Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 apríl 2003

Athyglisverðar skoðanakannanir DV
Mjög athyglisvert hefur verið að fylgjast með tveim skoðanakönnunum DV í vikunni. Á þriðjudag birtist könnun á fylgi flokkanna á landsvísu en í dag var litið á stöðuna í borgarkjördæmunum tveim. Í fyrri könnuninni tapaði Samfylkingin verulegu fylgi frá könnun blaðsins í marsmánuði, einkum á höfuðborgarsvæðinu, meðan aðrir flokkar bæta við sig fylgi. Frjálslyndir bæta hlutfallslega langmestu við sig og ná í könnuninni 3 mönnum á þing. Sjálfstæðisflokkur bætir örlítið við sig fylgi. Fylgi flokkanna er í könnuninni afar svipað kjörfylginu fyrir fjórum árum. Núverandi ríkisstjórn stendur traustum fótum. Af þeim sem afstöðu tóku sögðust 15% kjósa Framsóknarflokkinn, 42,7% Sjálfstæðisflokk, 5,6% Frjálslynda, 27,1% Samfylkingu og 9,4% VG. Í könnuninni sem birtist í dag er fylgistap Samfylkingarinnar í borginni staðfest og ennfremur kemur fram veik staða Framsóknar í þessum kjördæmum. Samkvæmt henni, fær Framsókn ekki mann kjörinn í borginni og Halldór Ásgrímsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ná ekki kjöri. Sjálfstæðisflokkurinn fær 6 menn kjörna í norðurkjördæminu, samkvæmt könnuninni og 5 menn í suðurkjördæminu. Samfylkingin fengi fjóra menn í hvoru kjördæmi, Vinstrihreyfingin - grænt framboð er með einn mann í hvoru og Frjálslyndi flokkurinn kemur manni að í Reykjavík suður. Samtals sögðust 6,8% kjósenda í kjördæmunum báðum ætla að kjósa Framsóknarflokkinn, 45,5% Sjálfstæðisflokk, 29,2% Samfylkinguna, 8% Frjálslynda flokkinn og 9,7% VG. Þetta eru mjög athyglisverðar niðurstöður og ljóst að gangi þetta eftir muni leiðtogakreppa verða innan Framsóknar og Samfylkingarinnar, enda forystufólk þeirra ekki kjörin á þing.