Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 júlí 2006

Mikilvægi Dalsbrautar

Akureyri

Það vakti athygli mína að sjá á vef Akureyrarbæjar fundagerð bæjarráðs frá því á fimmtudag. Þar er rætt um málefni Dalsbrautar, tengibrautar yfir í Naustahverfi sem lengi hefur verið rætt um að klára til fulls en verið mjög umdeild framkvæmd og tekist var á um málið mjög í kosningunum fyrr á þessu ári. Á fyrrnefndum fundi bæjarráðs var lagt fram erindi frá áhugahópi um bætta umferð á Akureyri ásamt undirskriftalista, þar sem því er beint til bæjarráðs að breyta fyrri ákvörðun varðandi lagningu tengibrauta og hefja þegar í stað undirbúning að lagningu Dalsbrautar. Fyrr á þessu ári tilkynntu Kristján Þór Júlíusson og Jakob Björnsson, leiðtogar þáverandi bæjarstjórnarmeirihluta, um þá ákvörðun að setja Dalsbraut aftur á skipulag en setja Miðhúsabraut í forgang nú.

Í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar segir um þetta tiltekna mál að þörfin fyrir lagningu Dalsbrautar verði metin þegar Miðhúsabraut hefur verið í notkun í tvö ár. Hefur það enda verið skilningur manna að með því sé komið til móts við mismunandi sjónarmið íbúa og fagmanna í þessu máli. Meirihluti bæjarráðs sem skipaður er af Hermanni Jóni Tómassyni, Sigrúnu Björk Jakobsdóttur og Elínu Margréti Hallgrímsdóttur bókaði á fundinum að ekkert hefði komið fram sem kallaði á endurskoðun þessarar áætlunar. Ég heyrði utan af mér seinnipart viku að Samfylkingin sé orðin hógværari en venjulega hér á Akureyri. Þeir lögðu mikla áherslu á Dalsbraut í kosningabaráttu sinni og vildu að hún yrði að veruleika sem fyrst. Það virðist eitthvað hafa róast yfir Samfylkingarfólki eftir að þeir komust í meirihluta.

Ég hef talið um langt skeið mikilvægt að Miðhúsabraut eigi að setja í forgang og svo sé mikilvægt að Dalsbraut verði að veruleika sem fyrst eftir það. Finnst mér reyndar með hreinum ólíkindum að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, á árunum 2002-2006, hafi ekki hraðað Miðhúsabraut af krafti. Hlýtur það að teljast einhver mestu mistök þess meirihluta og í raun með ólíkindum að ekki hafi framkvæmdir verið hafnar við þann hluta fyrr en raun ber vitni. Hlýtur hinn almenni bæjarbúi, sérstaklega sá sem býr í Naustahverfi að spyrja sig að því hversvegna ekki hafi verið ráðist fyrr í þetta verkefni. Fátt virðist um svör vegna þess. En það er auðvitað gott að nú hafi fólk reiknað saman tvo og tvo og séð mikilvægi þess að framkvæmdin verði að veruleika á þessu kjörtímabili.

Ég bý við Þórunnarstræti, eina fjölförnustu götu Akureyrarbæjar. Ég fagna því að sjálfsögðu að Dalsbraut hafi aftur verið sett inn á skipulag fyrr á þessu ári og vil ég hraða gerð hennar frá því sem þá var ákveðið. Satt best að segja hefur mér aldrei þótt það sérstaklega kræsilegt að setja alla umferð í Naustahverfið í gegnum Þórunnarstrætið og hef verið þeirrar skoðunar að Dalsbraut eigi að leggja, fyrr en seinna. Hún hefur verið inni á skipulagi allt frá árinu 1974 og kemur því engum að óvörum, hvorki bæjarbúum almennt né heldur þeim sem byggt hafa íbúðarhús sín eða byggingar af öðru tagi á þessu svæði.

Ég tel mikilvægt að Dalsbraut í þeirri mynd sem rætt hefur verið um verði að veruleika vel fyrir lok þessa kjörtímabils. Sem íbúi við Þórunnarstræti tel ég það algjörlega óhjákvæmilegt að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hraði þessari framkvæmd frá því sem áður var ákveðið.