Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 september 2006

Sterk nærvera Davíðs Oddssonar

Davíð Oddsson

Um fátt hefur verið meira rætt í dag en gott viðtal við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra, í Sunnudagskastljósi Evu Maríu Jónsdóttur hjá RÚV í gærkvöldi. Mér fannst notalegt að sjá Davíð aftur í hlutverki viðmælanda í dægurmálaþætti. Ég verð fúslega að viðurkenna að ég hef saknað Davíðs úr umræðunni. Það var verulegur sjónarsviptir af Davíð úr stjórnmálunum og hefur verið tómarúm í pólitísku umræðunni alla tíð frá því að hann tilkynnti um ákvörðun sína um að hætta á sögulegum blaðamannafundi í Valhöll fyrir ári, 7. september 2005. Hann var aðalleikari í stjórnmálum hérlendis í aldarfjórðung. Það er ekki laust við að Davíðs sé sárt saknað, ekki bara af stjórnarsinnum heldur og ekki síður stjórnarandstæðingum.

Það var áhugavert að sjá viðtal Evu Maríu við Davíð. Mér líst reyndar vel á Sunnudagskastljósið hennar. Það á greinilega að vera notalegt og gott sunnudagskvöld með einum viðmælanda, innihaldsríkt og gott viðtal. Eva María er lagin að stýra góðum viðtölum, enda bæði mannlegur og beittur spyrill, skemmtileg blanda í raun. Það er gleðiefni að Eva María sé komin aftur með spjallþátt á prime time sjónvarpstíma. Hún á hvergi annarsstaðar heima en með alvöru þátt á alvöru tíma. Viðtalið við Davíð Oddsson var já áhugavert. Hann hefur alltaf talað í fyrirsögnum, á auðvelt með að láta skoðanir sínar í ljósi með áberandi hætti og var umdeildur stjórnmálamaður allan sinn litríka feril. Það eru of fáar svona afgerandi týpur í stjórnmálum í dag að mínu mati, það eru of margir litlausir karakterar á þingi - þetta segi ég sem stjórnmálaáhugamaður.

Það var aldrei leiðinlegt að spá í stjórnmálunum meðan að Davíð Oddsson var áberandi á þeim vettvangi. Það er reyndar áhyggjuefni að mikið af yngra fólki í stjórnmálum velur sér annan starfsvettvang vegna þess að það er meiri snerpa og kraftur í atvinnulífinu, kannski líka meiri tækifæri og það er betur borgað. Mér finnst stjórnmálin hafa verið litlaus eftir að Davíð fór og fagnaði því að sjá hann aftur, hann er í essinu sínu þegar að hann talar um þjóðmál, þetta skipti var engin undantekning á því. Davíð hefur þá náðargáfu að hafa mikla nærveru, sem slíkur getur hann fangað athygli fólks víða að sama hvað hann er að tala um. Þar ræður miklu sterkur húmor hans og frásagnargáfa. Honum hefur enda meira að segja tekist að gera tal um stýrivaxti og verðbólgu áhugaverða í augum MeðalJóns eins og mín.

Davíð Oddsson

Mér finnst aðallega skemmtilegt að sjá hversu rosalega sterk viðbrögð pólitískra andstæðinga sinna gegnum tíðina Davíð Oddsson getur vakið, þó að hann gegni engum trúnaðarstörfum í íslenskum stjórnmálum nú. Það er enginn sem hefur eins sterka nærveru og getur stuðað jafnmarga og hann. Þetta er alveg einstaklega skemmtilegt að sjá. Davíð Oddsson var engum líkur að ná að vekja umræðu í samfélaginu og var lykilmaður í pólitíkinni hérna svo lengi að fáir ná hans töktum. Gaman af þessu, segi ég bara. Ég sé að margir vinstrimenn eru stuðandi argir eftir viðtalið og reyna að ná sér niður með því að tala um Davíð og segja hann kominn aftur í stjórnmálin. Sérstaklega athyglisvert fannst mér að sjá Ingibjörgu Sólrúnu talandi í þessa átt, en hún hefur verið eins og vængbrotinn fugl eftir að Davíð hætti.

Það hefur alltaf verið erfitt fyrir vinstrimenn að sætta sig við að Davíð Oddsson hefur málfrelsi eins og ég og þú - svo og allir aðrir í þessu landi. Þegar hann var í stjórnmálum gat hann stuðað andstæðinga sína svo mjög að þeir alveg umpóluðust og urðu rauðir af illsku. Þetta er náðargáfa og Davíð hefur hana enn ef marka má viðbrögðin við spjallinu. Hann var þarna enn og aftur í essinu sínu. Væntanlega hefði hann gengið lengra ef hann væri enn stjórnmálamaður. En ég verð alveg að viðurkenna að mér finnst ekkert óeðlilegt að hann hafi skoðanir, það var verið að sumu leyti að ræða mál úr valdatíð hans og stöðu þeirra núna og farið yfir ýmis atriði að auki. En það hefur reyndar alltaf verið með Davíð að hann er umdeildur. Það mun verða svo lengi sem hann lifir, sama þó hann væri í öðru starfi eða sestur í helgan stein.

Það var snjallt hjá Evu Maríu og Þórhalli Gunnarssyni, ritstjóra Kastljóss, að opna Sunnudagskastljós vetrarins með því að fá Davíð til viðtals. Það er eðlilegt að Kastljós velji sér viðmælendur sem tryggt er að fólk vilji horfa og hlusta á. Það er alveg greinilegt að þeim tókst það með vali á Davíð sem fyrsta gestinum í Sunnudagskastljós Evu Maríu, enda vart um annað rætt í dag en þetta viðtal í gærkvöldi. Það er svo sannarlega mál málanna og enn og aftur minnir Davíð Oddsson á sig og hversu auðveldlega hann getur snúið stjórnarandstöðunni um fingur sér og spunnið fyrir hana umræðuvefinn.

Davíð Oddsson

Það er enda enginn vafi á því að seðlabankastjórinn Davíð Oddsson stuðar enn pólitíska andstæðinga sína í gegnum tíðina þó að hann hafi skipt um vettvang og yfirgefið stjórnmálin. Hann hefur alltaf verið þekktur fyrir að kalla fram sterk viðbrögð en ávallt athygli þeirra sem fylgjast með þjóðmálum. Svo er enn, það er svo sannarlega vel.