Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 mars 2003

Óskarinn afhentur í nótt
Í nótt verða Óskarsverðlaunin afhent í Kodak Theatre í Los Angeles. Framundan er spennandi Óskarsverðlaunahátíð og gaman að sjá hvernig þetta fer allt saman. Hátíðin verður á lágstemmdum nótum að þessu sinni og glamúrinn lítill vegna stríðsátakanna fyrir botni Persaflóa. Aðeins hefur gerst þrisvar að verðlaunin séu færð til (1938, 1968 og 1981) og aldrei hefur þeim verið aflýst. Ákveðið hefur verið að afhenda verðlaunin á tilsettum tíma þrátt fyrir allt. Í flokki bestu kvikmynda keppa Chicago, The Pianist, The Hours, The Lord of the Rings: The Two Towers og Gangs of New York um hnossið. Allar eru þessar kvikmyndir góðar og verðskulda tilnefninguna. Chicago er mögnuð dans- og söngvamynd og virkilega vel leikin. Gangs of New York er vönduð og í heildina ágætis mynd. The Hours er magnað meistaraverk sem hittir beint í mark. LOTR: The Two Towers er snilldarlega færð í glæsilegan kvikmyndabúning af Peter Jackson og útkoman jafnast á við það allra besta í kvikmyndagerð samtímans. The Pianist er mögnuð úttekt á hernámi Póllands í seinni heimsstyrjöldinni og virkilega vel leikin. Slagurinn um bestu myndina mun sennilega vera á milli Chicago og The Hours, annars gæti The Pianist átt séns. Ég spái því að Chicago vinni verðlaunin. Um leikstjóraverðlaunin keppa Martin Scorsese, Rob Marshall, Stephen Daldry, Roman Polanski og Pedro Almodovar. Hér er slagurinn á milli Martin Scorsese, Rob Marshall og Stephen Daldry. Roman Polanski er sennilega of umdeildur til að eiga séns að mínu mati og Pedro Almodovar mun ekki hljóta verðlaunin. Ég tel tíma til kominn að meistari Martin Scorsese hljóti leikstjóraverðlaunin, enda á hann að baki magnaðan feril og hefur ekki hlotið verðlaunin þrátt fyrir að vera tilnefndur t.d. fyrir Raging Bull og Goodfellas. Annars gætu Rob Marshall og Stephen Daldry báðir átt góðan séns ef myndir þeirra sópa að sér verðlaunum. Vona að Scorsese fái Óskarinn.

Spennandi barátta um leikaraóskarana
Óhætt er að segja að spennandi barátta verði um hverjir hljóti leikaraóskarana. Í flokknum leikari í aðalhlutverki keppa Jack Nicholson, Daniel Day-Lewis, Adrien Brody, Nicolas Cage og Sir Michael Caine. Allir (nema Brody) hafa unnið Óskarinn. Nicolas Cage árið 1995 fyrir Leaving Las Vegas. Michael Caine árið 1986 fyrir Hannah and her Sisters og 1999 fyrir The Cider House Rules. Daniel Day-Lewis hlaut þau 1989 fyrir My Left Foot. Nicholson hefur þrisvar hlotið Óskar (þetta er tólfta tilnefning hans); 1975 fyrir One Flew Over The Cuckoo´s Nest, 1983 fyrir Terms of Endearment og 1997 fyrir As Good As It Gets. Hér er slagurinn líklegast á milli þeirra Day-Lewis og Jack Nicholson. Ég er nú ansi mikill aðdáandi Nicholson og hef alla tíð verið og vona að hann fái núna sinn fjórða óskar, aðeins Katharine Hepburn hefur hlotið svo marga. Það gæti verið að Akademían vilji verðlauna Day-Lewis sem var frábær í sinni rullu. Erfitt val, ég styð Jack. Í flokkinum leikkona í aðalhlutverki eru fimm magnaðar leikkonur að keppa um hnossið; Renée Zellweger, Nicole Kidman, Julianne Moore, Salma Hayek og Diane Lane. Engin þeirra hefur áður hlotið Óskar. Þetta verður barátta milli þeirra Kidman og Zellweger og er erfitt um að spá hvor muni vinna. Fer svolítið eftir því hvor myndin muni sópa að sér verðlaunum.

Í flokknum leikari í aukahlutverki eru fimm risar að keppa um gyllta kallinn; Paul Newman, Chris Cooper, Christopher Walken, Ed Harris og John C. Reilly. Erfitt er að gera upp á milli þessara fimm leikara sem allir eiga stórleik í sínum myndum. Newman er hér að hljóta sína tíundu tilnefningu og hlaut Óskarinn 1986 fyrir The Color of Money. Hann brillerar í sinni mynd. Walken hlaut Óskarinn 1978 fyrir Deer Hunter. Ekki er mögulegt að spá hver muni vinna verðlaunin, ég tel að slagurinn muni verða milli Newman, Cooper (sem er magnaður í Adaptation) og Walken. Finnst við hæfi að Newman hljóti verðlaunin og vona að hann fái þau, þó allt eins líklegt sé að einhver annar vinni. Þetta er galopin kategóría. Í flokkinum leikkona í aukahlutverki keppa þær stöllur Meryl Streep, Catherine Zeta-Jones, Julianne Moore, Kathy Bates og Queen Latifah. Allar fara á kostum í sínum myndum. Meryl Streep hlýtur þarna þrettándu tilnefningu sína (enginn hlotið fleiri) og vann verðlaunin 1979 fyrir Kramer vs. Kramer og 1982 fyrir Sophie´s Choice. Kathy Bates hlaut Óskarinn 1990 fyrir magnaðan leik sinn í Misery. Ég tel að slagurinn sé á milli Meryl Streep, Julianne Moore og Catherine Zeta-Jones. Ómögulegt að segja hvað Akademían geri í þessu. Líklegt að Zeta-Jones fái mörg atkvæði, hún er komin rúma átta mánuði á leið og hefur mikið fyrir því að mæta á staðinn og á mikið fylgi í kvikmyndaheiminum. Annars er skemmst að minnast þess þegar Annette Bening "American Beauty" mætti kasólétt á Óskarinn 2000 og tapaði (mörgum að óvörum) fyrir Hilary Swank. Kannski á Julianne Moore séns, aldrei að vita. Ég vona að Meryl Streep fái verðlaunin. Annars er þetta galopin flokkur. Spennandi kvöld er framundan.