Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 júlí 2006

Áhugaverð mynd um Willy Brandt

Willy Brandt

Sl. sunnudagskvöld sýndi Ríkissjónvarpið fyrri hluta þýsku sjónvarpsmyndarinnar Í skugga valdsins eða "Im Schatten der Macht". Þar er seinustu mánuðum kanslaraferils Willy Brandt lýst í smáatriðum og farið yfir alla atburðarásina. Willy Brandt er í senn einn eftirminnilegasti og svipmesti stjórnmálamaður Þýskalands á 20. öld. Hann var lykilmaður í stjórnmálum V-Þýskalands í um 30 ár og valdamesti forystumaður landsins um nokkurra ára skeið. Stjórnmálaforysta hans varð bæði umdeild og áhrifarík í huga Þjóðverja. Hann var litríkur leiðtogi síns flokks og var umdeildur, bæði innan eigin raða sem og utan þeirra. Eflaust má deila um það hvort Willy Brandt var sterkur stjórnmálamaður, en menn deila varla um arfleifð hans í þýskum stjórnmálum.

Willy Brandt leiddi flokk sinn, SPD, með járnkrafti í 23 ár, árin 1964-1987 og var kanslari V-Þýskalands árin 1969-1974. Mitt í stjórnmáladeilum vegna stefnu sinnar, Ostpolitik, sem fól í sér bætt tengsl V-Þýskalands við A-Þýskaland, Pólland og Sovétríkin hlaut hann friðarverðlaun Nóbels fyrir hana árið 1971. Það varð mörgum undrunarefni að nóbelsakademían skyldi heiðra Brandt og fyrrnefnda stefnu hans og sló mjög á gagnrýni á hann. Margir töldu hann búinn að vera í aðdraganda kosninganna 1972, sem varð að boða til vegna falls þingmeirihlutans, en hann stóð það af sér. Brandt var heiðursformaður SPD frá lokum leiðtogaferils síns árið 1987 til dauðadags árið 1992. Willy Brandt lést úr krabbameini 8. október 1992.

Willy Brandt neyddist til að segja af sér embætti kanslara Þýskalands í apríl 1974 eftir að ljóst varð að Günter Guillaume, einn af hans nánustu pólitísku samstarfsmönnum hafði verið njósnari A-Þjóðverja og unnið fyrir leyniþjónustu A-Þýskalands, hina alræmdu Stasi, á meðan að hann vann fyrir kanslarann. Það var Brandt mjög á móti skapi að víkja vegna þess máls en sú varð þó raunin. Atburðarásin á bakvið seinustu daga hans í kanslaraembættinu var merkileg og er í senn merkilegasti tími stjórnmálaferils Willys Brandt og botninn á löngum ferli þessa stjórnmálamanns. Helmut Schmidt tók við kanslaraembættinu af Brandt. Schmidt var hægrisinnaðri en Brandt innan SPD. Stjórnin hélt þó velli óbreytt átta ár til viðbótar en hún féll svo með dramatískum hætti árið 1982.

Þrátt fyrir smánarleg endalok kanslaraferilsins leiddi Brandt SPD í þrettán ár eftir afsögnina. Honum mistókst þó að verða aftur kanslari Þýskalands en varð virtur um allan heim sem þekktur fyrirlesari og kom t.d. til Íslands í heimsókn árið 1991, skömmu fyrir andlát sitt, til að halda fyrirlestur. Lengi hefur verið deilt um það hvort njósnahneykslið árið 1974 hafi verið það alvarlegt að Brandt hefði þurft að segja af sér. Sögur hafa lengi gengið um það að umfram allt hafi farið fram uppreisn innan SPD og tekist hafði verið á um meginþætti Brandts sem stjórnmálamanns. Brandt hélt því alla tíð fram að nánir samstarfsmenn sínir innan flokksins hefðu snúið við honum baki og það umfram allt hafi leitt til þess að honum var ekki sætt áfram, ekki njósnamálið sem slíkt.

Það er alveg greinilegt að sagan í þessari fyrrnefndu sjónvarpsmynd er sett upp með þeim hætti að pólitískir hagsmunir annarra félaga hans í forystusveit SPD hafi orðið til þess að binda endi á kanslaraferil hans. Reyndar er skemmtilegt frá því að segja að Matthias, sonur Willy Brandt, leikur Günter Guillaume í þessari sjónvarpsmynd. Það olli bæði undrun og deilum. Ég hafði gaman af fyrri hluta þessarar áhugaverðu myndar og hvet alla til að horfa á þann seinni á sunnudagskvöld.