Forystukapallinn í Framsókn
Í ítarlegum pistli mínum sem birtist á vef Heimdallar í dag fjalla ég forystukapal Framsóknarflokksins. Eins og allir vita er nú rúmur mánuður í flokksþing Framsóknarflokksins. Þar mun Halldór Ásgrímsson láta af formennsku í flokknum eftir tólf ára formannsferil og eftirmaður hans verður kjörinn. Þegar hefur Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tilkynnt um framboð sitt. Greinilegt er af atburðarás seinustu vikna að hann er frambjóðandi Halldórsarmsins í flokknum. Hann er fyrsti utanþingsráðherrann í tæpa tvo áratugi og hefur lengi verið virkur í innra starfi hans. Þegar má heyra orðróm þess efnis að Jón verði jafnvel einróma kjörinn til verka og engin átök verði um formannsstólinn. Eins og staðan er nú bendir ansi margt til þess að sú verði raunin. Reyndar hefur nú heyrst að Lúðvík Gizurarson, hæstaréttarlögmaður, hafi í hyggju að gefa kost á sér til formennsku og gaf hann reyndar út yfirlýsingu um þann áhuga sinn á miðvikudag. Mikið er grínast með þau tíðindi. Lúðvík hefur barist af krafti fyrir því seinustu árin að fá DNA-sýni úr Steingrími Hermannssyni, fyrrum formanni Framsóknarflokksins, til staðfestingar þeim sögusögnum að hann hafi verið launsonur Hermanns Jónassonar, fyrrum forsætisráðherra. Steingrímur hefur ekki viljað viðurkenna að Lúðvík sé bróðir hans og hefur neitað að afhenda DNA-sýni úr sér til rannsóknar. Lúðvík er skráður sonur Gizurar Bergsteinssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar, en móðir Lúðvíks var lengi ritari Hermanns Jónassonar og með þeim var vinskapur. Vill Lúðvík nú reyna á að fá sannað í eitt skipti fyrir öll sannleikann í málinu. Í gærkvöldi var Jón Sigurðsson í löngu og ítarlegu viðtali hjá Helga Seljan, frænda mínum, í Íslandi í dag. Það var mjög merkilegt viðtal, svo ekki sé meira sagt. Helgi spurði hann þar út í stóriðjumálin en Jón hefur nú nær algjörlega vikið af braut stóriðjustefnu þeirri sem Valgerður Sverrisdóttir talaði fyrir sem iðnaðarráðherra - greinilega ætlað til þess að ljá flokknum annan blæ og hann geti með betri hætti en áður sótt það fylgi sem hann hefur misst frá sér. Ennfremur var farið yfir Evrópumál og stjórnmálaáherslur Jóns sjálfs. Er óhætt að segja að viðtalið hafi verið mjög merkilegt og Jóni mislíkað margar spurningar Helga og svarað þeim með gusti. Þetta var allavega kostulegt viðtal og var áhugavert að sjá það.
Verði Jón formaður Framsóknarflokksins eins og mér virðist margt benda til með afgerandi hætti af atburðarás í þessum mánuði blasir nýtt landslag bæði við framsóknarmönnum og eins fulltrúum annarra flokka. Komi hann til forystu mun flokkurinn færast í órafjarlægð frá átakapunktum tengdum hópi fráfarandi formanns og S-hóps og öllu slíku. Framsóknarmenn skynja enda að skil verða að vera til að flokkurinn verði endurreistur til nýrra verka. Það hefur hann þegar hafið með því að færa stóriðjukúrsinn í allt aðra átt og róa hann mjög með mjög athyglisverðum yfirlýsingum sínum.
Eins og allir hafa séð með innkomu Jóns er þar kominn maður sem hefur allt að því ímynd pókerspilarans: er yfirvegaður og ákveðinn í senn. Kannski er það sú týpa sem flokkurinn þarf á að halda núna.
Hefur málið farið fyrir dómstóla og hefur Lúðvík ekki gefið neitt eftir. Óneitanlega er sterkur svipur með þeim og sú saga lengi verið lífseig að Hermann hafi verið faðir Lúðvíks. Það hlýtur fyrst og fremst að vera grín af hálfu Lúðvíks að gefa kost á sér til formennsku í Framsóknarflokknum og reyna með því að feta í fótspor feðganna Hermanns og Steingríms. Væntanlega er Steingrími ekki hlátur í huga yfir þessu öllu saman. Allir vita að Lúðvík Gizurarson verður ekki formaður Framsóknarflokksins og væntanlega um einn stóran húmor að ræða. Í fyrrnefndum pistli fer ég yfir fræga fléttu Halldórs Ásgrímssonar sem nefnd hefur verið um innkomu Jóns Sigurðssonar. Virðist hún ætla að ganga eftir að öllu óbreyttu. Aðeins Siv Friðleifsdóttir og Guðni Ágústsson eru talin geta velgt honum undir uggum og bíða nú allir eftir ákvörðun þeirra.
Bendi ég öllum á að horfa á viðtal Helga við Jón Sigurðsson og lesa fyrrnefndan pistil minn um forystukapalinn í Framsóknarflokknum.
<< Heim