Formælingar og bölsögur á Hrafnabjörgum
Það var svolítið undarlegt að horfa á þátt Sigríðar Arnardóttur, Örlagadagurinn, á NFS nú í kvöld. Þar hélt Jóhannes Jónsson, athafnamaður að Hrafnabjörgum, áfram formælingum sínum og bölsögum í garð opinberra embættismanna og fólks úti í bæ. Það er svolítið athyglisvert að horfa á fullorðið fólk verða sér eiginlega til skammar með svona hætti, halda að þeir megi segja hvað sem er í krafti þess að eiga nóg af peningum. Það var nákvæmlega sú hugsun sem hvarflaði að mér. Það er enda mjög kostulegt að fólk geti ekki haldið stillingu sinni og lágmarksreisn við að tala um líf sitt og falla ekki í þann forarpytt að uppnefna og ausa skít og ógeði yfir annað fólk.
Fram að þessum þætti taldi ég Jóhannes Jónsson eiginlega heiðursmann, sem þrátt fyrir vissar ógöngur ætti virðingu skilda og hefði þá reisn fyrir sig að bera að geta rakið af stillingu sögu sína og ógöngur. Það var greinilega mjög mikið ofmat á einum manni. Svona hatur og kom fram í þætti Sigríðar Arnardóttur er engum til framdráttar, allra síst þessum manni. Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en eiginlega sorakjaft, svo slæmt var orðalagið. Kostulegast af öllu fannst mér þegar að hann gagnrýndi dómsmálaráðherra fyrir að uppnefna fjölmiðlaveldið sem hann á hlut í en gagnrýndi svo embættismann hjá embætti Ríkislögreglustjóra með uppnefningum fyrir það eitt að sinna sínu starfi. Að auki talaði hann um að snúa "vissa" einstaklinga úr hálsliðnum.
Þetta er sönn lágkúra og ekki neinum manni til sóma. Það er enda svo að þeir embættismenn sem Jóhannes er að níða með orðalagi sínu geta ekki komið í fjölmiðla sjálfir og varið sig starfs síns vegna. En mér fannst þetta þungt sjónvarpsefni og lágkúrulegt í alla staði - hafi mér fundist Jóhannes Jónsson fara illa að ráði sínu í fyrri þættinum skaut hann endanlega yfir markið í þeim seinni. Hér á mínu heimili sat fólk gapandi af undrun yfir orðalaginu og heiftinni sem sást. Og þetta er talið áhorfanlegt sjónvarpsefni rétt rúmlega 19:00 á sunnudagskvöldi. Þvílíkt og annað eins, segi ég bara.
<< Heim