Forsetinn spólar til á tíu ára valdaafmæli
Eins og vel hefur komið fram hér á vefnum í dag er áratugur í dag liðinn frá því að Ólafur Ragnar Grímsson tók við embætti forseta Íslands af Vigdísi Finnbogadóttur. Í ítarlegu viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun fór Ólafur Ragnar yfir áratug sinn á forsetastóli og það sem helst stendur eftir það. Þetta var að mörgu leyti áhugavert viðtal og þar kemur margt fróðlegt fram að mínu mati. Þegar litið verður yfir forsetaferil Ólafs Ragnars síðar meir verður væntanlega litið á synjun hans á fjölmiðlalögunum í júní 2004 sem helsta deilumálið í hans forsetatíð. Það leiddi til átaka sem skipti þjóðinni í fylkingar og veikti forsetaembættið. Hápunkti náði sú táknræna deila þegar að 20% þjóðarinnar mætti á kjörstað og skilaði auðu í forsetakosningunum og Ólafur fékk lamað umboð til fjögurra ára í viðbót á forsetastóli. Það er undarlegt að forseti Íslands beini talinu að þessu mikla hitamáli á þessum tímamótum á hans forsetaferli og gerir hann varla annað en enn umdeildari meðal stórs hluta landsmanna sem hefur aldrei stutt hann. Ólafur Ragnar var óvæginn stjórnmálamaður sem var þekktur fyrir að ganga mjög langt og hefur tekist á forsetaferli sínum að gera að mestu út af við þann sess embættisins að vera sameiningartákn eins og var í forsetatíð forvera hans. Mér finnst kominn tími til að stokka upp embætti forseta Íslands. Mikilvægast er af öllu að taka af honum málskotsréttinn og breyta málum með þeim hætti að viss hluti landsmanna og eða alþingismanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu í stað eins manns í gerviveröld á Bessastöðum.
Það er mjög kostulegt að heyra nú í forsetanum á þeim degi sem hann hefur verið forseti í áratug er talinu er vikið að fjölmiðlamálinu. Í viðtalinu sem fyrr er nefnt sagði hann að meirihluti Alþingis hefði veitt sér raunverulegt neitunarvald, sem forseti hefði ekki samkvæmt stjórnarskrá, þegar að Alþingi ákvað sjálft að nema úr gildi hin umdeildu fjölmiðlalög sumarið 2004. Það er mjög athyglisvert að forseti segist hafa hlotið de facto neitunarvald og í raun færir það manni heim spurningar um það hvort að forsetinn sé jafnvel að minna á að hann muni beita hinni arfavitlausu 26. grein stjórnarskrárinnar áður en hann lætur af embætti, sem vonandi verður árið 2008. Finnst mér þetta mjög hæpið mat hjá forsetanum og í raun má segja hvort ekki sé um ræða bara óskhyggju hjá honum.
Ákvörðun forsetans í júní 2004 var svo rýr að hann gat lengi vel ekki varið hana í kosningabaráttunni í þeim mánuði með rökum. Hann tjáði sig þá aðeins í þeim tveim umræðuþáttum sem hann var tilbúinn til að mæta í en var annars ósýnilegur í kosningabaráttunni í kjölfar þessarar umdeildu ákvörðunar. Það var ánægjulegt að heyra í fræðimönnum á Rás 1 í dag að þeir eru algjörlega ósammála þessari arfavitlausu túlkun forsetans sem er sennilega til þess eins sett fram til að reyna að fegra sig í augum þeirra sem mættu gagngert á kjörstað árið 2004 til að andmæla honum. Tveir slappir forsetaframbjóðendur fengu meira fylgi en margir bjuggust við og margir mættu til þess eins að skila auðum seðli í kjörkassann. Laskaðra umboð forseta í Íslandssögunni hefur ekki áður sést og vakti mikla athygli.
Forsetaembættið stendur að mínu mati óvarið á berangri stjórnmálabaráttu eftir forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann hefur ekki náð að sameina þjóðina að baki sér og mun ekki takast það. Hann talar og hugsar eins og forseti vinstrimanna og hefur gert embættið pólitískara en áður. Það er löstur á embætti sem hefur í raun stöðu sameiningartákns. Úrslit forsetakosninganna 2004 staðfestu að gjá er milli forsetans og stórs hluta þjóðarinnar. Það er algjörlega vonlaust að sátt myndist um forsetaembættið meðan forsetinn hagar sér í anda hins gamalreynda leiðtoga stjórnarandstöðunnar sem þekktur var fyrir óvægin vinnubrögð á þingi. Þannig talar þessi forseti í dag og hefur greinilega lítið lært á þeim ólgusjó sem embættið lenti í vegna ákvörðunar hans.
Ég vil að lokum óska Dorrit Moussaieff til hamingju með að vera orðin íslenskur ríkisborgari. Það eru mikil gleðitíðindi og t.d. á hún hrós skilið fyrir það að hafa lært íslensku og aðlagað sig landinu með glæsibrag.
<< Heim