Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 júlí 2006

Gúrkutíð í pólitíkinni á Akureyri

Ráðhúsið við Geislagötu

Það er ekki hægt að segja annað en að rólegt sé yfir stjórnmálunum þessa dagana. Tekist er þó vissulega á um matvælaverð í kjölfar skýrslu nefndar sem Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, skipaði í ársbyrjun. Tillögur í skýrslu nefndarinnar komu sem athyglisverður blær inn í umræðuna og ljóst að taka þarf pólitíska afstöðu til málsins enda eru tillögur nefndarinnar með þeim hætti að þær skilja eftir sig umhugsun fyrir bæði almenning og stjórnmálamenn. Það er nú stjórnmálamanna að taka afstöðu til þessara tillagna, vonandi með skynsömum og áberandi hætti. Samtímis þessu hækkar bensínverðið upp úr öllu valdi og liggur við að það sé orðinn hreinn og klár munaður að rúnta hringinn um landið þessar vikurnar á hásumri. Svo má auðvitað ekki gleyma Framsókn þar sem menn leita að nýrri forystu eftir að Halldór gufaði upp pólitískt og fór til fjalla.

Það virðist vera mjög rólegt yfir bæjarmálunum hér á Akureyri í kjölfar bæjarstjórnarkosninganna fyrir tæpum tveim mánuðum. Fundur bæjarstjórnar í júlí, sem vera átti nú á morgun, þriðjudag, hefur verið felldur niður vegna skorts á umræðuefnum. Vekur þetta vissulega athygli í þessu stóra sveitarfélagi. Fyrir tveim árum var hið sama upp á teningnum og þá ritaði Jón Ingi Cæsarsson, núv. varabæjarfulltrúi, á vef Samfylkingarinnar hér í bæ: "Það virðist sem hið nýja andlýðræðislega fyrirkomulag meirihlutans sé að létta bæjarfulltrúum, kjörnum fulltrúum Akureyringa, lífið léttara hvað varðar bæjarstjórnafundi." Síðar segir: "Kannski eiga sum vandamál rætur að rekja til þessa tímabils doða og aðgerðaleysis. Mörg mál mega og geta beðið en er það gott að láta alla stjórnsýslu liggja í dvala vikum og jafnvel mánuðum saman?".

Það þarf varla að taka það fram að enga slíka gagnrýni er að finna nú á vef Samfylkingarinnar hér á Akureyri þessar sumarvikurnar. Þessar vikurnar er Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, í sumarleyfi. Í fjarveru hans hafa þau Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs og leiðtogi Samfylkingarinnar, og Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, skipt bróðurlega og í fullum kærleika með sér því verkefni að leysa hann af. Seinustu vikur hefur Hermann Jón einn gegnt embættinu en ef marka má fréttir Svæðisútvarpsins í gær hefur Sigrún Björk nú tekið við bæjarstjóraembættinu, allavega í einhverjar vikur. Væntanlega mun bæjarstjóri snúa aftur til sinna starfa í byrjun næsta mánaðar. Ekki er óeðlilegt að forystumenn stjórnmála haldi í sumarleyfi - hefð hefur verið fyrir því frá 1998 að pólitískir samstarfsleiðtogar leysi hér bæjarstjóra af í fríinu hans í gúrkutíðinni.

Það vakti athygli mína fyrir nokkrum vikum að heyra í fréttahelsti Sjónvarpsins talað um að bæjarstjórinn á Akureyri væri að tjá sig um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skera niður af ýmsu tagi. Svosem eðlilegt að leitað væri viðbragða frá þeim bænum - vissi reyndar að hann væri þá fjarri sínum störfum og í fríi einhversstaðar fjarri bænum. En þá birtist Hermann Jón Tómasson í viðtali hjá Karli Eskil - ekki aðeins var hann titlaður bæjarstjóri (ekki starfandi bæjarstjóri sem eðlilegast hefði verið) og þar að auki var hann þá staddur greinilega á skrifstofu bæjarstjóra í Ráðhúsinu við Geislagötu og greinilega sinnir hann sínum verkum frá henni í fjarveru bæjarstjórans. Fannst mér merkilegt að sjá þetta viðtal þar sem ég var þá staddur í sumarleyfi austur á fjörðum og hugleiddi ég þá hversu merkilegt þetta væri.

En það er greinilega mikil gúrkutíð í pólitíkinni hér á Akureyri í ljósi þess að ekkert er til að fylla dagskrá á bæjarstjórnarfundi og fátt almennt um að tala á þeim vettvangnum - eflaust er eðlilegast og ráðlegast að halda út í sólina og hugsa um eitthvað annað en gúrkutíðina næstu vikurnar í þeim bransanum. Það er reyndar svo sannarlega hið mesta lán fyrir okkur að til sé þó fólk sem getur staðið vaktina á bæjarskútunni í þessari miklu pólitísku lognmollu sem uppi er.