Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 febrúar 2003

Góð pæling hjá Skapta
Í dag skrifar félagi minn, Skapti Örn Ólafsson mjög góða pælingu á heimasíðu Eyverja, f.u.s. í Vestmannaeyjum um skattastefnu ríkisstjórnarinnar og aðför vissra fjölmiðla að góðum árangri Sjálfstæðisflokksins í landsmálum. Er ég honum innilega sammála og verð að birta hluta þessarar góðu greinar hans; "Fyrst ber að nefna "fréttaflutning" fréttastofu Stöðvar 2 sem sló því fram í síðustu viku að skattar hér á landi hafi hækkað í stjórnartíð Davíðs Oddssonar þó að hið rétta í málinu sé að skattar hafi verið að lækka á einstaklinga og fyrirtæki frá 1991. Á síðustu árum hafa eignaskattar m.a. lækkað um helming og skattar á fyrirtæki lækkað úr 30% í 18%. Þá hefur tekjuskattshlutfall á einstaklinga lækkað á síðustu árum. Ekki sá fréttastofa Stöðvar 2, með Kristján Má Unnarsson í fararbroddi, sér ástæðu til að greina frá þessu. Þá er það til marks um óábyrgan málflutning og hræsni þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafi "ekkert gert" í skattamálum og að skattar hefi hér verið að hækka - þó að annað sé í raun rétt. Skoðum hvernig Ingibjörg Sólrún "stóð sig" sem borgarstjóri og "lækkaði" skatta á borgarbúa. Um hver mánaðarmót greiðir fólk svokallaða staðgreiðslu sem samanstendur af útsvari til sveitarfélags og tekjuskatti til ríkisins. Í stjórnartíð Davíðs Oddssonar hefur tekjuskattshlutfallið lækkað úr 32,80% í 25,75%. Á þessum sama tíma hefur Ingibjörg Sólrún hækkað útsvarsprósentu Reykjavíkurborgar í nær hámark og einnig sett á svokallaðan holræsaskatt. Staðreyndirnar tala sínu máli og er staðreyndin sú að Ingibjörg Sólrún hefur hækkað skatta í stjórnartíð sinni sem borgarstjóri á meðan Davíð Oddsson hefur lækkað skatta umtalsvert í sinni stjórnartíð." Flott hjá þér Skapti, nú er að berja á þessu liði!

Davíð flottur í Hrafnaþingi Ingva Hrafns
Í dag var Davíð Oddsson forsætisráðherra, gestur Ingva Hrafns Jónssonar á Hrafnaþingi á Útvarpi Sögu. Þar sagði Davíð að hann teldi ekki vera efni til þess að borga forstjórum hér á landi 70 milljónir króna í árslaun, en eins og kunnugt er var tilkynnt um helgina að Sigurður Einarsson forstjóri Kaupþings, hefði fengið 70 milljónir króna í árslaun á síðasta ári. Davíð sagði að það yrði að vera hóf í slíkum hlutum sem öðrum og þetta skapaði undarlegar tilfinningar. Það væri óhóf að greiða 6 milljónir króna á mánuði í laun. Sagði Davíð að forstjóraæði, sem verið hefði í Bandaríkjunum fyrir nokkrum misserum og lýsti sér í óhófsgreiðslum til þeirra, væri að ganga til baka. „Við eigum ekki að ganga þessa götu," sagði hann t.d. í þættinum. Þeir Davíð og Ingvi Hrafn ræddu um skattalækkanir en Davíð sagði á viðskiptaþingi nýlega að nú væri að skapast lag til að lækka skatta frekar. Sagði Davíð í útvarpsþættinum að fólk gæti treyst því að þegar hann talaði um skattalækkanir yrði því fylgt eftir. Hann sagðist vera mjög ánægður með að Framsóknarflokkurinn skuli á flokksþingi sínu um helgina hafa tekið vel undir þessar hugmyndir. Forsætisráðherrann sagði að hann teldi sig ekki eiga neitt inni hjá kjósendum þótt frammistaða hans og ríkisstjórna hlyti að verða metin þegar kjósendur gerðu upp hug sinn. Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn yrði með markvissa stefnu og markviss loforð fyrir kosningarnar og segja við fólk: "Við hlaupum ekki frá loforðum okkar og þið vitið hvar þið hafið okkar". Þá sagði Davíð að honum hefði fundist afar góður tónn í garð stjórnarsamstarfsins á flokksþingi Framsóknarflokksins, þar hefðu menn verið jákvæðir og talað fallega til samstarfsflokksins. Það hlyti að þýða að góður andi sé í stjórnarsamstarfinu.