Ítalir heimsmeistarar í knattspyrnu 2006
Ítalir eru heimsmeistarar í knattspyrnu eftir sigur á Frökkum í æsispennandi og mjög dramatískum úrslitaleik HM í Berlín í kvöld. Fyrirliði Ítala, hinn 33 ára gamli leikmaður Juventus, Fabio Cannavaro, tók við gullstyttunni frægu úr hendi Lennarts Johansson, hins 76 ára gamla forseta UEFA. Leiksins verður lengi minnst, enda var hann svipmikill og vettvangur mikilla tilfinninga leikmanna beggja liða. Leikurinn byrjaði af krafti með marki Zinedine Zidane, fyrirliða Frakka, úr vítaspyrnu á sjöundu mínútu leiksins. Á nítjándu mínútu jafnaði varnarmaðurinn Marco Materazzi leikinn með glæsilegu skallamarki. Engin mörk komu í seinni hálfleik og því var framlengt. Um miðja framlengingu munaði litlu að Zidane næði að bæta við öðru marki Frakkanna en Buffon varði fimlega. Fyrir HM hafði Zinedine Zidane, fyrirliði Frakka, gefið út að hann myndi ljúka knattspyrnuferli sínum þar. Ferill Zidane er orðinn merkilegur, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hann skoraði tvenn af þremur mörkum Frakka í úrslitaleiknum á HM í París árið 1998 og var þjóðhetja Frakka fyrir að tryggja liðinu sigurinn á heimavelli á ógleymanlegu heimsmeistaramóti. Hann var sterkur hlekkur í liðinu á EM árið 2000. Gengi liðsins var langt undir vonum á HM árið 2002 og öllum er ljóst hvernig fór á EM árið 2004. Nú vildi hann leika af krafti og tryggja liðinu sigur við lok eigin ferils. Zidane tryggði Frökkum sæti í úrslitaleiknum með marki sínu gegn Portúgal í leik liðanna München fyrr í vikunni. Framan af úrslitaleiknum stefndi allt í glæsileg endalok knattspyrnuferils hans. Eins og ég hef áður vikið að hér á vefnum höfðu öll þau lið sem ég taldi vænlegust fyrir keppnina misst af möguleikum á titlinum er kom að úrslitaleiknum. Ég hélt eins og flestir vita sem lesa vefinn með Ítölum í úrslitaleiknum. Þeir stóðu sig gríðarlega vel á þessu móti - unnu samhent og af krafti fyrir því að ná árangri. Liðsheild þeirra og samstillt maskína tryggði þeim sigur á þessu móti - það blasir alveg við. Marcello Lippi leiddi liðið til glæsilegs árangurs og getur svo sannarlega verið sáttur með glæsilegan árangur við lok mótsins. Sigur þeirra var verðskuldaður. Þjóðverjar áttu ennfremur skilið bronsið úr því sem komið var. Bæði lið unnu mjög samhent að því að ná árangri. En það er þó ekki annað hægt en að vorkenna Frökkum eftir úrslitaleikinn en þeir misstu leikinn frá sér með nokkrum afdrifaríkum mistökum, þeirra stærst varð dómgreindarbrestur Zizou. Fyrst og fremst á Sýn mikið hrós skilið að mínu mati fyrir að halda utan um mótið af miklum glæsibrag og með fagmannlegum og jákvæðum hætti - þar hefur þessi mánuður orðið að ógleymanlegri gleði fyrir knattspyrnuáhugamenn um allt land. Þar hafa allir leikir og öll smáatriði þeirra verið skýrð með svo góðum hætti að unun er fyrir bæði knattspyrnufíkla sem og hreina áhugamenn heima í stofu. Sýn lagði stöðina alveg undir mótið og allar mögulegar hliðar mótsins, sem og þættir um sögu þess, voru áberandi allt mótið og löngu fyrir það. Það verður svo sannarlega ekki tekið af Arnari Björnssyni og hans fólki að þar var unnið með jákvæðum og góðum hætti að því að tryggja að leikgleði og fótboltaáhuginn bærist heim í sem flestar stofur í landinu.
Á 110. mínútu lauk knattspyrnuferli Zidane með sorglegum hætti er hann skallaði Marco Materazzi í brjóstið með harkalegum hætti. Zidane fékk rauða spjaldið í kjölfarið. Fleiri mörk voru ekki skoruð á framlengdum leiktíma. Taugar Ítala héldu betur en Frakkanna í vítaspyrnukeppninni. Ítalir skoruðu úr öllum fimm vítaspyrnum sínum en franski varamaðurinn David Trezeguet, sem varð hetja Frakka er hann skoraði gullmarkið í úrslitaleik Evrópukeppninnar árið 2000 þar sem þeir sigruðu Ítali, gerði út af við sigurvonir Frakka að þessu sinni með því að skjóta í þverslána og tryggja með því sigur Ítalanna. Tólf árum eftir að Ítalir töpuðu úrslitaleiknum á HM í Bandaríkjunum árið 1994 fyrir Brasilíu í ógleymanlegri vítaspyrnukeppni höfðu þeir því betur gegn Frökkum í ekki síður ógleymanlegri vítaspyrnukeppni. Úrslit höfðu ekki ráðist í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik á HM frá árinu 1994.
Reyndar hafa Ítalir þrisvar áður tapað titlinum á HM í vítaspyrnukeppni. Greinilegt var að þreföld ógæfa Ítala gerði þá enn einbeittari að þessu sinni og nú var sigri landað. Fótboltaáhugamenn um allan heim, einkum Frakkar og Ítalir, voru í greipum spennunnar á meðan að vítaspyrnukeppninni stóð. Fögnuður Ítala á sigurstund í Berlín í kvöld var svo sannarlega ósvikinn. Þetta er í fjórða skiptið sem Ítalir verða heimsmeistarar í fótbolta. Þeir sigruðu fyrsta sinni á HM á heimavelli í leik gegn Tékkóslóvakíu árið 1934, unnu öðru sinni á HM í Frakklandi árið 1938 í leik gegn Ungverjalandi og sigruðu svo þriðja sinni árið 1982 í æsispennandi úrslitaleik við V-Þýskaland. Saga Ítalíu í keppninni er því bæði sigrum og ósigrum mörkuð. Að þessu sinni var sigurinn verðskuldað þeirra.
Það breyttist allt á 110. mínútu úrslitaleiksins eins og fyrr segir. Það leikur enginn vafi á því að hann klúðraði eigin málum með ótrúlegum hætti með því að skalla Materazzi í brjóstkassann og hlaut rauða spjaldið fyrir í lok merkilegs ferils - talandi um niðurlægingu ársins. Það var táknrænt að sjá Zizou fara af leikvelli eftir þau örlög - í forgrunni er hann gekk burt var HM-styttan sögufræga sem hann hampaði fyrir átta árum. Nú var draumur hans um að lyfta styttunni úti, ferlinum lokið með sneyptum hætti og væntanlega gekk hann með dómgreindarbresti sínum í hita leiksins endanlega frá möguleikum Frakka á því að ná árangri og sigri á mótinu. Öll franska þjóðin, sem og félagar hans í landsliðinu, hljóta að kenna Zizou um hvernig fór í Berlín í kvöld. Það er því allnokkur byrði sem Zinedine Zidane þarf að bera nú.
En nú er HM lokið og tómarúm tekur við í lífi fótboltafíkla um allan heim sem í heilan mánuð hafa lifað fyrir næsta leik á HM og hlakkað til að spá og spekúlera í flottum mörkum, marktækifærum og pælingum um lið og leikmenn. Þetta hefur verið gósentíð knattspyrnumanna eins og ávallt og veislan hefur verið mjög eftirminnileg. Ég er einn þeirra sem hafa horft á nær alla leiki og haft gríðarlega gaman af þessu knattspyrnumóti - þetta hefur verið sannkölluð paradís fyrir mig sem og marga fleiri. Tek ég heilshugar undir það sem Össur Skarphéðinsson ritar um HM og alla hluti tengda því í góðum pistli á heimasíðu sinni.
Gullmolinn í allri umfjölluninni var svo samantektarþáttur leikdagsins, 4-4-2, í magnaðri umsjón þeirra Þorsteins J. og Heimis Karlssonar. Frábært í alla staði. Við sem unnum fótbolta munum svo sannarlega sakna þáttarins og svo auðvitað boltans næstu dagana. En við huggum okkur við það að aðeins tvö ár eru í EM í fótbolta og fjögur ár eru oft fljót að líða. En eftir stendur magnað mót og eftirminnilegt í alla staði. Það var svo sannarlega yndisauki á góðu sumri.
<< Heim