Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 mars 2003

Dylgjur og hálfkveðnar vísur vinstrimanna
Í dag eru 60 dagar til alþingiskosninga. Má ljóst vera að það stefnir í einhverja beittustu kosningabaráttu hérlendis í mörg ár eða áratugi. Baráttan harðnar með degi hverjum. Eins og flestir vita hóf fyrrverandi borgarstjóri, kosningabaráttu sína sem leiðtogaefni jafnaðarmanna með því að gefa t.d. í skyn, að forsætisráðherra sigaði lögreglu og skattayfirvöldum að ósekju á nokkur fyrirtæki og misbeitti valdi sínu. Þetta voru í senn ótrúlegar og ómerkilegar árásir sem greinilega voru settar fram til að starta einhverri atburðarás og beina umræðunni í vissan farveg. Ræða fyrrverandi borgarstjóra er gott dæmi um almennt froðusnakk, tal um hitt og þetta, sett fram til að beina umræðunni frá málefnum kosningabaráttunnar og taka upp óábyrgt hjal, nokkurskonar dylgjur og rógburður til þess eins að sverta Sjálfstæðisflokkinn og leiðtoga hans. Það er nú svo merkilegt að málefnaleg staða Samfylkingarinnar virðist vera mjög veik nú þegar kosningabaráttan er að fara af stað af fullum krafti. Skotmark Samfylkingarinnar eru ekki málefni baráttunnar, heldur persóna Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Davíð hefur löngum verið vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar og greinilegt að þjóðin hefur treyst honum best fyrir að stýra landinu undanfarinn áratug, hann hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í þrjú skipti, bæði í þingkosningum og í borgarstjórnarkosningum. Hann er sá stjórnmálamaður íslensku þjóðarinnar sem lengst hefur setið á stóli forsætisráðherra og nýtur trausts þjóðarinnar. Verk hans og ríkisstjórna hans blasa við öllum, hann er sá stjórnmálamaður sem ötulast hefur unnið í að færa valdið frá ríkinu og hann hefur ríka réttlætiskennd og trausta dómgreind. Öllum brögðum á nú greinilega að beita til að grafa undan trúverðugleika hans og öllum meðölum beitt í því skyni, beitt blaði sem sérstaklega virðist gefið út til að breiða út áróður gegn Sjálfstæðisflokknum og upphefja sérstaklega fyrrverandi borgarstjóra og aðra þá, sem þeim er sérstaklega annt um að nái undirtökunum í íslenskum stjórnmálum. Það er því von að spurt sé á þessum tímapunkti; ætlar leiðtogaefni Samfylkingarinnar að kynda kosningavél sína með svona hræðsluáróðri alla kosningabaráttuna? Á ekki að taka neinn þátt í málefnalegri pólitískri umræðu eða hefur hún engan hug á að kynna áherslur sínar eða stefnu? Fjalla ítarlega um vinnubrögð Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni og ómálefnaleika leiðtogaefnis þeirra í pistli í dag á heimasíðu Heimdallar.

Fundur Varðbergs og SVS um varnir landsins
Í dag var haldinn í salnum Skála á Hótel Sögu, sameiginlegur fundur, Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) um varnir Íslands á 21. öldinni. Framsögumenn voru: Björn Bjarnason alþingismaður og borgarfulltrúi, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, og Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður. Eftir framsöguerindi þeirra voru pallborðsumræður. Í ræðu sinni fjallaði Björn á ítarlegan hátt um það hvernig best sé að tryggja varnir Íslands á 21. öld? Sagði hann að á tuttugustu öld hefði orðið mesta breyting á högum íslensku þjóðarinnar, frá því að saga hennar hefði hafist. Tvær heimsstyrjaldir hafi bylt stöðu þjóða og ríkja. Íslendingar hefðu hætt að geta treyst á fjarlægð frá öðrum þjóðum sem besta úrræðið til að tryggja öryggi sittgagnvart þeim. Við fullveldið hafi stjórn landsins orðið að móta sér stefnu í utanríkismálum, þótt framkvæmd hennar væri áfram í höndum Dana. Við hernám Danmerkur vorið 1940 hefði gæsla þessara hagsmuna flust inn í landið við hernám Breta 10. apríl 1940. Sumarið 1941 hefði verið samið milli ríkisstjórna Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna um, að bandarískur her tæki við vörnum Íslands af Bretum og hefði það verið fyrsta skref Bandaríkjamanna inn í síðari heimsstyrjöldina. Með samningnum hefði Ísland jafnframt færst af valdasvæði Breta inn á valdasvæði Bandaríkjamanna. Björn sagði jafnframt að með stofnaðild að Atlantshafsbandalaginu árið 1949 og varnarsamningi við Bandaríkin árið 1951, hefði öryggi íslensku þjóðarinnar verið endanlega tryggt. Stefnan sem mótuð hefði verið með þessum ákvörðunum hefði staðist, þrátt fyrir átök innan lands og áreiti utan frá í þá fjóra áratugi, sem liðu, þar til öryggiskerfið tók á sig gjörbreytta mynd með hruni Sovétríkjanna. Ennfremur sagði hann að Íslendingum leyfðist ekki frekar en öðrum að hafa að engu viðvaranir um nýjar hættur, sem steðjuðu að öryggi þjóða. Það væri mikilvægt að bregðast við þeim til að gæta eigin hagsmuna og einnig með því að líta til þess, sem bandamenn okkar í Evrópu og Norður-Ameríku væru að gera. Eftir árásirnar á New York og Washington 11. september 2001 hefði Bandaríkjastjórn tekið upp gjörbreytta stefnu til varnar Bandaríkjunum. Á núverandi fjárlagaári myndu Bandaríkjamenn verja 40 milljörðum dollara til að efla það, sem þeir kalla "homeland security" eða öryggi íbúa og stjórnvalda í Bandaríkjunum sjálfum. Evrópuþjóðir hefðu ekki til samræmdra aðgerða með sama hætti gegn hættunni af árásum hryðjuverkamanna. Líklegt væri, að þær sigldu í kjölfar Bandaríkjamanna, því að öflugri bandarískar heimavarnir gegn hryðjuverkamönnum kynnu að auka áhuga þeirra á að láta illt af sér leiða í Evrópu, ef viðbúnaður þar væri minni. Björn sagði að Íslendingum væri tamt að hugsa um þessi ógnarverk sem fjarlægt vandamál annarra. Engu að síður myndum við koma að stefnumótandi ákvörðunum um viðbrögð við hættunni af þeim bæði á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og einnig í samstarfi við Evrópusambandsríkin meðal annars vegna aðildar að Schengen-samstarfinu.

Hvernig tryggjum við varnir Íslands á 21. öld?
Í kjölfar þessa velti Björn fram spurningunni: Hvernig tryggjum við varnir Íslands á 21. öld?. Hún byggðist á þeirri forsendu, að við gætum ekki verið varnarlaus. Hann sagði að við gætum ekki horfið aftur til tímans, þegar treyst var á fjarlægðina. Við lifðum ekki lengur á tímum, þegar menn virtust sæmilega sáttir við, að Bretaveldi væri í raun og veru eina stórveldið, sem hugsanlega kynni að taka landið. Orðrétt sagði Björn í kjölfarið: Spurningunni: Hvernig tryggjum við varnir Íslands? svara ég á þennan hátt í sjö liðum: 1. Með varnarsamstarfi við Bandaríkin. Með því eru tryggð tengsl milli gæslu íslenskra öryggishagsmuna og öflugasta ríkis við Norður-Atlantshaf. 2. Varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 hefur ekki gildi nema með rökum sé sýnt fram á, að gerðar séu ráðstafanir til að sinna skyldum í samræmi við efni hans. Það verður ekki gert nema unnt sé að fylgjast með skipaferðum við Ísland, halda uppi vörnum í lofthelgi Íslands, hafa tiltækar áætlanir um varnir landsins og æfa framkvæmd þeirra. Einnig þarf að sýna með áætlunum og viðbúnaði, hvernig unnt er að tryggja öryggi þeirra, sem lenda í lífsháska á Íslandi eða í nágrenni við landið. 3. Gera á nýtt hættumat til að tryggja, að almannavarnir séu í samræmi við vel skilgreindar kröfur. Grunnurinn að almannavörnum ríkisins var lagður í upphafi sjöunda áratugarins, þegar hræðslan við kjarnorkuárás var mikil. Nú eru aðrir tímar og nauðsynlegt að meta með skipulegum hætti þörf á viðbrögðum. Þetta verður aðeins gert að frumkvæði íslenskra stjórnvalda og með hliðsjón af þróun alþjóðamála, eins og til dæmis aðgerðum á vettvangi NATO. 4. Hlutverk, skipulag og tækjakost Landhelgisgæslunnar á að endurnýja á grundvelli nýs mats á verkefnum hennar við gjörbreyttar aðstæður. 5. Tryggja ber, að lögreglan geti lagað sig að nýjum aðstæðum með virkri þátttöku í auknu alþjóðlegu samstarfi. 6. Meta þarf hættur, sem Íslandi, þar með stjórnkerfi og mannvirkjum, kann að stafa af hermdar- og hryðjuverkastarfsemi, skipulagðri glæpastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna. Mikilvægt er, að stjórnvöld hafi sem mesta burði til að fylgjast með og bregðast við starfsemi öfgahópa og geri nauðsynlegar ráðstafanir með þjálfun mannafla í því skyni. 7. Taka ber þátt í alþjóðlegum herlögreglusveitum Atlantshafsbandalagsins, Sameinuðu þjóðanna eða annarra alþjóðastofnana í þágu friðagæslu. Sérþjálfun lögreglu og öryggissveita við verkefni af þessu tagi nýtist íslenskum stjórnvöldum við varnarstörf gegn hermdar- og hryðjuverkum heima fyrir. Íslendingum er skylt sem sjálfstæðri þjóð að sýna og axla ábyrgð í varnar- og öryggismálum, annars eru þeir ekki fullgildir þátttakendur í samfélagi þjóðanna. Umræður um aukinn hlut okkar í eigin vörnum er hluti af þróun í þessu efni, þar sem aldrei má ríkja stöðnun og ávallt verður að skoða alla kosti til hlítar. Verkefnum í þágu eigin varna verður ekki sinnt, nema hugað sé að því að þjálfa Íslendinga til öryggisstarfa. Gæsla öryggishagsmuna íslensku þjóðarinnar er varanlegt viðfangsefni og á ekki meta nauðsyn hennar á forsendum einstakra viðburða á alþjóðavettvangi. Slíkir atburðir veita okkur hins vegar svör við því, hvernig öryggisins sé best gætt hverju sinni. Með því að treysta áfram á tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin innan vébanda NATO og huga jafnframt enn frekar að eigin hlutdeild í gæslu innra öyggis er íslensku þjóðinni best borgið í þessum efnum."