Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 nóvember 2002

Eftirmálar prófkjörs í Norðvestrinu
Óhætt er að fullyrða að prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi um síðustu helgi, verði sögulegt. Á því leikur enginn vafi að utankjörfundaratkvæðagreiðslan á Akranesi hafi verið skrautleg og ekki farið eftir settum reglum eða verið staðið að henni með eðlilegum hætti. Auðvitað eru þessi vinnubrögð manna á Skaganum fyrir neðan allar hellur. Ef allt reynist satt sem sagt er, er ljóst að menn hafa þverbrotið reglur prófkjörsins. Það tel ég mjög alvarlegt mál. Eftir stendur að Sturla hangir á bláþræði á leiðtogastólnum með 41 atkvæði umfram Villa Egils. Formaður flokksins hefur sagt að þessi vinnubrögð séu óásættanleg, og tek ég hiklaust undir þá skoðun hans. Hvað svo sem fólki finnst um Vilhjálm Egilsson er ljóst að þetta eru ekki heiðarleg vinnubrögð og því ekki skrýtið að Vilhjálmur og stuðningsmenn hans séu sárir. Það munar einungis rúmum 40 atkvæðum að hann hefði leitt listann og Sturla með því fallið í fjórða sæti listans. Það blasir einnig við að allir hinir þingmennirnir hafi unnið hart gegn Vilhjálmi, enda fær hann nær eingöngu atkvæði bara í fyrsta og fimmta sætið. Það verður að taka á þessum málum svo slíkt gerist ekki aftur. Athyglisverðast við úrslitin fyrir utan stöðu Vilhjálms, fannst mér að Jóhanna Pálmadóttir skyldi verða í sjötta sætinu og færast nú upp í það fimmta. Hún er fulltrúi þriðju kynslóðarinnar frá Akri sem fer í pólitík. Faðir hennar, Pálmi Jónsson, og afi, Jón Pálmason, voru forystumenn flokksins í Húnavatnssýslu og Norðurlandskjördæmi vestra í áratugi. Athyglisvert verður að fylgjast með hvernig mál þróast hjá flokknum í kjördæminu á næstu dögum.

Ráðherra opnar upplýsingavef
Í gær opnaði Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra, upplýsingavef vegna alþingiskosninganna sem fram eiga að fara eftir hálft ár, laugardaginn 10. maí 2003. Þetta er í fyrsta sinn sem upplýsingar af hálfu hins opinbera vegna alþingiskosninga eru settar fram með þessum hætti. Eins og ráðherra sagði í gær er með þessu stigið enn eitt skrefið í áttina að því að gera upplýsingar stjórnvalda aðgengilegri öllum almenningi. Á vefnum, er að finna fræðandi og hagnýtar upplýsingar um atriði sem lúta að næstu alþingiskosningum. Upplýsingarnar eiga að nýtast almennum kjósendum, stjórnmálasamtökum og þeim sem vinna að kosningunum, t.d. varðandi kjörskrá, utankjörfundaratkvæðagreiðslu og atkvæðagreiðslu á kjördegi. Fjallað er um lög og reglugerðir, kjósendur, framboð, framkvæmd kosninga og tölulegar upplýsingar. Kostur gefst á því að skoða breytta kjördæmaskipan í myndrænni framsetningu með skýringum. Þegar nær dregur kosningum verður hægt að fá upplýsingar um framboðslista og kjörstaði. Þetta er þarft framtak og gaman að þessum vef sem er mjög mikilvægur á kosningavetri

Með allt á hreinu - í 20 ár
Um þessar mundir eru 20 ár liðin frá því að úrvalsmyndin Með allt á hreinu var frumsýnd. Í henni fara Stuðmenn og Grýlurnar á kostum og beita öllum brögðum á sveitaballamarkaðnum í harðri samkeppni. Ég horfði á þessa mögnuðu klassamynd í enn eitt skiptið í gær. Ég sá Með allt á hreinu fyrst í bíói á Akureyri fyrir tveim áratugum, þá bara fimm ára gamall og hef horft á hana mjög oft og er nú svo komið að spólan mín með myndinni er að verða léleg og því góð ráð dýr. Nú er væntanleg útgáfa myndarinnar á DVD í tilefni afmælisins, og mun ég að sjálfsögðu fá mér slíkan disk þegar hann verður gefinn út. Það verður gaman að geta horft á þessa mögnuðu klassík aftur og aftur með góðum myndgæðum og sjá þau brot sem ekki voru notuð í myndina en verða á diskinum. Það verður því væntanlega enn skemmtilegra en áður að horfa á mögnuð lög hljómsveitanna og kostuleg brögð sveitanna í þessari ógleymanlegu úrvalsmynd.