Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 mars 2003

Glæsilegur sigur MA í söngkeppni FF
Um síðustu helgi var haldin hér á Akureyri, söngkeppni framhaldsskólanna. Anna Katrín Guðbrandsdóttir nemandi í Menntaskólanum á Akureyri, sigraði í keppninni. Hún söng Vísur Vatnsenda-Rósu, þjóðlagastefið sem Jón Ásgeirsson tónskáld gerði ódauðlegt, en hér var það í splunkunýrri útsetningu tveggja nemenda MA, Styrmis Haukssonar og Ólafs Hauks Árnasonar. Strengjasveit lék með Önnu Katrínu á sviði, Björk Óskarsdóttir, María Hrund Stefánsdóttir, Ragnheiður Korka Jónsdóttir og Tomasz Kolosowski. Í öðru sæti lenti Sigþór Árnason, nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, en hann hlaut jafnframt verðlaun fyrir bestu sviðsframkomuna, verðlaun sem veitt voru að lokinni SMS-kosningu áhorfenda. Í þriðja sæti var svo Elísabet Eyþórsdóttir úr Borgarholtsskóla. Dómnefndina skipuðu Birgitta Haukdal, Ólafur Páll Gunnarsson, Pálmi Gunnarsson og Gestur Einar Jónasson. Keppnin var í beinni útsendingu í Sjónvarpinu og á Rás 2 og var þetta mikil og góð skemmtun. Ég var fyrir sunnan um seinustu helgi og sá því ekki keppnina en horfði á hana á myndbandi í gær. Það var mjög ánægjulegt að heyra af sigri MA á heimavelli á sunnudeginum. Keppnin tókst mjög vel upp og var söngurinn bæði fjölbreyttur og hressilegur og var lagavalið gott hjá flytjendunum. Það var t.d. mat dómara að þetta væri ein allra fjörugasta og best heppnaða Söngkeppni FF frá upphafi. Um 2000 manns eru taldir hafa verið í Höllinni og skemmtu sér hið besta. Eins og áður hefur komið fram var umsjá þessarar miklu hátíðar og útsending hennar í höndum ungs fólks. Yfirstjórnin voru nemendur í og í tengslum við MA og starfsfólk nær eingöngu úr skólunum tveimur, MA og VMA. Starf þeirra er mikið og árangurinn glæsilegur vitnisburður um smekkvísi, listfengi, skipulag og stjórn og þeir eiga skilið heiður fyrir það.