Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 júlí 2006

Kvikmyndaþrenningin um Guðfaðirinn

The Godfather

Ein besta kvikmyndaþrenning í sögu kvikmyndanna er The Godfather, magnþrungin ættarsaga Corleone-mafíufjölskyldunnar í New York. Er hún byggð á heimsþekktri sögu Mario Puzo. Alla mína ævi hafa þessar þrjár kvikmyndir heillað mig og alla sanna kvikmyndaunnendur og verið innlifun og yndisauki í kvikmyndaheiminum. Hafa þær alltaf verið meðal minna uppáhaldsmynda og maður sér þær aldrei nógu oft. Í dag kom ég því loksins í verk að kaupa mér allt safnið á DVD. Átti ég þær bara á VHS-safnútgáfunni sem var gefin út fyrir um átta árum og ákvað að stokka upp. Í nýja safninu er endurbætt útgáfa myndarinnar, aukaefni og margt annað spennandi sem ekki hefur verið áður að sjá í myndunum.

Fyrsta myndin markaði straumhvörf í kvikmyndaheiminum er hún varð frumsýnd árið 1972 og kom leikstjóranum Francis Ford Coppola svo sannarlega á kortið í Hollywood. Um var enda að ræða glæsilega mynd í uppbyggingu og útliti og þótti óaðfinnanleg úttekt á mafíulífinu í nýja heiminum, gerð með sannkölluðum stórmyndastíl í meistaralegri kvikmyndatöku. Hún hlaut fjögur óskarsverðlaun árið 1972, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir handrit og magnþrunginn leik leiksnillingsins Marlon Brando í hlutverki guðföðurins Don Vito Corleone, sem öllu stjórnar á bakvið tjöldin. Auk hans fóru Al Pacino, James Caan, Talia Shire, Robert Duvall og Diane Keaton á kostum. Í bakgrunni var svo hin magnþrungna tónlist snillingsins Nino Rota.

Tveimur árum síðar, árið 1974, gerði Coppola framhaldsmynd um Corleone fjölskylduna. Var þar um að ræða samanfléttaða sögu af því annars vegar hvernig Don Vito Corleone varð valdamikill ættarhöfðingi í mafíuheiminum í upphafi 20. aldarinnar, og hins vegar hvernig Michael sonur hans, stýrir veldi föður síns eftir dauða hans. Vakti önnur myndin ekki síðri athygli en fyrirrennarinn. The Godfather, Part II, var lofuð, jafnt af gagnrýnendum og kvikmyndaunnendum. Hún var tilnefnd til 10 óskarsverðlauna og hlaut 6; sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Coppola, leik Robert DeNiro og handrit Puzo og Coppola. Þriðja og síðasta myndin var gerð árið 1990 og segir frá magnþrungum endalokum mafíuveldis Corleone-ættarinnar.

Það er svo sannarlega áhugavert að sjá þetta flotta safn í þessum vandaða pakka. Framundan er svo það verkefni að losna við VHS-útgáfuna af myndunum. Vilji einhver fá pakkann fyrir mjög lítinn pening getur viðkomandi haft samband við mig