Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 júlí 2006

Lágkúruleg myndbirting

Díana prinsessa af Wales

Í næsta mánuði eru níu ár liðin frá sviplegu andláti Díönu, prinsessu af Wales, í sorglegu umferðarslysi í miðborg Parísar. Enn er mörgum spurningum ósvarað um ástæður slyssins og stundirnar fyrir aðdraganda þess, hvað varðar bílstjórann sem keyrði prinsessuna þennan örlagaríka bíltúr og svo ekki síður þá fjölmiðlamenn sem á eftir þeim fylgdu. Löngu áður en Díana prinsessa lést var hún miðpunktur fjölmiðlaumfjöllunar og var mest myndaða kona heims er lífi hennar lauk með þessum sorglega hætti. Lengi var haft það á orði að fjölmiðlar hefðu að lokum hundelt hana í dauðann. Eins og frægt varð taldi bróðir hennar að örlög hennar hafi verið fólgin í vilja fjölmiðla að hundelta hana og reyna að ná sífellt fleiri myndum af henni sem gætu selt fleiri blöð um allan heim. Hún hafi á endanum orðið fórnarlamb fjölmiðla.

Nú níu árum eftir hið örlagaríka slys vekur athygli að ítalska tímaritið Chi telur við hæfi að birta áður óbirtar myndir sem teknar voru af Díönu örfáum mínútum eftir að hún lenti í slysinu. Myndirnar voru gerðar upptækar af frönsku lögreglunni eftir slysið, en þær voru teknar af paparazzi ljósmyndurum sem eltu prinsessuna og Dodi Al Fayed frá Ritz hótelinu. Samkomulag hafði verið gert um að myndirnar skyldu aldrei koma fyrir almenningssjónir eða verða birtar í dagblöðum eða sjónvarpi. Þetta samkomulag var reyndar svikið árið 2004 er CBS sjónvarpsstöðin birti aðra mynd en Chi birtir nú í fréttaskýringarþættinum 48 Hours. Í Chi er að finna fleiri umdeilanlega þætti málsins, t.d. ítarlegar teikningar af líki prinsessunnar eftir krufningu sem sýnir nákvæmlega áverkana sem hún hlaut í slysinu.

Með hreinum ólíkindum er hversu lágkúruleg fréttamennska nútímans er orðin, miðað við þessi vinnubrögð. Ástæða þess að myndirnar eru birtar nú er ekki sýnileg, nema þá að reyna að hafa minningu prinsessunnar að féþúfu og reyna að ýfa upp sár nánustu aðstandenda hennar. Nú hafa synir Díönu, prinsarnir William og Harry, sent út frá sér fréttatilkynningu þar sem þeir fordæma ákvörðun Chi um að birta myndina af móður þeirra í andaslitrunum. Segja þeir ennfremur eðlilega skyldu sína vera að verja hana fyrir ágangi fjölmiðla og utanaðkomandi aðila. Er ekki hægt annað en vorkenna ættingjum og aðstandendum á þeim tímapunkti sem "fjölmiðlun" nær þessum sorglega lágpunkti. Það á að vera heiðarleg skylda fjölmiðla að vanhelga ekki minningu látinna eða reyna að standa vörð um virðingu þeirra sem látnir eru.

Það er skoðun mín að þessi myndbirting komi umræðu um fjölmiðla á lágan stall og í raun er ekki hægt annað en fordæma þessa myndbirtingu. Það á að vera skylda fjölmiðla að koma fram með heiðarlegum hætti og ekki gera neitt það sem augljóslega misbýður þeim sem eru í sárum eftir sorglegt andlát ættingja eða vinar. Birting myndarinnar hefur verið fordæmd í Bretlandi, meira að segja af slúðurblöðunum þar og almenningur hefur látið skoðun sína vel í ljósi. Óhætt er að fullyrða að þessi myndbirting sé ekki viðeigandi og er full ástæða til að hneykslast á dómgreindarbresti þeirra sem taka ákvörðun um að birta opinberlega myndir sem þessar. 9 ár eru liðin frá láti prinsessunnar og tímabært að leyfa henni að hvíla í friði og hætta fjölmiðlafárinu.