Tony Blair hættir í stjórnmálum innan árs
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að hann myndi láta af embætti og yfirgefa stjórnmálin innan árs. Sagði hann flokksþing Verkamannaflokksins eftir hálfan mánuð verða það síðasta sem hann myndi sitja sem leiðtogi flokksins. Tony Blair hefur verið leiðtogi Verkamannaflokksins frá því í júlí 1994, er hann var kjörinn eftirmaður John Smith, sem látist hafði tveim mánuðum áður af völdum hjartaáfalls. Blair byggði flokkinn upp eftir eins og hálfs áratugs stjórnarandstöðu til kosningasigurs í maí 1997 með sögulegum hætti. Mjög hefur verið þrýst á forsætisráðherrann að tilgreina tímasetningu brotthvarfs síns, en jafnharðan neitað því. Harkaleg átök á opinberum vettvangi innan flokksins í gær neyddu hann til að skipta um skoðun og koma með vísbendingar í þá átt. Einn forvera Tony Blair á leiðtogastóli breska Verkamannaflokksins, hinn sigursæli, Harold Wilson, fyrrum forsætisráðherra, sagði með eftirminnilegum hætti einu sinni að vika væri langur tími í pólitík. Það eru orð að sönnu. Það má fullyrða að eitt ár er langur tími í stjórnmálum. Nú verður að ráðast hvort að Tony Blair hafi kraft og stuðning til að sitja við völd í forsæti ríkisstjórnar Bretlands og leiða stærsta flokk landsins í þá mánuði sem hann vill sitja úr þessu. Hvort hann nái að sitja við völd fram að valdaafmælinu er í raun stóra spurningin. Það hefur löngum verið sagt að stór yfirlýsing á borð við þessa lami allt valdsvið sterks leiðtoga hratt, sé eitthvað vald í raun eftir. Það eru mörg óvissumerki yfir Verkamannaflokknum og stjórn ríkisstjórnar Bretlands eftir svona yfirlýsingu og í raun fróðlegt að sjá hver nær yfirhöndinni í þessu valdatafli er á hólminn kemur.
Athygli vakti að bein dagsetning var ekki nefnd en yfirlýsingin er mjög skýr. Stjórnmálaferli Tony Blair er að ljúka og hann er með yfirlýsingunni í raun að biðja flokksmenn vinsamlegast um að leyfa sér að yfirgefa stjórnmálin með sínum hætti úr því sem komið sé. Hann er í raun að biðja um vopnahlé innan flokksins en jafnframt að fastsetja að hann verði farinn fyrir flokksþing Verkamannaflokksins í september 2007. Líklegast er að hann ætli sér að láta af völdum fljótlega eftir tíu ára valdaafmæli Verkamannaflokksins í maí 2007. Hann vill væntanlega verða við völd er þeim áfanga er náð en telji svo vænlegt að fara frá völdum. Það hefur verið harkalega að honum sótt og í raun var enginn vafi eftir afsagnir undirráðherranna í gær og bréfaflóð þingmanna um beiðni um afsögn að til þessa myndi koma.
Nú verður það að ráðast hvort Blair geti setið í þann tíma sem hann vill. Stóra spurningin er nú hvort hann geti í raun stýrt atburðarásinni allt til enda eða hvort að hann verði að lokum ein af sögupersónunum í plottinu sem verða undir og verði undir í þeirri öldu sem hefur stefnt í áttina til hans. Jafnframt verður fróðlegt að sjá hvort að fylkingabarátta um forsætisráðherrastólinn fari ekki jafnharðan af stað núna þegar að öllum er ljóst að endalokin eru svo nærri sem raun ber vitni.
<< Heim