...svona viljum við varla hafa það
Skrautleg auglýsing Orkuveitu Reykjavíkur vakti mikla athygli í sumar fyrir bruðl og óhóf að öllu leyti. Segja má að þar hafi öll mörk um eyðslu og óráðsíu Orkuveitunnar í formannstíð Alfreðs Þorsteinssonar verið slegið endanlega út, en þessi auglýsing fór í loftið á svipuðum tíma og borgarbúar losnuðu við Alfreð úr formennsku fyrirtækisins. Auglýsingin, sem var rúm ein og hálf mínúta að lengd, kostaði á bilinu fimmtán til átján milljónir króna. Auglýsingin fer þar með í flokk með dýrustu auglýsingum sem framleiddar hafa verið hér á landi fyrir íslenskt fyrirtæki.
Tilgangur auglýsingarinnar var að sögn stjórnenda fyrirtækisins að "að bregðast við samkeppni". Kostulegt orðalag. Spyrja hefði enda mátt sig að því hvort ekki hefði verið frekar hægt að lækka verðið á orkunni til neytenda. Það hefði allavega verið metið betur en þetta peningaflóð í slappa auglýsingu sem virkaði algjörlega út í hött að öllu leyti. Mun auglýsingin hafa verið gerð til að marka upphaf samkeppni á raforkumarkaði um almenna notendur. Ég held að það sé óhætt að segja að þessi auglýsing hafi verið dæmd mistök, enda sést hún varla orðið neinsstaðar.
Miðað við verðskrá auglýsingadeilda ljósvakamiðlanna má reikna með að það kosti Orkuveituna, án afsláttar, yfir 300.000 krónur í hvert skipti að birta auglýsinguna í fullri lengd. Það var Íslenska auglýsingastofan sem sá um hönnun auglýsingarinnar. Um þrjátíu manns tóku þátt í gerð hennar, tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm samdi tónlistina og rithöfundurinn Hallgrímur Helgason samdi texta lagsins. Segja má með sanni að ljóðið í auglýsingunni sé eitthvað það mesta torf sem almenningur hefur orðið vitni að.
Í gær samþykkti svo Mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar ályktun þar sem hún telur sjónvarpsauglýsinguna stangast á við mannréttindastefnu borgarinnar. Í bókun nefndarinnar segir að í auglýsingunni komi fram ýktar staðalmyndir kynjanna; fullklæddir karlar velti fyrir sér undrum vísindanna á meðan léttklæddar konur dansi um sem skrautmunir.
Það er kostulegt að fulltrúar innan gamla R-listans sem stjórnuðu Orkuveitunni í 12 ár og réðu þar er auglýsingin var gerð skv. beiðni yfirstjórnar fyrirtækisins finni að henni. Það er svosem ekki furða að enginn vilji kannast við þessa hrákasmíð sem auglýsingin er.
<< Heim