Rannveig hættir - uppstokkun hjá SF í kraganum
Ég var að sjá það á einum fréttavefnum að Rannveig Guðmundsdóttir, alþingismaður og fyrrum ráðherra, hefur nú lýst því yfir að hún ætlar ekki að gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum. Rannveig hefur setið lengst allra á Alþingi af núverandi þingmönnum Samfylkingarinnar, að undanskildum Margréti Frímannsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur (en hún er nú nýlega orðin starfsaldursforseti Alþingis). Rannveig hefur setið á þingi frá árinu 1989, eða frá því að Kjartan Jóhannsson, fyrrum formaður Alþýðuflokksins, hætti þingmennsku og varð sendiherra. Rannveig var varaformaður Alþýðuflokksins 1993-1994 eftir fræga afsögn Jóhönnu af varaformannsstóli. Hún varð félagsmálaráðherra þann 12. nóvember 1994 fyrir Alþýðuflokkinn í kjölfar afsagnar Guðmundar Árna Stefánssonar úr ríkisstjórn vegna hneykslismála, og sat á þeim stóli til vorsins 1995.
Rannveig var kjörin leiðtogi Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi í janúar 1995 og sigraði þá forvera sinn á ráðherrastóli, Guðmund Árna. Í kosningunum þar á undan hafði Jón Sigurðsson, þáv. viðskiptaráðherra og síðar bankastjóri, leitt flokkinn og Rannveig og Guðmundur Árni skipað þriðja og fjórða sætið. Það var ekki fyrsta og eina leiðtogarimma þeirra og ríkti valdabarátta þeirra lengi í kjördæminu. Tókust þau aftur á í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 1999. Enn og aftur sigraði Rannveig og leiddi lista flokksins. Í prófkjöri 2002 tókust þau að nýju á um leiðtogastólinn. Þá tókst Guðmundi Árna að sigra Rannveigu og leiddi þá listann. Við afsögn Guðmundar Árna af þingi fyrir ári varð Rannveig að nýju leiðtogi flokksins í kjördæminu. Síðustu mánuði hefur Rannveig átt við nokkur veikindi að stríða, en hefur jafnan sig af þeim að mestu.
Hafði verið talið líklegast síðustu vikur að Rannveig myndi hætta og kemur þessi yfirlýsing hennar því varla að óvörum. Búast má við miklum breytingum hjá Samfylkingarfólki í Suðvesturkjördæmi við brotthvarf Rannveigar Guðmundsdóttur úr stjórnmálum. Þegar hefur Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem skipaði þriðja sæti flokksins í kjördæminu í kosningunum 2003, lýst yfir framboði í fyrsta sæti á lista flokksins í kjördæminu. Á kjördæmisfundi Samfylkingar í kvöld mun Gunnar Svavarsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður framkvæmdastjórnar flokksins, hafa lýst yfir leiðtogaframboði. Ekki er óeðlilegt að hafnfirskir samfylkingarmenn vilji fá leiðtogastólinn, enda hafa þeir ekki átt þingmann frá því að Guðmundur Árni hætti, þó að þeir hafi hreinan meirihluta í helsta vígi flokksins í kjördæminu, Hafnarfirði.
Ef marka má fréttir á að halda prófkjör hjá flokknum í kjördæminu fyrstu helgina í nóvember. Búast má við að Katrín Júlíusdóttir, sem var í fjórða sætinu síðast, stefni nú á fyrsta eða annað sætið, enda hlýtur hún að telja sig sterkasta fulltrúa Kópavogs til framboðs í efstu sæti nú er Rannveig er hætt. Valdimar Leó Friðriksson, sem tók sæti Guðmundar Árna á þingi, og skipaði sjötti sæti listans í kosningunum 2003 hefur gefið kost á sér þegar í þriðja sætið. Tryggvi Harðarson, fyrrum bæjarstjóri á Seyðisfirði og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, sem gaf kost á sér til formennsku í flokknum gegn Össuri Skarphéðinssyni árið 2000, hefur þegar tilkynnt um framboð sitt í prófkjörinu.
Það stefnir því í spennandi prófkjör þarna og einhverjar sviptingar. Þó að Guðmundur Árni og Rannveig hafi bæði hætt á kjörtímabilinu má búast við gamalkunnum erjum Hafnfirðinga og Kópavogsbúa um leiðtogastólinn eða áhrif í framvarðarsveit flokksins í kjördæminu, en átök Rannveigar og Guðmundar Árna snerust um þær erjur umfram allt annað.
<< Heim