Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 nóvember 2002

Spennandi kosningabaráttu lýkur
Brátt opna kjörstaðir í Bandaríkjunum og tvísýnni kosningabaráttu lýkur þarmeð formlega. Að baki er harðvítug barátta milli Repúblikana og Demókrata þar sem barist er um meirihlutann í fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. Mikið er í húfi fyrir ríkisstjórn forsetans, enda velta öll lykilmál Bush-stjórnarinnar á meirihlutavaldi þingsins. Bush Bandaríkjaforseti, hefur á fimm dögum heimsótt 15 fylki landsins og leggur allt í sölurnar til að tryggja sigur Repúblikanaflokksins og hefur notið liðsinnis eiginkonu sinnar og varaforsetans. Það virðist vera að bera árangur, enda sýna seinustu skoðanakannanir í Bandaríkjunum að flokkurinn hefur bætt við sig fylgi og gæti náð þeim sögulega áfanga að vinna meirihluta í báðum deildum. Nú við lok baráttunnar fjalla BBC og CNN ítarlega um slaginn í vandaðri umfjöllun. Á morgun ræðst hvort forsetinn mun fagna sigri eða hvort hann verði í klóm Demókrata seinni tvö ár kjörtímabilsins og hvort lykilmál stjórnar hans velti á samningum við Demókrata á þingi. Ljóst er að víða eru svo jafnt á metunum að þetta getur oltið á hvorn veginn sem er. Framundan eru spennandi kosningar sem munu hafa mikil áhrif á stöðu ríkisstjórnar Bandaríkjanna og forsetans sjálfs, sem mun eftir tvö ár berjast fyrir endurkjöri. Ljóst er að staða hans mun styrkjast til mikilla muna ef flokkur hans vinnur kosningasigur á morgun. Ef kosningarnar tapast er líklegt að staða hans veikist og enn líklegra að framundan verði erfiður slagur fyrir hann 2004. Ég fylgist spenntur með úrslitum kosninganna og mun að sjálfsögðu fjalla um þau hér á næstu dögum.

Gulli Þór opnar heimasíðu - spennan vex
Eins og ég sagði frá á laugardaginn hefur Ingvi Hrafn Óskarsson formaður SUS og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins opnað glæsilega heimasíðu. Heimasíða Sigga Kára er væntanleg. Nú hefur félagi minn og fyrrum formaður Varðar og SUS, Guðlaugur Þór Þórðarson opnað heimasíðu og kosningaskrifstofu. Allt stefnir í spennandi prófkjör hjá flokknum í borginni og gaman að sjá hvernig ungliðunum muni ganga í slagnum við þingmennina 9 sem allir gefa kost á sér til endurkjörs. Það styttist í spennandi helgi með fimm prófkjörum, t.d. athyglisverðu prófkjöri hjá flokknum í Norðvestrinu, þar sem berjast 10 frambjóðendur, þ.á.m. 5 þingmenn.