Hjaðningavíg á báða bóga í átakasápuóperu
Á fimmtudag greip Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, til sinna ráða til að reyna að binda endi á innri átök og valdabaráttu innan Verkamannaflokksins með yfirlýsingu sinni um að hann myndi víkja af valdastóli innan árs, væntanlega skömmu eftir 10 ára valdaafmæli flokksins. Um miðja vikuna stefndi enda orðið í mjög svipuð átök innan Verkamannaflokksins og voru innan Íhaldsflokksins síðla árs 1990 og leiddu til falls Margaret Thatcher af valdastóli eftir 11 ára forsætisráðherraferil. Með yfirlýsingu sinni reyndi hann að ná tökum á valdaerjunum og að stilla saman strengi svo að hann gæti haldið embætti það lengi að hann gæti ráðið síðustu tímasetningum málsins. Það eina sem Blair hugsar um núna er að geta ráðið endalokunum og farið með sóma - um leið skilið eftir starfhæfan stjórnarflokk við völd. Harkalegar yfirlýsingar Clarke hófust þegar í gærmorgun. Þar sagði hann það hafa verið heimskulegan verknað hjá Brown að hafa glottandi yfirgefið kvöldfund sinn með forsætisráðherranum á miðvikudaginn. Á þeim fundi ræddu þeir um stöðu mála og hefur verið haft á orði að þar hafi náðst samkomulag um hvenær Blair færi frá völdum í raun. Clarke notaði orðið "stupid" um framkomu Browns og endurtók það æ ofan í æ. Sagði hann fjármálaráðherrann ekki vera neitt annað en valdagráðugan mann sem þyrsti í völd án þess að geta farið rétt með þau. Í kjölfar þess reyndu bæði forsætisráðherrann og lykilráðgjafar hans að fá Clarke til að hætta yfirlýsingum, af ótta við að sama ástand tæki við og var áður. Mun Gordon Brown persónulega hafa hringt í Charles Clarke eftir hádegið í gær og farið yfir þessi mál með honum. Fyrir áratug sat ríkisstjórn John Major, þáverandi leiðtoga breska Íhaldsflokksins, við völd í Bretlandi. Hún hafði naumlega sigrað þingkosningarnar 1992 og hafði undir lok kjörtímabilsins aðeins nokkurra sæta meirihluta á þingi. Tony Blair, sem tók við leiðtogastöðu Verkamannaflokksins árið 1994, hafði á orði oftar en einu sinni í þingsölum á því tímabili að stjórn Majors væri við völd, en hefði hvorki stjórn á landinu né stöðunni innan stjórnarinnar. Þetta urðu fleyg orð og urðu sérstaklega merkingarfull í kosningabaráttunni 1997 þegar að alla tíð var ljóst að stjórn íhaldsmanna var að renna sitt skeið við stjórn landsins. Blair sló í gegn og markaði úlfúðina innan Íhaldsflokksins með skörpum þingræðum undir lok valdatíma Íhaldsflokksins, sem var orðinn stjórnlaus við stjórn landsins. Það er orðið eiginlega átakanlegt að fylgjast með átakasápuóperunni innan breska Verkamannaflokksins. Það er með ólíkindum hvernig staðan er þar orðin innan flokks sem hefur meirihluta atkvæða á þingi en sundurskorinn af átökum. Það er nákvæmlega engin stjórn lengur á málum. Við stjórnvölinn eru aðeins hjaðningavíg á báða bóga, önnur mál eru hætt að skipta nokkru og átökin ein standa eftir. Hvernig sem fer virðist David Cameron vera að styrkjast mest á þessum hjaðningavígum. Það er mikið gleðiefni að breskir kratar séu að færa Cameron völdin með þessum afgerandi hætti.
Það er öllum ljóst að Verkamannaflokkurinn logar og það af meiri valdaheift en nokkru sinni síðan að hann komst til valda í maíbyrjun 1997. Þar standa átök um völd og virðast þau þegar hafin - völdin þegar að Tony Blair hverfur af hinu pólitíska sviði. Blair veit enda mjög að haldi átökin áfram með sama brag og voru um miðja vikuna mun hann hrökklast frá völdum með sama grimmilega hættinum og Margaret Thatcher upplifði í nóvember 1990. Tilraunir Blairs að róa niður andrúmsloftið tókust ekki. Eftir yfirlýsingar Blairs tóku við harðvítug ummæli Charles Clarke, fyrrum innanríkisráðherra, í fjölmiðlum í gær þar sem hann réðst af mikilli hörku að Gordon Brown, fjármálaráðherra. Clarke sagði þar að Brown væri ekki þess verðugur að leiða flokkinn og skorti alla hæfileika til að stjórna sem forsætisráðherra.
Höfðu símtöl og spjöll innan Verkamannaflokksins engin áhrif. Síðdegis í gær hóf Clarke aðra árás á fjármálaráðherrann, mun harkalegri og óvægnari þó að í raun væri hin nógu erfið fyrir Verkamannaflokkinn. Þar sagði hann að Brown væri galinn valdafíkill sem hugsaði aðeins um sig og eigin frama í stjórnmálum. Þessi seinni árás mun hafa leitt til þess að Gordon Brown muni hafa allt að því skipað forsætisráðherranum að hafa stjórn á sínu fólki, ella myndi hann og stuðningsmenn hans gefast upp á armi hans að fullu. Mun armurinn jafnvel hafa krafist að forsætisráðherrann ætti ella að gefa upp stuðning við Brown opinberlega til að slökkva á tali innan arms hans. Tony Blair mun frekar hafa tekið þann kostinn að reyna að róa hóp sinn og það gerði hann svo í ræðu í dag skömmu áður en hann hélt í vinnuferð til Ísraels.
Það er mjög kaldhæðnislegt að Tony Blair er nú kominn í nær sömu stöðu John Major var í fyrir áratug, þegar að stjórnartíð Íhaldsflokksins var í andaslitrunum. Major varð seinustu ár valdaferils síns að lifa sínu pólitíska lífi í skugga andstæðinganna innan flokksins sem höfðu hreðjatak á honum og verkum hans - jafnvel öllum lykilákvörðunum. Major, sem margir vilja kalla því miður fagra heiti lame-duck leader, hefur enda sagt í ævisögu sinni frá því að valdaár sín hafi verið beisk og mörkuð því að hann gat oft ekki farið sínu fram. Það blasir við öllum sem fylgjast með breskum stjórnmálum að völd Tony Blair eru á hverfanda hveli. Hann hefur hvorki stjórn á flokknum né landsstjórninni vegna úlfúðar innan Verkamannaflokksins, sem er eins og stjórn John Major fyrir áratug við völd en hefur ekki stjórn á málum.
<< Heim