Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 júlí 2006

Yndislegar kvikmyndir

Marlon Brando í Apocalypse Now

Seinustu dagana hef ég notið þess að horfa á góðar og yndislegar kvikmyndir. Pólitíkin hefur verið sett aðeins til hliðar, enda gott að gleyma henni aðeins á heitum og fögrum sumardögum. Ég hef verið að horfa aftur á gamlar stórmyndir, sem ég hafði ekki lengi horft á, og svo að horfa á þessar sígildu og góðu sem alltaf eru eftirminnilegar í kvikmyndasögunni. Hef ég haft gaman af að horfa á Apocalypse Now í Redux útgáfunni aftur. Ég hef lengi verið mikill unnandi þessarar stórmyndar Francis Ford Coppola og sérstaklega notið þess hversu yndislega hrá og svört hún er í innra sem ytra laginu. Coppola vann að myndinni í rúm fimm ár og var hans erfiðasta og dýpsta verk á ferlinum. Brando fékk metupphæð fyrir leik sinn í hlutverki ofurstans, sem myndin snýst öll um en sést aðeins í enda myndarinnar. Viljirðu sjá hráa eðalmynd er þetta toppurinn.

Marlon Brando í The Godfather

Svo hef ég verið að rifja upp kynnin af Guðföðurnum. Þetta er reyndar þrílógía sem ég horfi á að minnsta kosti þrisvar á hverju ári. Þríleikurinn um Corleone-fjölskylduna er slíkt kvikmyndastórvirki að annað eins hefur ekki sést að mínu mati. Allt frá stærstu atriðum til hinna mikilvægu smáatriða kemst til skila í þessum myndum með sannkölluðum glæsibrag. Ég fékk mér um daginn DVD-safnið af myndaröðinni. Það er eiginlega óviðjafnanlegt að horfa á myndirnar undir leiðsögn Francis Ford Coppola sjálfs og heyra þar allt frá a-ö við gerð myndanna og þeirra sem að þeim komu. Coppola segir reyndar á einum stað að það eina sem hann hefði gert hefði verið að leiða saman úrvalsfólk, hvert í sínum geira, til að gera þetta stórvirki. Hlutur hans er náttúrulega stærstur en hann kom þessu glæsilega kvikmyndaverki á hvíta tjaldið. Ég mun á næstu dögum fjalla ítarlega um Guðföðurmyndirnar þrjár, hverja í sínu lagi.

Anne Baxter, Bette Davis, Marilyn Monroe og George Sanders í All About Eve

Nýlega horfði ég svo enn eina ferðina á hið ógleymanlega meistaraverk Joseph L. Mankiewicz, All About Eve. Þetta er náttúrulega rjóminn í kvikmyndagerð síns tíma. Sagan af Eve Harrington og hvernig henni tekst að komast í miðpunkt ævi stórleikkonunnar Margo Channing er enn í dag sannkallaður eðall í kvikmyndasögunni. Það hefur ekki liðið langt á myndina þegar að öllum verður ljóst að Eve er ekki öll þar sem hún er séð. Stórfenglegur leikarahópur fer þarna á kostum: Bette Davis átti leik ferilsins í hlutverki Margo, Anne Baxter er yndislega klók sem Eve, Thelma Ritter er yndislega fyndin sem Birdie, George Sanders skemmtilega illkvittinn sem leiklistargagnrýnandinn Addison, Celeste Holm yndislega fögur sem hin saklausa Karen og Marilyn Monroe skaust upp á stjörnuhimininn þarna í fyrsta skiptið sem saklausa og ljúflétta ljóska. Gullaldarklassík sem skartaði dýnamísku handriti.

Al Pacino og Russell Crowe í The Insider

Rifjaði svo upp kynnin af The Insider - ádeilunni frægu á tóbaksiðnaðinn bandaríska og einkum hinn ábyrgðarlausa fréttaflutning í Bandaríkjunum. Segir magnþrungna sögu dr. Wigand sem er rekinn sem sérfræðingur tóbaksfyrirtækisins Brown & Williamson, einu af þeim stærstu, og sætir miklu harðræði eftir að hafa reynt að benda yfirmönnum fyrirtækisins á hin heilsuspillandi áhrif tóbaksins. Saga hans og þessa fræga máls er diktuð upp af 60 mínútum og það leiðir til mikils uppgjörs. Mér finnst þessi mynd alltaf jafn rosalega vel gerð - eiginlega engu síður en þegar að ég sá hana fyrst í bíó fyrir sex árum. Besta fréttastúdían síðan að All the President´s Men var gerð árið 1976. Russell Crowe og Al Pacino eru stórkostlegir í aðalhlutverkunum. Crowe getur leikið hvað sem er og Al Pacino er einn besti karakterleikari sögunnar og getur leikið allan skalann í karakterleik með glans.

All the President´s Men

Talandi um All the President´s Men. Þetta er mynd sem ég get séð aftur og aftur. Rifjaði hana upp enn og aftur í vikunni. Eins og flestir vita segir hún söguna af því hvernig tveim blaðamönnum The Washington Post tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons í Watergate-málinu fræga, sem leiddi til afsagnar Nixons sumarið 1974. Að mínu mati er þetta besta pólitíska kvikmynd 20. aldarinnar - hún er algjörlega einstök. Hún er einnig ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið - segir frá sannri blaðamennsku og vinnsluferli stóru fréttarinnar með glæsilegum hætti og lýsir einnig metnaði blaðamannsins við að rækta getu sína í bransanum með vinnubrögðum sínum. Með eindæmum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin úrvalsmynd. Óviðjafnanlegt að hlusta á DVD-versíón myndarinnar þar sem Robert Redford coverar gerð myndarinnar.

Orson Welles í Citizen KaneCitizen Kane

Í gærkvöldi rifjaði ég svo upp kynnin af hinni frábæru Citizen Kane. Þessi klassíska stórmynd er oft sett fremst á lista yfir bestu myndir kvikmyndasögunnar enda olli hún mjög miklum straumhvörfum í frásagnaraðferð og myndatöku. Hún er feikilega áhrifarík enn í dag og það er hreint ótrúlegt að hugsa til þess að undrabarnið Orson Welles hafi einungis verið 25 ára gamall þegar hann skrifaði hana ásamt Herman J. Mankiewicz, og leikstýrði henni og ennfremur að hún skuli bæði hafa verið hans fyrsta kvikmynd og handrit á ferlinum. Frábærlega coveruð saga blaðakóngs og auðkýfings sem er lauslega byggð á ævi blaðakóngsins William Randolph Hearst. Um fáar aðra myndir hefur verið rætt meira og ritað og endalaust er hægt að rífast um hver var raunverulegur hlutur Orson Welles í heildarmyndinni. Það sem ég veit þó er að þessi mynd er einstök og ég naut hverrar mínútu yfir henni. Þetta er gullmoli.

George C. Scott í hlutverki Pattons

Í kvöld var það svo hin einstaka Patton. Þetta er náttúrulega kvikmyndaupplifun fyrir alla sem njóta kvikmynda - lýsir á mikilfenglegan og stórbrotinn hátt reisn og falli hershöfðingjans umdeilda George S. Patton, en hann var einn af allra snjöllustu herarkitektum seinni heimsstyrjaldarinnar. Í myndinni er fylgst með herdeild hans og stórum sigrum allt frá innrásinni í Norður-Afríku, Sikiley og Ítalíu uns hann féll loks í ónáð fyrir augnabliksbræði. Stríðsmyndir gerast ekki mikið betri - ein þeirra bestu, hvað varðar gæði og söguígildið. Leikstjórn Franklins Schaffner er í engu ábótavant, hvort heldur sem um er að ræða miklar sögulegar stríðssenur eða svipmiklar nærmyndir af persónu Pattons sem George C. Scott túlkar með bravúr og fékk óskarinn fyrir. Kvikmyndatakan er snilld, allt frá einu af sterkustu upphafsatriðum kvikmyndasögunnar, einræðunni frægu og svipmiklu, allt til loka ferils Pattons.

Kvikmyndir eru stórfenglegar - ég gæti svo sannarlega ekki lifað án þeirra. Talandi um fleiri myndir: ég ætla mér að rifja upp fleiri eðalmyndir sem ég á. Nægir þar að nefna: Reds, From Here to Eternity, It Happened One Night, On the Waterfront, The Grapes of Wrath, A Letter to Three Wives, Viva Zapata!, The Talk of the Town, The Caine Mutiny, Cool Hand Luke, Lavender Hill Mob, City Lights, High Noon, The Deer Hunter, Magnolia, Five Easy Pieces, Missing, Four Weddings and a Funeral, Back to the Future og Die Hard - svo nokkuð sé nefnt. Það er endalaust hægt að njóta kvikmynda. Kvikmyndir eru jú yndisleg ástríða :)