Þjóðverjar hampa bronsi á heimavelli
"Deutschland über alles" var lykilorð gærkvöldsins á HM í fótbolta þegar að þýska landsliðið tryggði sér bronsið og sigraði Portúgali 3:1 í mjög áhugaverðum knattspyrnuleik í Stuttgart. Það var að mínu mati aldrei vafi á því að Þjóðverjar næðu bronsinu. Þeir voru á heimavelli og þyrstir í árangur eftir að hafa tapað fyrir Ítölum fyrr í vikunni í kostulegum leik þar sem hinir ítölsku náðu sigrinum leiftursnöggt með tveim mörkum á örskotsstundu. Öll mörk leiksins voru skoruð í síðari hálfleiknum. Stjarna leiksins var hinn þýski Bastian Schweinsteiger sem skoraði tvö flott mörk fyrir Þjóðverja, á 56. og 78. mínútu. Armando Petit varð svo óheppinn að skora sjálfsmark á 61. mínútu og staðan varð skyndilega 3:0. Á 88. mínútu minnkaði svo Nuno Gomes muninn fyrir Portúgali. Oliver Kahn hinn skrautlegi markmaður Þjóðverja spilaði í gær kveðjuleik sinn með þýska landsliðinu. Fannst mörgum það athyglisvert fyrir mótið að Jürgen Klinsmann þjálfari, valdi Jens Lehmann sem aðalmarkmann liðsins framyfir Kahn sem var leikmaður mótsins árið 2002. Var lengi vel móts talað um mikla persónulega óvild Lehmann og Kahn, sem flestum þótti reyndar vera orðum aukin. Reyndar var öllum ljóst að Kahn var ekki sáttur við sitt hlutskipti sitjandi meginhluta mótsins á bekknum og verandi varaskeifa Lehmann. Lehmann sannaði snilli sína svo um munaði í leik Þjóðverja við Argentínu í átta liða úrslitunum. Lehmann ákvað svo að leyfa Kahn að vera í markinu í lokaleik liðsins á mótinu og fékk því Kahn að kveðja landsliðið með glans í þessum leik, sem og hann átti auðvitað vissulega skilið. Mikla athygli á þessu móti vakti aðili utan vallar, ekki fyrrum fótboltaspilari eða þekktur knattspyrnuspekúlant heldur Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Hún vann mikinn sigur í huga og hjarta Þjóðverja með því að mæta á alla leiki og fagna öllum mörkum liðsins sem mjög sannfærandi hætti og af talsverðri innlifun. Eftirminnileg voru augnablikin er Lehmann fór á kostum í vítaspyrnukeppninni gegn Argentínu en þá stökk Merkel á fætur og fagnaði sem innlifaður fótboltasérfræðingur væri. Lengi vel var talinn meginveikleiki Angelu Merkel sem stjórnmálamanns hversu litlaus og óspennandi hún væri utan stjórnmála. Sá stimpill fór svo sannarlega af henni á þessu móti og væri ekki óeðlilegt að álíta að hennar persónulegu vinsældir sem stjórnmálamanns hefðu aukist til muna.
Þjóðverjar voru sárir með tapið fyrir Ítölum og lögðu því mikla áherslu á sigur í gær. Þeir höfðu járnkraft og ákveðni því með sér inn á völlinn og náðu árangri. Margir Þjóðverjar voru farnir að halda fyrir nokkrum vikum að sigur á mótinu væri innan seilingar og vonbrigðin því mikil eftir leikinn á þriðjudag. Enginn vafi leikur á því að Þjóðverjar vildu árangur á þessu móti. Fyrirfram var talið ólíklegt að liðið kæmist í undanúrslit en þeim tókst það þó. Þjóðverjar hafa lengi verið stórveldi í fótboltanum og urðu heimsmeistarar árin 1954, 1974 og 1990. Fyrir fjórum árum töpuðu Þjóðverjar fyrir Brössum í úrslitaleiknum. Þá var mikill kraftur í Þjóðverjum og Michael Ballack og Oliver Kahn voru meðal helstu stjarna mótsins. Sigurinn í gær varð því sárabót fyrir Þjóðverja að þessu sinni.
Það hefur reyndar oft verið sagt að enginn vilji skiljanlega leika um þriðja sætið á stórmóti á borð við heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Þar mætast enda tapliðin í undanúrslitaleiknum og lið sem hafa þurft að lúta í gras en mætast til að útkljá hver fær bronsið. Það var ekki að sjá í gær að það þjakaði Þjóðverja og Portúgali að vera í þessum leik. Eftir allt er til einhvers vissulega að vinna þó að auðvitað vilji enginn spila til leiks um sárabætur sem bronsið er oft talið. Það er þó svo að mun skárra er að spila til bronsins en silfursins. Það vill enginn hampa silfri á svona móti. Það að vera í öðru sæti í keppnisíþrótt á borð við fótbolta hefur enda alltaf verið talin lítt áhugaverð staða til að hampa sér á. Það er þó ljóst að Þjóðverjar spiluðu mjög sannfærandi í gær og aldrei vafi á því hvort liðið myndi sigra.
Það var einmitt svo Angela Merkel sem afhenti þýska liðinu sigurlaunin í gærkvöldi, bronsið sjálft. Fannst mörgum merkilegt að sjá Merkel þar í hrókasamræðum við Oliver Kahn og Jürgen Klinsmann um fótboltann og gengi liðsins á þessu móti. Fannst mörgum reyndar merkilegt í gærkvöldi að sjá Merkel í hrókasamræðum við Sepp Blatter á leiknum í gærkvöldi og umræðuefnið var fótbolti. Fyrir einhverjum misserum hefðu verið talin stórtíðindi að hinn gegnumsýrði stjórnmálamaður dr. Angela Merkel hefði rætt á opinberum vettvangi um knattspyrnuiðkun og íþróttina sem ástríðu. Það hefur hún gert þann mánuð sem keppnin hefur staðið í landinu. Með því hefur hún öðlast stuðning langt út fyrir sínar raðir og enginn vafi er að hún hefur vaxið mjög í embætti.
Í kvöld munu Ítalir og Frakkar keppa til úrslita á mótinu um sjálft meginhnoss knattspyrnuheimsins: gullstyttuna sögufrægu eftir ítalska myndhöggvarann Silvio Gazazniga sem fyrst var afhent á heimsmeistaramótinu árið 1974. Þá fór styttan til Þjóðverja. Nú stefnir í frábæran slag og telja flestir Ítali sigurstranglegri. Hvort fagnað verður í Róm eða París í kvöld er stóra spurningin nú. Allir sannir knattspyrnuáhugamenn fylgjast með af áhuga í kvöld.
<< Heim