Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 júlí 2006

Ályktun stjórnar SUS

SUS

Við í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna höfum sent frá okkur ályktun þar sem fagnað er þeim sjónarmiðum sem fram koma í nýútkominni skýrslu formanns matvælaverðsnefndar forsætisráðherra. Er þetta svo sannarlega öflug og góð ályktun sem ég bendi hérmeð á.

Ályktunin er svohljóðandi:

"Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar þeim sjónarmiðum sem fram koma í nýútkominni skýrslu formanns matvælanefndar forsætisráðherra um að afnám tolla og annarra innflutningshafta sé besta leiðin til að lækka matvælaverð hér á landi. SUS harmar hins vegar að samstaða um þær tillögur hafi ekki náðst í nefndinni vegna andstöðu forræðis- og forsjárhyggjuafla sem þar áttu fulltrúa sína.

Þær tillögur sem fram koma í skýrslu formanns nefndarinnar eru skref í rétta átt en ganga þó alltof skammt að mati ungra sjálfstæðismanna. Frjáls verslun og afnám viðskiptahafta eru þau úrræði sem duga best til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Sjálfsagt er að jafnræðis sé gætt í skattlagningu matvæla og það er síður en svo hlutverk ríkisins að ástunda neyslustýringu með slíkri skattlagningu líkt og einstakir stjórnmálamenn virðast aðhyllast. SUS tekur undir sjónarmið þess efnis í áðurnefndri skýrslu að allar matvörur verði látnar bera sama virðisaukaskatt. Stefna ber að því að sú skattheimta verði í lágmarki.

Samband ungra sjálfstæðismenn skorar á ríkisstjórnina að fylgja vinnu nefndarinnar eftir með niðurfellingu á tollum og öðrum innflutningshöftum sem enn hvíla á innfluttri matvöru. Samhliða þarf að gera grundvallarbreytingar á íslensku landsbúnaðarkerfi og skapa íslenskum bændum svigrúm til að keppa á frjálsum markaði. Ríkisafskipti hafa aldrei haft jákvæð áhrif á neina atvinnugrein og það á ekki síst við um íslenskan landbúnað.

Tímabært er að forræðishyggju og opinberum afskiptum af íslenskum landbúnaði linni svo að framtakssemi og hugvit íslenskra bænda fái notið sín í frjálsri samkeppni."