Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 apríl 2003

Skattalækkunarloforð Samfylkingarinnar ekki hækkuð
Í inngangi fréttar RÚV í morgun sagði orðrétt: "Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, þvertekur fyrir það að Samfylkingin ætli að hækka skattalækkunarloforð flokksins." Samfylkingin hefur nú uppgötvað að tillögur Sjálfstæðisflokksins séu "dýrari fyrir ríkið" en tillögur Samfylkingarinnar. Með öðrum orðum hefur Samfylkingin uppgötvað að sjálfstæðismenn muni lækka skatta á fólkið í landinu meira en Samfylkingin. Með þessu er í raun verið að segja að tillögur sjálfstæðismanna séu "ódýrari" fyrir fólkið. Nú lofar formaður Samfylkingarinnar því að hækka ekki skattalækkunarloforðin. Spyrja má hvort skortur Samfylkingarinnar á vilja til að lækka skatta á fólk muni í raun þýða þegar fram í sækir að Samfylkingin hækki skatta á fólk komist flokkurinn til valda. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1994 lofaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að hækka ekki skatta. Fjórum árum síðar lofaði R-listinn að lækka gjöld á borgarbúa en hækkaði svo útsvarið strax um haustið. Þegar Ingibjörg Sólrún var minnt á loforðin í sjónvarpsfréttum svaraði hún: "Þekkir þú einhver dæmi þess, að þeir sem eru að bjóða sig fram til kosninga lofi skattahækkunum? "

Vonandi fara ekki allir á hausinn!
Í dag hittir Jón í Grófinni naglann á höfuðið á Íslendingi: "Guðjón A. Kristjánsson hefur nú sett fram skilyrði fyrir því, að Frjálslyndi flokkurinn fari í ríkisstjórn. "Það verður erfitt að semja okkur út úr sjávarútvegsráðuneytinu. Fiskveiðistefnuna gefum við ekki eftir," segir hann og talar borginmannlega í Morgunblaðinu á páskadag. Síðan kemur flókin útlistun á því, hvað í því felst. Og á afleiðingunum: "Með því að taka mið af færeyska fiskveiðistjórnunarkerfinu er hægt að vinna sig út úr núverandi kvótakerfi með skipulögðum hætti," segir hann, "og það án þess að þeir sem fyrir eru í greininni hrökklist frá eða fari allir á hausinn..." o.s.frv. Og Guðjón A. lætur ekki við það sitja að lýsa stefnu sinni í sjávarútvegsmálum, eins og hann lætur yfirleitt duga, heldur vindur sér líka yfir í landbúnaðinn í viðtalinu. Þar segir hann, að "við í Frjálslynda flokknum teljum því að það þurfi að skoða þetta kerfi, út frá þeirri hugsun, sem ég hef hér lýst að framan, á næstu fjórum árum," segir hann. Og í beinu framhaldi samkvæmt frásögn Morgunblaðsins: "Hann leggur einnig áherslu á að nýtt kerfi verði ekki til þess að þeir sem fyrir eru í landbúnaði verði settir á hausinn." Það er ekki undarlegt, þótt einhverjum verði að orði: Guði sé lof að hann tekur ekki fleiri mál fyrir!"