og tel ég stöðu mála mjög viðunandi hvað varðar stjórnarsamstarfið sem slíkt. Þar hefur allri óvissu um skipan ráðherra verið eytt og öllum ljóst hvað tekur þar við eftir brotthvarf Halldórs. Eftir stendur óvissa um forystu Framsóknarflokksins - sem er mál framsóknarmanna og engra annarra. Verður fróðlegt að sjá hvernig staða Framsóknarflokksins verður að loknu flokksþingi í ágúst þar sem ný forysta mun taka við flokknum.
<< Heim