Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 febrúar 2003

Geirfinns- og Guðmundarmál fylgja þjóðinni inn í nýja öld
Árið 1974 hurfu tveir menn, Geirfinnur Einarsson og Guðmundur Einarsson, sporlaust í Keflavík og Hafnarfirði. Með því hófust eftirminnilegustu sakamál 20. aldarinnar . Fór svo að lokum að málið var upplýst með því að Sævar Marinó Ciesielski, Erla Bolladóttir, Kristján Viðar Viðarsson, Guðjón Skarphéðinsson og fleiri voru dæmd árið 1980 fyrir að hafa orðið þeim að bana, eftir ítarlegar rannsóknir fjölda manna. Lík þeirra fundust hinsvegar aldrei og aldrei hefur sannast með vissu hvað varð af þeim. Efasemdir hafa vaknað á undanförnum árum um það hvort rétt fólk hafi verið sakfellt fyrir að vera völd að hvarfi þessara manna og hafa þau fjögur sem fyrr eru nefnd krafist þess að málið verði tekið upp á ný svo mögulegt megi vera að sanna sakleysi þeirra, en þau hafa á seinustu árum upplýst að játningar þeirra á þessum glæpum hafi verið fengnar fram með harðræði rannsóknaraðila. Meðal þeirra sem sakaðir voru um að hafa orðið Geirfinni að bana var Magnús Leópoldsson fasteignasali, og sat hann inni í 105 daga árið 1976, saklaus. Hann var látinn laus eftir að í ljós kom að hann átti ekki aðild að málinu og var látið að því liggja að hin fræga Leirfinnsstytta hefði verið mótuð eftir myndum af honum, gagngert til að nafn hans blandaðist í rannsókn málsins. Í gegnum árin hefur hann barist fyrir því að hreinsa nafn sitt af þessu máli. Skipaði dómsmálaráðherra árið 2001 sérstakan saksóknara, Láru V. Júlíusdóttur til að rannsaka þann hluta málsins og birti hún í vikunni ítarlegar niðurstöður sínar á málinu og fór hún yfir allt málið og málskjöl sem til eru (en nokkuð vantar á að allt efni sé enn til staðar) og lætur í ljósi eigið álit á málinu og rannsókn þess.

Niðurstöður Láru - taka á allt málið til skoðunar
Segir Lára í skýrslu sinni, að ef lögreglan á þeim tímapunkti hefði grunað Magnús um að vera manninn í Hafnarbúðinni, hefði verið mun auðveldara fyrir lögreglu að fá úr því skorið með löglegum og venjubundnum aðgerðum. Verkefni hennar var m.a. að kanna ýmsa þætti frumrannsóknarinnar, svo sem hvers vegna leirmyndin (Leirfinnur), sem líktist Magnúsi, var gerð og einnig hvers vegna Magnús sat svo lengi í gæsluvarðhaldi. Í skýrslunni kemur fram að nafn Magnúsar og veitingastaðarins Klúbbsins hafi snemma komið við sögu í rannsókn lögreglu á hvarfi Geirfinns, en erfitt sé að fullyrða hvort það hafi verið fyrir birtingu leirmyndarinnar eða ekki. Hins vegar sé ljóst að lögreglan hafi lagt mikla vinnu í að rannsaka allar hugsanlegar vísbendingar um hvarfið en einbeitti sér ekki að Magnúsi eða öðrum þeim sem tengdust rekstri Klúbbsins. Meginástæðan sem leiddi til handtöku hans og fleiri aðila árið 1976 er að mati Láru rangur framburður Sævars Marínós Ciesielskis, Erlu Bolladóttur og Kristjáns Viðars Viðarssonar. Kemur fram í skýrslunni að leirmyndin hafi ekki vísvitandi verið gerð til að bendla Magnús við málið. Í skýrslunni koma fram ýmsar nýjar upplýsingar um dauðdaga Geirfinns og hugsanlegar ástæður hvarfs hans. Hefur ráðuneytið ritað ríkissaksóknara bréf, þar sem vakin er athygli á þessum upplýsingum, sem vörðuðu ekki efni rannsóknar setts saksóknara, og verður það hans að meta hvort þau gögn dugi til endurupptöku málsins eða frekari rannsóknar á því. Ég sé þá einu leið færa til að leiða þetta fræga sakamál til lykta að það verði tekið upp alveg upp á nýtt og gerð heiðarleg tilraun til að rannsaka hvort þau sem dæmd voru fyrir þessi mál hafi verið sek eða saklaus. Ég tel lítinn vafa leika á að þau hafi verið dæmd saklaus og því er það eindregið skoðun mín að þessi mál verði könnuð alveg upp á nýtt. Þessu máli lýkur ekki fyrr en allir þættir þess verða rannsakaðir ítarlega á nýjan leik. Það er siðferðisleg skylda stjórnvalda að taka þetta mál upp og rannsaka það betur.