Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 nóvember 2002

Prófkjörsúrslit hjá Samfylkingunni
Nú liggja fyrir úrslit og það hverjir muni skipa efstu sæti á framboðslistum Samfylkingarinnar í fimm kjördæmum af sex; Reykjavíkurkjördæmunum, Suðvesturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Í Reykjavík verða fimm þingmenn flokksins í forystu, en athygli vekur að Jóhanna Sigurðardóttir tryggði sér kjör í annað leiðtogasætið í borginni, þrátt fyrir að hart hafi verið að henni sótt. Á eftir þingmönnunum fimm koma þrír nýir inn; Mörður Árnason, Helgi Hjörvar og Ágúst Ólafur Ágústsson. Í Suðvesturkjördæmi sigraði Guðmundur Árni Stefánsson og mun leiða flokkinn í komandi kosningum ásamt tveim öðrum þingmönnum, ný inn eru Katrín Júlíusdóttir og Ásgeir Friðgeirsson. Í Norðausturkjördæmi sigraði Kristján L. Möller með yfirburðum og mun leiða flokkinn þar eins og flestir höfðu búist við frá því að Svanfríður Jónasdóttir tilkynnti að hún færi ekki fram. Í Suðurkjördæmi sigraði Margrét Frímannsdóttir naumlega og mun því leiða lista flokksins þar í komandi kosningum. Í næstu sætum verða Lúðvík Bergvinsson, Björgvin G. Sigurðsson og Jón Gunnarsson. Hinsvegar féll Sigríður Jóhannesdóttir úr öruggu þingsæti og ljóst að hún mun ekki ná kjöri í komandi kosningum. Í kvöld ráðast úrslitin hjá Sjálfstæðismönnum í Norðvesturkjördæmi; æsispennandi slagur sem getur valdið pólitískum sviptingum með úrslitunum. Ég fylgist spenntur með.

Flottur þáttur Gísla Marteins
Það var virkilega gaman af spjallþætti Gísla Marteins í gærkvöldi, mikið fjör og gaman. Stefán Karl Stefánsson leikari, fór algerlega á kostum eins og við var að búast og hver brandarinn af öðrum kom frá honum. Guðrún Gunnarsdóttir var létt og hress eins og venjulega og söng eitt lag eins og henni einni er lagið. Svo klikkuðu Paparnir ekki frekar en fyrri daginn. Sérstakur heiðursgestur Gísla Marteins í gær var sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon sem mun í dag hljóta heiðursverðlaunin á Edduverðlaunahátíðinni. Er ótrúlegt hversu góða íslensku hann talar eftir að hafa búið nær alla ævi í Bretlandi. Gísli Marteinn er kominn í góðan gír með þáttinn sinn. Hann er ómissandi á skemmtilegu laugardagskvöldi og lífgar upp á þau heldur betur. Áfram Gísli Marteinn - koma soh!!

Athyglisverð skrif - bréfaskrif
Á föstudaginn var ég Netinu og rakst inn á heimasíðu Þórarins Þórarinssonar, sem ég þekki ekki á nokkurn hátt. Það væri svosem ekki í frásögur farandi, nema að því leyti að á einum stað rakst ég á ummæli (neðst á síðunni) um mig og persónu mína, sem varla eru svaraverð og lýsa innræti þeirrar manneskju sem um ræðir. Ég sendi þessum manni tölvupóst og benti honum vinsamlega á að ég hefði sama rétt á að tjá skoðanir mínar og aðrir sem tjá sig á Innherjavef visir.is, og því algjör óþarfi að ráðast að persónu minni. Skrif mín voru á vinsamlegum nótum og ekkert við það að athuga að slíkum óhróðri sé svarað. Í gær fékk ég svo svar frá fyrrnefndum Þórarni þar sem hann ræðst að mér með svipuðum hætti og áður og fellir dóma yfir mér og persónu minni og þvíumlíku. Mér finnst athyglisvert að fólk geti látið skapið hlaupa með sig svo í gönur að það þurfi að ráðast að fólki með þessum hætti. Ég tel það algjöran óþarfa, enda var bréf mitt til hans ekki árás á hann eða neitt slíkt, heldur einfaldlega svar við fullyrðingum hans. Ég tel að það sé erfitt fyrir hann að fella dóma um persónu, enda hefur þessi maður aldrei talað við mig eða ég sennilega aldrei hitt hann. Mér skilst að þessi einstaklingur sé fréttamaður á Fréttablaðinu. Ég hugsa að ég taki minna mark á því blaði héðan í frá.