Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 apríl 2003

Davíð forsætisráðherra í 12 ár
Í dag, 30. apríl, hefur Davíð Oddsson setið í embætti forsætisráðherra samfellt í 12 ár, lengur en nokkur annar Íslendingur. Hefur hann verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá 10. mars 1991 er hann sigraði Þorstein Pálsson, þáverandi formann flokksins í formannskosningum á landsfundi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í rúm 70 ár verið í fararbroddi íslenskra stjórnmála. Það hefur verið gæfa hans að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn. Margir ákváðu að styðja flokkinn á árum áður vegna forystuhæfileika t.d. Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, og flokkurinn varð stórveldi í íslenskum stjórnmálum vegna forystu þeirra í flokknum. Þessir menn voru þekktir fyrir yfirburðaleiðtogahæfileika, mælsku sína og víðsýni í íslenskri pólitík. Nú, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur samfellt setið í forystu ríkisstjórnar Íslands í 12 ár er von að spurt sé - hver er lykillinn að velgengni Sjálfstæðisflokksins í landsmálapólitík? Svarið er í mínum huga einfalt. Davíð Oddsson hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann hóf stjórnmálaafskipti sín innan Sjálfstæðisflokksins við borgarstjórnarkosningarnar árið 1974 og náði kjöri og sat í borgarstjórn til ársins 1994. Hann var borgarstjóri í níu ár; 1982-1991. Í kjölfar sigurs síns í borginni 1990 gaf hann kost á sér í prófkjöri flokksins og sigraði með nokkrum yfirburðum.

Davíð varð formaður flokksins eins og fyrr segir í mars 1991. Hann varð forsætisráðherra 30. apríl í kjölfar þingkosninga sem Sjálfstæðisflokkurinn vann góðan sigur í. Frá þeim tíma hefur hann setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands. Ef einhver stjórnmálamaður á seinustu áratugum hefur haft sjötta skilningarvitið í pólitík er það Davíð. Hann hefur með mælsku sinni, hressilegum skoðunum og forystuhæfileikum sínum tryggt forystu flokksins í landsmálunum. Undir hans leiðsögn hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari. Staða Sjálfstæðisflokksins nú er mjög athyglisverð, pólitískt séð, enda er einsdæmi að einn flokkur stjórni landinu í jafnlangan tíma með sama leiðtoganum við stjórnvölinn. Davíð þorir að tjá skoðanir sínar og óhræddur við að tala tæpitungulaust. Í kosningunum eftir 10 daga verður kosið um hvert skuli stefna á næsta kjörtímabili. Hvort eigi að halda áfram á sömu braut til farsældar og verið hefur eða taka aðra stefnu beint í óvissuna. Það er mjög nauðsynlegt í mínum huga að haldið verði áfram á þeirri braut sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt þjóðinni á seinustu þrem kjörtímabilum. Það þarf að vinna hörðum höndum til að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn verði leiðandi afl í landsmálunum og sé í forystu í öllum kjördæmum landsins. Ég treysti engum betur en Davíð til að stýra þjóðarskútunni og hvet landsmenn að tryggja að áfram verði haldið á réttri braut til farsældar, það er mikilvægt að varðveita stöðugleikann og vinstrimenn komist ekki í þá aðstöðu að glutra góðri stöðu landsmanna niður á sama hátt og fyrri vinstristjórnir hafa gert. Kjósum stöðugleikann í komandi kosningum. Áfram Ísland!