Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 september 2003

Heimdallarkosning
Framundan er baráttan um Heimdall. Þar verða í framboði tveir listar, rétt eins og seinustu tvö ár. Það verður án efa áhugaverð og skemmtileg barátta. Frændi minn, Atli Rafn Björnsson, er í framboði til formennsku í Heimdalli. Hann hefur seinustu tvö ár verið gjaldkeri stjórnar Heimdallar. Hann er rétti maðurinn til að fylgja eftir því sem stjórnir Björgvins Guðmundssonar og Magnúsar Þórs Gylfasonar, hafa unnið að seinustu árin. Með honum í framboði er traust og gott fólk sem ég treysti betur en nokkrum öðrum til að leiða Heimdall á komandi árum. Ég hvet alla félaga mína í Reykjavík til að fylkja sér um Atla Rafn og þá sem með honum eru í framboði.

Málefnasnautt framboð
Við sem viljum Heimdalli vel og teljum að þar hafi verið vel haldið á málum, bíðum enn eftir því að mótframboðið undir forystu Bolla Thoroddsen og annarra Deigluliða, komi fram með málefni sín og útlisti hvernig þau telji best að ná fram þeim "breytingum" sem þau telja nauðsynlegar. Það skyldi þó ekki vera að eina breytingin sem þau telji nauðsynleg sé að víkja frá sannri hægristefnu og feta mörg ár til baka og fara að innprenta einhverja misgáfulega vinstristefnu inn í Heimdall og það sem hann á að standa fyrir. Okkur sem viljum halda áfram á sannri ferð til hægri mislíkar aðfarir þessa framboðs og viljum að þau komi hreint fram og segi hvað þau vilji gera. Orðið breytingar er þreytt orð og margt betra hægt að bjóða Heimdellingum heldur en svo þreyttan frasa.

Pétur tekur Ögmund í gegn
Gaman var að fylgjast með Kastljósinu í kvöld og sjá Pétur Blöndal alþingismann, taka Ögmund Jónasson alþingismann, í gegn í umræðum um tillögur VG um að setja hömlur á eign manna í fyrirtækjum og tillögur um viðskiptafrelsi. Þegar verið var að ræða um hlutabréfakaup sneri Pétur vel á hann þegar hann benti á að ÖJ væri sem nefndarmaður í stjórn lífeyrissjóða, mikið í verðbréfabraski og viðskiptum almennt og hagnaðist vel á þessu sjálfur. Ögmundur hefur sjaldan orðið rauðari í framan en í kvöld.