Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 mars 2003

Góður fundur á Hótel KEA - opnun kosningaskrifstofu
Í gærkvöldi var á Hótel KEA, góður og fræðandi fundur um samgöngumál, undir yfirskriftinni Reykjavík - Akureyri 307 km. Þar fluttu þeir fóstbræður Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins framsöguerindi um hugmyndir Halldórs um styttingu þjóðvegarins milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þær hugmyndir kynnti hann ítarlega í góðri grein á Íslendingi, 10. febrúa 2002. Halldór færði í máli sínu fram helstu rök sín og studdi þau með ítarlegum útreikningum. Með styttingu vegarins taldi hann ýmsa möguleika opnast í ferðaþjónustu og leiða til lægri flutningskostnaðar sem myndi styrkja atvinnulíf á Norður- og Austurlandi. Styrmir taldi rök Halldórs haldlítil. Viðhorf Íslendinga hefðu breyst í tímans rás og ákveðinn hluti þjóðarinnar myndi ekki sætta sig við þá röskun sem fylgdi malbikuðum hálendisvegi. Æ fleiri landsmenn litu á sand og auðn hálendisins sem auðlind sem okkur bæri skylda til að vernda. Að loknum erindum spunnust fjörlegar umræður með þátttöku fundarmanna. Eftir að Halldór og Styrmir höfðu svarað fyrirspurnum fluttu þeir stutt lokaorð og mátti greina tilslakanir af beggja hálfu. Þeir ræddu málin á yfirvegaðan hátt og færðu báðir rök fyrir máli sínu og útkoman skemmtilegur fundur sem var fjölmennur. Kosningabarátta okkar sjálfstæðismanna fyrir komandi alþingiskosningar er að komast á fullt. 4. apríl nk. munu kosningaskrifstofur Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, opna á Akureyri og Egilsstöðum. Þá verða tæpir 40 dagar til kosninga og verður kosningabarátta seinustu vikurnar eflaust snörp hér.

Egilsstaðir miðpunktur í eflingu byggðakjarna á Austurlandi
Í viðamikilli skýrslu sem kynnt var á málþingi um byggðamál á Akureyri um síðustu helgi, kom fram að Egilsstaðir væru einn af þremur miðpunktum í eflingu byggðakjarna á landsbyggðinni. Auðveldara aðgengi að námi, lægri flutningskostnaður, bættar samgöngur og betri fjarskipti eru talin lykilatriði í eflingu byggðar. Lagt er til að Háskólanum á Akureyri verði gert kleift að koma upp útibúi á Egilsstöðum. Skýrslan ber heitið „Fólk og fyrirtæki“ og fjallar um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni en hún var unnin af Byggðarannsóknastofnun Íslands við Háskólann á Akureyri og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Í skýrslunni er lagt til að efldir verði þrír byggðakjarnar utan höfuðborgarsvæðisins: Vestfirðir, með Ísafjörð sem miðpunkt, Norðurland, með Akureyri sem miðpunkt, og Austurland, með Egilsstaði sem miðpunkt. Markmiðið sé að efla miðlæga byggðakjarna sem styrkt geti viðkomandi svæði í heild. Þannig ætti að miða fjárfestingar í innviðum við það að stækka áhrifasvæði ofangreindra byggðakjarna, svo jaðarbyggðir geti sótt þangað ýmsa sérhæfða framleiðsluþætti og þjónustu með auðveldum hætti. Tillögur í skýrslunni til eflingar byggðakjarnanna lúta að fjórum þáttum: Að auðvelda aðgengi að námi, draga úr flutningskostnaði, bæta samgöngur og bæta fjarskipti. Jafnframt er fjallað um marga fleiri þætti, svo sem þátttöku opinberra aðila í nýsköpunarstarfsemi og niðurfellingu námslána þeirra sem búsettir eru á landsbygðinni.

Efling menntunar á landsbyggðinni er talin þýðingarmikill þáttur. Nýir skólar sem séu settir á stofn á landsbyggðinni auki líkurnar á að unga kynslóðin fari í framhaldsnám og staldri lengur við í heimabyggð. Aukinn mannauður á landsbyggðinni verði einnig til þess að auka stærðarhagkvæmni fyrirtækja, sem eigi auðveldara með að ráða hæft fólk til starfa. Í skýrslunni er lagt til að Háskólanum á Akureyri verði gert kleift að koma upp öflugum útibúum á Egilsstöðum og Ísafirði þar sem hægt væri að taka a.m.k. fyrstu árin í fjölmennustu greinum háskólanáms, svo sem viðskiptafræði, lögfræði, heilbrigðisgreinum og kennaramenntun. Við lækkun flutningskostnaðar eru nefndar gegnsæjar niðurgreiðslur sem hefðu skýran kostnað í för með sér. Spurt er hvort leiðbeinandi reglur um viðskipti birgja og smásöluverslana sem Samkeppnisstofnun mótaði í lok ársins 2002 geti ekki einnig átt við um flutningastarfsemi. Við forgangsröðun framkvæmda í samgöngukerfinu er lagt til að litið sé sérstaklega til þess að hafa áhrif á stærð atvinnu- og þjónustusvæða. Með því að stækka atvinnu- og þjónustusvæði sé í raun verið að breyta atvinnu- og þjónustustigi þeirra byggðarlaga sem í hlut eiga. Hvað varðar fjarskipti er í skýrslunni talað um að stefnt skuli að aukinni fjartengingu byggðakjarnanna og lækkun kostnaðar. Æskilegt sé að ríkisstofnanir komi sér upp vefþjónustu þannig að einstaklingar og fyrirtæki þurfi síður að leita til höfuðborgarsvæðisins til þess að sinna erindum við þessar stofnanir.