Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 febrúar 2003

Tómas Ingi Olrich sextugur
Í dag er Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, sextugur. Tómas Ingi fæddist á Akureyri og ólst þar upp. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1963, stundaði nám í frönsku og sagnfræði vid 1963-64, stundadi nám í frönsku og frönskum bókmenntum, ensku og atvinnulandafræði 1964-70 við Université de Montpellier í Frakklandi og lauk þaðan Maître ès lettres modernes-prófi 1970. Hann var kennari við MA 1970-91, aðstoðarskólameistari MA 1973-83, hótelstjóri Hótel Eddu á Akureyri 1971-73, ritstjóri Íslendings 1984-85. Tómas Ingi hefur verið alþingismaður Nordurlandskjördæmis eystra fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1991 og menntamálaráðherra Íslands frá 2. mars 2002, er hann tók við ráðherraembætti af Birni Bjarnasyni. Hann sat í iðnaðarnefnd Alþingis 1991-95, í menntamálanefnd 1991-2001, í umhverfisnefnd 1991-1999, í sérnefnd um stjórnarskrármál 1994-96, í utanríkismálanefnd 1995-2002, formaður utanríkismálanefndar 1997-2002, í heilbrigðis- og trygginganefnd 1999-2002, í fjárlaganefnd 2001-2002. Tómas Ingi var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 1974-76 og bæjarfulltrúi 1976-1978, í skipulagsnefnd Akureyrar um árabil og formaður hennar 1990-91, formaður Háskólanefndar Akureyrar 1985-87, í stjórn Háskólans á Akureyri 1988-90, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga 1983-91, í stjórn Skógræktarfélags Íslands 1985-91, í stjórn KA 1988-91, í stjórn Slippstöðvarinnar á Akureyri 1991-92. Hann var varaformaður Ferðamálaráðs Íslands 1993-99 og formaður ráðsins 1999-2002. Ennfremur var Tómas Ingi var formaður útvarpslaganefndar 1992-94 og formaður nefndar um stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum upplýsingasamfélagsins 1995-96. Hann sat í endurskoðunarnefnd um stjórn fiskveiða 1999-2001. Ég óska honum innilega til hamingju með daginn.

Gettu betur hefst í Sjónvarpinu í kvöld
Í kvöld hefst spurningaleikurinn frábæri Gettu betur í Sjónvarpinu. Eftir standa nú átta lið eftir útvarpskeppnina, allt úrvalslið sem eiga góða möguleika á að sigra. Eins og flestir vita hefur Menntaskólinn í Reykjavík unnið nú samfellt í áratug. Þykir mörgum (þ.m.t. mér) að nú sé tími til kominn að annað lið fari með sigur af hólmi. Því verður þó ekki neitað að MR-ingar hafa staðið sig gríðarlega vel í keppninni í gegnum árin og vel að skipulagningu staðið þar á ári hverju. Það er hreint ótrúlegt að sami skóli haldi velli jafn lengi og raun ber vitni, með MR og greinilega mikill metnaður í skólanum fyrir því að ná árangri í keppninni. Menntaskólinn á Akureyri heldur uppi heiðri okkar Akureyringa eins og svo oft áður, en skólinn vann keppnina 1991-1993. Þau lið sem komast í átta liða úrslitin auk MR og MA eru: Verzlunarskóli Íslands, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Fjölbrautaskólinn Ármúla, Menntaskólinn við Sund og Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Hef mikinn áhuga á góðum spurningakeppnum og því pottþétt mál að ég fylgist með af áhuga næstu vikurnar með viðureignum skólanna og skemmtilegum spurningum. Dómari í ár er eðalbloggarinn Sveinn Guðmarsson, spyrill er Logi Bergmann Eiðsson og stigavörður er engin önnur er Varðarkonan og bloggarinn Svanhildur Hólm Valsdóttir, frænka mín. Í dag opnaði svo stórskemmtilegur vefur helgaður keppninni. Hvet alla til að líta á hann og horfa að sjálfsögðu á keppnirnar!