Göran Persson víkur úr stjórnmálum
Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins, játaði ósigur sinn í sænsku þingkosningunum nú í kvöld með ræðu í höfuðstöðvum flokksins í Stokkhólmi. Það var tilfinningarík ræða og öflug að mjög mörgu leyti. Það er ekki hægt að segja annað en að Persson hafi átt nokkuð glæsilegan stjórnmálaferil og kraftmikinn. Endalokin eru ekki í samræmi við það. Tap jafnaðarmanna og vinstriblokkarinnar í kosningunum í dag blasir við og það er ljóst að Persson fer sneyptur af valdastóli. Hann hefur verið forsætisráðherra og leiðtogi kratanna í tíu ár og verið einn af sterkustu stjórnmálamönnum Norðurlandanna á þessum tíma. En hann skilur við flokk sinn í sárum og þar er framundan harðvítugt og erfitt leiðtogakjör. Morðið á Önnu Lindh í september 2003 var gríðarlegt áfall fyrir Jafnaðarmannaflokkinn. Flokkurinn er enn í sárum eftir að hún hvarf svo snögglega og sorglega af hinu pólitíska sviði. Henni var í raun ætlað að leiða þessar kosningar og allir vissu að Persson vildu að hún tæki við. Pólitíska staðan innan flokksins er hún lést var erfið og Persson tók þá ákvörðun að halda í enn einar kosningarnar og reyna að sigra þær. Lindh hafði mikinn kjörþokka og stjörnuútlit sem stjórnmálamaður en var líka stjórnmálamaður innihalds, forystumaður sem tekið var eftir. Tómarúmið sem varð er hún var myrt er enn til staðar og það varð stingandi fyrir Jafnaðarmannaflokkinn. Eftir að hún hvarf virtist hvert hneykslismálið og vandræðin reka annað uns komið var á endastöð nú og hægrimenn náðu að sigra kratana. Hneykslismálin eftir lát Önnu Lindh höfðu úrslitaáhrif og t.d. hefði Persson átt að taka eftirmann Lindh sem utanríkisráðherra, Lailu Freivalds, fyrr úr ráðuneytinu en hún gerði hver mistökin á fætur öðrum. Persson klúðraði málum já herfilega ásamt Freivalds eftir flóðin í Asíu. En nú hefur Persson stigið af sviðinu, hefur misst völdin og pínlegt uppgjör er framundan. Það verður fróðlegt að sjá hverjum verði að lokum falið það hlutskipti að draga sænska jafnaðarmannaflokkinn upp úr þessum táradal sem hann heldur nú í. Sá leiðtogi mun þó alltaf lifa í skugga þess hvað hefði getað gerst ef Lindh hefði lifað. Þetta verða erfiðir tímar fyrir sænsku kratana.
Það blasir við öllum að stjórnmálaferli Persson er nú lokið. Endalokin eru beisk fyrir hann. Persson tók mikla áhættu með því að fara fram aftur og reyna að sigra þriðju kosningarnar í röð. En það var verkefni sem hann gat ekki landað og það verður erfiðir tímar fyrir Jafnaðarmannaflokkinn að fara í stjórnarandstöðu nú og með leiðtogakjör yfirvofandi. Nýr leiðtogi jafnaðarmanna verður kjörinn væntanlega á flokksþingi í mars. Vandamál jafnaðarmanna nú er það að enginn afgerandi eftirmaður er til staðar. Þar hefur Persson gnæft yfir alla forystumenn og í raun hefur allt snúist um forystu hans, sem var lengi mjög öflug og traust fyrir flokkinn. Segja má að síðasta kjörtímabil hafi alla tíð verið gríðarlega erfitt fyrir hann, það einkenndist af áföllum og hneykslismálum sem sliguðu flokkinn.
Það er mjög erfitt í að spá hver taki við þessum öfluga valdaflokki Svía síðustu áratugina sem hefur upplifað sínar verstu kosningar og þungbærustu. Tapið er gríðarlegt áfall fyrir allar valdastofnanir Jafnaðarmannaflokksins og þar mun væntanlega hefjast gríðarlegt uppbyggingarstarf. Persson fer með hreinlega allt í rúst. Það er ryðguð arfleifð sem þar stendur eftir, hreint út sagt. Ég held að Anna Lindh hefði unnið þessar kosningar ef hún hefði leitt Jafnaðarmannaflokkinn. Lát hennar var eins og fyrr sagði lamandi áfall fyrir Jafnaðarmannaflokkinn, sem hann hefur ekki enn jafnað sig á. Þar fór framtíðarleiðtogi flokksins og Persson hefði ekki farið í þessar kosningar hefði hún lifað.
<< Heim