Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 mars 2003

Skattaálögudrottningin Ingibjörg Sólrún
Um daginn birtist á Vef-Þjóðviljanum, enn einn magnaði pistillinn. Þar er fjallað um skattaumræðu fyrrverandi borgarstjóra, sem hún virðist reyna að snúa í einhverja undarlega átt. Orðrétt segir pistlahöfundur svo frá: "Ef taka má mið af stjórnmálaferli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þá mun hún aldrei setja sig úr færi að hækka skatta. Látlausar skattahækkanir hafa dunið á borgarbúum frá því hún varð borgarstjóri. Og hér er ekki aðeins átt við að skatttekjur borgarinnar hafi hækkað vegna aukinna tekna borgarbúa heldur hafa skatthlutföll einnig verið hækkuð. Þrátt fyrir mjög auknar tekjur borgarinnar mun skuldasöfnun í borgarstjóratíð Ingibjargar einnig gera það að verkum að ekki verður hlaupið að því að vinda ofan af skattahækkununum í náinni framtíð. Skattgreiðendur framtíðarinnar í Reykjavík eiga eftir að greiða tugi milljarða króna í ógreiddum reikningum Ingibjargar Sólrúnar. Miklar hækkanir á útsvari borgarbúa, sem er hluti tekjuskattsins, hafa svo átt sinn þátt í því að halda jaðaráhrifum skattkerfisins meiri en ef Ingibjörg hefði ekki stolið skattlækkunum ríkisstjórnarinnar með því að hækka útsvarið jafnharðan. En nú hefur Ingibjörg lýst því yfir að rétt sé að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins. Að vísu geta kjósendur gengið að því sem vísu að jaðaráhrifin verði aukin ráði hún nokkru um því hún lofaði einnig að stöðva skuldasöfnun borgarinnar og hækka ekki skatta þegar hún sóttist eftir stuðningi til að stjórna Reykjavíkurborg. Og það virðist einmitt felast í tillögu hennar um fjölþrepa skattkerfi að jaðaráhrifin verði meiri.

Skattatillögur sem fáir skilja
Samfylkingin hafði fjölþrepa skattkerfi einnig á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar ásamt því að hækka skatta á sjávarútveginn, bensín og húsaleigu ásamt öðrum fjármagnstekjum. Aldrei fékkst þó upp úr frambjóðendum Samfylkingarinnar fyrir síðust kosningar hvernig ætti að útfæra þessa þrepaskiptingu tekjuskattsins. Þegar gengið var á þáverandi forsætisráðherraefni hennar fengust þau svör að um allt að sjö þrep yrði að ræða en ekki hvernig þau skiptust eða hversu há þau yrðu. Nú hefur þessi margþvælda óljósa tillaga sumsé verið dregin á flot að nýju. Ef marka má málflutning Ingibjargar fylgja ekki frekari útskýringar nú en fyrir fjórum árum. Þetta er bara svona til að „skoða af alvöru“. Hvernig má það vera að þessi tillaga um fjölþrepaskattkerfi sem var á stefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir fjórum árum og stefnir í að vera það aftur fyrir kosningarnar nú hefur enn ekki verið útfærð eða útskýrð? Hve há verða þessi fjölmörgu skattþrep, ef leyfist að spyrja? Ef þau verða sjö verða þau þá 35%, 40%, 45%, 50%, 70%, 80% og 90%? Eða hvað? Ekki ætlar Samfylkingin að bjóða fram aftur án þess að skýra hvað felst í þessari hótun? Og svo eru það jaðaráhrifin. Að því gefnu að öll þrep Samfylkingarinnar verði ekki lægri en 38% þá munu mestu jaðaráhrif skattkerfisins aukast við þrepaskiptinguna. Hæsti skattur í dag af viðbótarkrónu sem menn vinna sér inn er tæp 42% þegar reiknað er með hátekjuskatti og skattfrelsi greiðslu í lífeyrissjóð. Ef Ingibjörg hefði ekki hækkað útsvarið hvað eftir annað væri þetta vel undir 40%. Ef Samfylkingin ætlar að hafa hæsta þrepið í fjölþrepaskatti sínum 70% auk hátekjuskatts verða jaðaráhrifin allt að 72%. Það mun þýða að af hverjum 1.000 krónum sem menn vinna sér inn til viðbótar munu 720 fara í skatt." Flottur pistill.