Stefnir í spennandi prófkjör í borginni
Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, samþykkti á fundi sínum í gær að gera tillögu um að haldið verði prófkjör í Reykjavík vegna þingkosninga að vori dagana 27. og 28. október. Verður þessi tillaga lögð fyrir fund fulltrúaráðsins 19. september nk. Nær sjálfgefið er að sú tillaga verði samþykkt. Það er því nokkuð ljóst að prófkjör muni fara fram. Sjálfstæðisflokkurinn á níu þingsæti í Reykjavík, fjögur í Reykjavík norður og fimm í Reykjavík suður (kjördæmi formannsins), og fyrirséð að tekist verður á af krafti um efstu sæti beggja lista flokksins. Þingmenn flokksins í borginni eru, fyrir RN: Björn Bjarnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson og Ásta Möller, og fyrir RS: Geir H. Haarde, Pétur H. Blöndal, Sólveig Pétursdóttir, Guðmundur Hallvarðsson og Birgir Ármannsson. Þegar að Davíð Oddsson lét af þingmennsku fyrir ári varð Björn Bjarnason leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður. Má búast við að tekist verði á um leiðtogastólinn í öðru kjördæmanna. Þegar hefur Björn tilkynnt að hann gefi kost á sér í annað sætið. Björn hefur verið á Alþingi allt frá árinu 1991, var menntamálaráðherra 1995-2002 og setið sem dómsmálaráðherra frá árinu 2003. Hann vann glæsilegan sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins haustið 1990 og náði þá þriðja sætinu. Hann hélt því sæti í prófkjöri árið 1994 og færðist upp í annað sætið í uppstillingu árið 1999 er Friðrik Sophusson hætti. Björn varð í þriðja sætinu í þriðja prófkjöri sínu í nóvember 2002 og sigraði þá í baráttu við tvo þingmenn um sætið, þau Pétur H. Blöndal og Sólveigu Pétursdóttur, og hlaut fleiri atkvæði en þau til samans, þrátt fyrir slæmt gengi flokksins í borgarmálum um vorið. Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigurður Kári Kristjánsson voru helstu sigurvegarar prófkjörsins 2002 auk Björns og Péturs. Báðir eru þeir fyrrum formenn SUS og tefldu á rétt vöð í slagnum þá og fengu þau sæti sem þeir sóttust eftir. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann varð formaður SUS við afsögn Davíðs Stefánssonar, fyrrum formanns Varðar, af formannsstóli árið 1993 og sat á þeim stóli til ársins 1997. Hann er einn forvera minna hér í formennsku Varðar, enda var hann í MA á sínum tíma. Guðlaugur Þór var varaþingmaður fyrir Vesturlandskjördæmi 1995-1999 og varð svo borgarfulltrúi í Reykjavík árið 1998. Hann fór í þingframboð haustið 2002 og gaf kost á sér í sjötta sætið og fékk mjög glimrandi kosningu í það sæti og flaug því inn á þing. Guðlaugur Þór hætti í borgarstjórn í kosningunum í vor, til að helga sig landsmálunum. Mikið verður væntanlega rætt um stöðu kvenna innan flokksins í aðdraganda þessa prófkjörs. Í prófkjörinu 2002 biðu konur nokkurt afhroð og náðu aðeins tvær konur þá inn á topp tíu, þær Sólveig Pétursdóttir og Ásta Möller. Sólveig varð í fimmta sæti og féll um sæti, en hún gaf eins og fyrr sagði kost á sér í það þriðja, og Ásta lenti í níunda sæti, því sama og hún skipaði á framboðslistanum árið 1999, en hún hafði stefnt í 4.-5. sætið. Sólveig var þá dómsmálaráðherra og varð nokkuð ljóst eftir prófkjörið að erfitt yrði fyrir hana að halda því. Svo fór að hún missti ráðherrastólinn að lokinni stjórnarmyndun vorið 2003 og ákveðið var að hún tæki við embætti forseta Alþingis, þann 1. október 2005, á miðju kjörtímabili af Halldóri Blöndal. Mikið hefur verið rætt um pólitíska stöðu Sólveigar, en hún þykir hafa veikst mjög pólitískt eftir prófkjörið árið 2002. Guðmundur Hallvarðsson var kjörinn á Alþingi fyrst í kosningunum 1991, og var því einn þrettán nýrra þingmanna sem þá tóku sæti. Alla tíð hefur Guðmundur verið fulltrúi verkalýðsarmsins á lista flokksins í borginni, enda var hann lengi sjómaður og forystumaður innan Sjómannasambands Íslands og áhrifamaður innan hreyfingar sjómanna alla tíð. Guðmundur varð í áttunda sæti í prófkjörinu árið 2002 og munaði mjög litlu á honum og Ástu Möller í baráttunni hvort þeirra fengi öruggt þingsæti. Það sannaðist vel í kosningunum síðast að það er ekkert afgerandi öruggt sæti þó að einhver sé í níunda sæti og ofan við þann tíunda. Mikið er rætt um hvað Guðmundur muni gera nú. Þykir líklegra en ekki að hann muni ekki gefa kost á sér aftur, enda verið lengi á þingi fyrir flokkinn. Er mikið rætt um hver gæti orðið fulltrúi verkalýðsarmsins muni hann draga sig í hlé. Mikið er rætt um hvaða nýju frambjóðendur muni koma til sögunnar að þessu sinni. Öllum ber saman um að mest sé talað um pólitíska innkomu Illuga Gunnarssonar, pólitísks aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar í utanríkis- og forsætisráðherratíð hans. Illugi er vaxandi pólitísk stjarna að mínu mati. Það leikur enginn vafi á því í mínum huga að Illugi sé efnilegt þingmannsefni fyrir flokkinn í þessum kosningum. Það yrði mikill fengur að því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hann myndi gefa kost á sér fyrir væntanlegar alþingiskosningar og ég vona að hann muni gera það. Hann stóð sig virkilega vel sem aðstoðarmaður Davíðs og hefur verið mjög áberandi í stjórnmálaumræðunni. Við blasir nú að hann muni fara fram í prófkjörinu í Reykjavík og stefna ofarlega á lista.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gefur kost á sér í fyrsta sæti flokksins í Reykjavík. Er alveg ljóst að hann mun einn gefa kost á sér í það sæti og hljóta glæsilega kosningu. Geir hefur setið á Alþingi frá því í þingkosningunum 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal setið lengur á þingi af hálfu flokksins en hann. Geir var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 1991-1998, fjármálaráðherra 1998-2005, utanríkisráðherra 2005-2006 og varð forsætisráðherra þann 15. júní sl. Geir var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í október 2005 og var varaformaður flokksins 1999-2005. Í síðasta prófkjöri flokksins í nóvember 2002 varð Geir í öðru sæti en sækist nú eftir fyrsta sætinu eftir brotthvarf Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum.
Pétur H. Blöndal komst inn í þingmannahóp Sjálfstæðisflokksins við alþingiskosningarnar 1995 og hafði náð góðum árangri í prófkjörinu 1994 og hlotið áttunda sætið. Við uppstillingu við kosningarnar 1999 færðist hann eins og aðrir þingmenn upp um eitt sæti á eftir Davíð Oddssyni og skipaði þá hið sjöunda. Í prófkjörinu 2002 sóttist hann eftir þriðja sætinu. Hann varð í fjórða sæti, næstur á eftir Birni Bjarnasyni og sæti á undan Sólveigu Pétursdóttur. Pétur hefur því eftir brotthvarf Davíðs í raun færst upp í þriðja sætið og hefur hann þegar lýst því yfir að hann muni ekki stefna á sæti neðar en það. Það blasir því við að annaðhvort muni hann takast á við Björn um annað sætið eða taka slag um það þriðja. Pétur hefur verið óhræddur við að fara eigin leiðir í stjórnmálum. Hann sannaði vel í prófkjörinu 2002 styrk sinn innan flokksins.
Samkvæmt því sem kjaftasögur hafa sagt í blöðum stefnir Guðlaugur Þór á annaðhvort annað eða þriðja sætið í þessu prófkjöri nú og hafa sömu sögur hermt að hann hafi hætt í borgarmálunum til að ná meiri frama í landsmálunum. Allir vita að Guðlaugur Þór hefur mikinn metnað í stjórnmálum og stefnir altént nokkuð hærra en síðast, þegar að honum gekk mjög vel í prófkjöri. Sigurði Kára Kristjánssyni gekk líka vel í prófkjörinu árið 2002 og hlaut hann sjöunda sætið, sem hann gaf kost á sér í, með nokkuð glæsilegum hætti. Sigurður Kári var formaður SUS tímabilið 1999-2001 og hafði gegnt fjölda trúnaðarstarfa að auki fyrir flokkinn þegar að hann fór fram í fyrsta sinni þá og hlaut þessa góðu kosningu. Hann hefur lýst því yfir að hann stefni nú á fjórða sætið, sem er annað sætið í öðru kjördæma borgarinnar.
Ásta Möller hefur tekið af skarið nú og tilkynnt að hún gefi kost á sér í þriðja sætið. Ásta var þingmaður árin 1999-2003 en féll í þingkosningunum 2003. Hún tók svo aftur sæti á Alþingi sem aðalmaður er Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum fyrir ári. Svo fór í kosningunum 2003 að Birgir Ármannsson, sem varð í tíunda sæti í prófkjörinu 2002, náði kjöri á Alþingi fyrir Reykjavík suður (enda hlaut flokkurinn þar fimm þingmenn) en Ásta sem varð í því níunda náði ekki kjöri (enda flokkurinn með fjóra í Reykjavík norður). Það munaði reyndar sáralitlu á að Ásta hefði náð kjöri þá, en flokkurinn náði ekki oddastöðu í kjördæminu. Það vekur athygli að Ásta tekur af skarið á undan Sólveigu, sem vekur margar spurningar um hvort að Sólveig ætli aftur fram, en hún hefur ekki takið af skarið í þeim efnum enn.
Birgir Ármannsson varð eins og fyrr segir í tíunda sæti prófkjörsins árið 2002 og hlaut kjör á þing í kosningunum um vorið, en mjög naumlega þó. Birgir gaf kost á sér í sjötta sæti listans í síðasta prófkjöri og er öruggt að hann muni stefna hærra og nú í algjörlega öruggt þingsæti. Birgir hefur verið nokkuð áberandi t.d. í spjallþáttunum. Hann hefur verið mikið að fjalla um stjórnarskrármálin, enda situr hann í stjórnarskrárnefndinni af hálfu flokksins. Góður árangur ungu mannanna í flokknum í prófkjörinu 2002 var mikill sigur fyrir ungliðahreyfingu flokksins, enda voru þessir þrír þá allir í SUS. Konur fengu aftur á móti skell og féllu þingkonurnar Lára Margrét Ragnarsdóttir og Katrín Fjeldsted úr öruggum sætum og Ásta náði svo að auki ekki kjöri. Varð vond staða kvenna andstæðingum flokksins að umtalsefni og veikti væntanlega listann til muna.
Rætt er um mörg fleiri framboðsefni og víst er að ekki verða nein vandræði fyrir sjálfstæðismenn að velja vel á lista sína í borginni fyrir komandi þingkosningar. Hvernig sem allt mun að lokum fara í prófkjöri flokksins í Reykjavík má búast við spennandi kosningu og þar verði athyglisverð kosning milli góðra frambjóðenda. Þar getur auðvitað dregið til mikilla tíðinda, enda stefnir nær allir þingmenn flokksins ofarlega á listann og viðbúið að fram komi svo öflugir nýliðar sem gætu sett strik í reikninginn fyrir suma af sitjandi þingmönnum flokksins. Allavega það eru spennandi vikur framundan innan Sjálfstæðisflokksins og gleðiefni að það stefnir í að prófkjör verði í öllum kjördæmum að þessu sinni.
<< Heim