Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 júní 2003

Bandarísk stjórnmál - forsetaslagur að hefjast
Í grein minni á frelsi.is fjalla ég um bandarísk stjórnmál. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með stjórnmálum í Bandaríkjunum seinustu mánuði eins og venjulega reyndar. Hef í mörg ár fylgst vel með pólitíkinni vestan hafs. Eftir þingkosningarnar í nóvember varð ljóst að pólitísk staða George W. Bush forseta Bandaríkjanna, myndi styrkjast til mikilla muna og hlaut hann skýrt umboð til að koma sínum málum í framkvæmd. Repúblikanaflokkurinn vann sögulegan sigur og tryggði sér völdin í bæði fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. Framundan eru forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þegar eftir að úrslit urðu ljós í þingkosningunum urðu átakalínur skýrari fyrir forsetaslaginn. Ef meta ætti nú líkurnar á hverjir myndu slást um Hvíta húsið kjörtímabilið 2004-2008 er líklegast að það yrðu George W. Bush og Joe Lieberman. Annars getur allt gerst demókratamegin og gæti allt eins orðið að forsetaframbjóðandi þeirra yrði einn af þeim sem lítils fylgis nýtur núna. Það er þó alveg ljóst að það verður athyglisvert að fylgjast með forsetaslagnum sem þegar er hafinn og mun ná hámarki eftir flokksþing stóru flokkanna sumarið 2004 þar sem forsetaefnin verða formlega valin. Framundan eru því spennandi tímar í bandarískri pólitík næstu 18 mánuðina, eða allt til kjördags, 2. nóvember 2004.

Athyglisvert netviðtal við Birgi
10. maí sl. var Birgir Ármannsson, 35 ára lögfræðingur og fyrrverandi formaður Heimdallar, kjörinn til þingsetu fyrir Sjálfstæðisflokkinn, kjörtímabilið 2003-2007. Er þing kom saman í lok seinasta mánaðar var hann kjörinn 6. varaforseti Alþingis, auk þess sem hann situr í allsherjarnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og er formaður Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins. Hafsteinn Þór Hauksson og Ragnar Jónasson ræddu við Birgi í tilefni af því og er afrakstur þess spjalls athyglisvert viðtal, fyrsta netviðtalið á frelsi.is þar sem á næstunni verður rætt við þingmenn flokksins.