Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 september 2003

11. september minnst - morðið á Önnu Lindh
Í pistli á vefsíðu minni í dag, fjalla ég um árásirnar á New York og Washington, 11. september 2001, en í dag eru tvö ár liðin frá þeim. Fer ég yfir það sem gerst hefur í alþjóðamálum frá þeim tíma og hvernig staða George W. Bush forseta Bandaríkjanna, hefur breyst á þessum tíma. Ennfremur fjalla ég um sorglegt fráfall Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, sem lést í nótt af sárum sínum, eftir að henni var ráðist með hnífi í verslunarmiðstöð í Stokkhólmi. Morðið á Önnu Lindh er sorgleg aðför að lýðræðinu og áminning um að bæta öryggisgæslu stjórnmálamanna á Norðurlöndum.

Tvö ár frá hryðjuverkum
Í dag, 11. september, er þess minnst að tvö eru liðin frá hryðjuverkaárásunum grimmdarlegu á New York og Washington sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið, árás sem er hiklaust með eftirminnilegustu augnablikum mannkynssögunnar. Víst er að fólk mun aldrei gleyma svipmyndunum af World Trade Center í rjúkandi rúst og svo hinni táknrænu sjón er tvíburaturnarnir hrundu til jarðar. Þetta eru svipmyndir sem eru greyptar í minni allra þeirra sem upplifðu þessar hörmungar á sinn hátt um allan heim. Allir þeir sem muna þennan dag muna glögglega hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttirnar af árásinni, á svipaðan hátt og fyrri kynslóðar minnast föstudagsins 22. nóvember 1963 þegar John Fitzgerald Kennedy forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Á þessum tveim árum hefur mannlífið í Bandaríkjunum verið að taka á sig sömu mynd og áður en andrúmsloftið verður aldrei samt eftir það mikla rothögg sem þessi árás var fyrir allt vestrænt samfélag og Bandaríkjamenn. Þjóðerniskennd hefur sennilega aldrei verið meiri en nú á þessum 24 mánuðum sem liðnir eru, og hetjanna sem létust í árásinni verður minnst um allan heim í dag.

Þjóðarsorg í Svíþjóð
Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, lést á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í nótt af völdum innvortis blæðinga í kjölfar þess að ráðist var á hana með hnífi í verslunarmiðstöð í miðborg Stokkhólms í gær. Hún hlaut sár á bringu, handlegg og maga. Í kjölfar árásarinnar fór hún í aðgerð sem stóð fram eftir nóttu. Almenningur í Svíþjóð er felmtri sleginn vegna morðsins á Önnu Lindh, þjóðarsorg er í landinu. Morðið á henni minnir óneitanlega á morðið á Olof Palme, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, 28. febrúar 1986 en hann var skotinn til bana á götuhorni í miðborg Stokkhólms þar sem hann var að koma úr kvikmyndahúsi. Er ekki óeðlilegt að upp komi nú umræða þess efnis hvort sænskir stjórnmálamenn njóti nægrar verndar. Utanríkisráðherrann var í einkaerindum án lífvarða að versla þegar að henni var ráðist, og spurning hvort efla verður öryggisgæslu. Ákveðið hefur verið að fresta ekki kosningu um Evruna sem fram átti að fara um helgina, þrátt fyrir morðið á Önnu Lindh. Anna Lindh er harmdauði, það er sorglegt að ráðist sé að stjórnmálamanni á Norðurlöndum með svo skelfilegum hætti. Morðið á henni er aðför að lýðræðinu.