Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 september 2003

Leikstjóraumfjöllun - Elia Kazan
Í vikunni birtist leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com um leikstjórann Elia Kazan. Elia Kazan fæddist 7. september 1909 í Constantinople í Grikklandi. Hann er einn af áhrifamestu leikstjórum Bandaríkjanna á 20. öld. Án vafa meistari í góðri kvikmyndagerð og náði einkar vel að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Fáir leikstjórar hafa í raun sett meira mark á bandaríska kvikmyndagerð og kvikmyndaveldið Hollywood. Þrátt fyrir allt er hann einn meistaranna í kvikmyndaheiminum, einn þeirra sem gerðu Hollywood að stórveldi.

Borgarnesræða Davíðs Oddssonar
Á föstudagskvöld ávarpaði Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, gesti á þingi SUS í Borgarnesi, og sátu fjórir af sex ráðherrum flokksins fyrir svörum eftir það. Nokkur svör forsætisráðherra, við spurningum um grundvallarréttindi og skyldur íslenskra borgara, vekja sérstakan fögnuð. Í umræðum um skattamál sagðist Davíð, meðal annars, eiga von á því að hátekjuskattur yrði afnuminn á kjörtímabilinu. Davíð var einnig spurður hvort hann myndi styðja lagabreytingar sem fælu í sér að opinberri birtingu álagninga- og skattskráa yrði hætt. Davíð svaraði því til að hann teldi birtingu slíkra gagna bæði óþarfa og ónauðsynlega. Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi barist fyrir slíkum lagabreytingum og voru þingmönnum send bréf í ágúst síðastliðnum og þeir hvattir til þess að gera sitt til að málið næði fram að ganga.

Ályktanir SUS komnar á netið
Þing Sambands ungra sjálfstæðismanna var eins og kunnugt er haldið í Borgarnesi um seinustu helgi. Yfirskrift þess var Frelsi til að velja. Fram kemur í stjórnmálaályktun þingsins að ungir sjálfstæðismenn trúa umfram allt á frelsi mannsins og mannsandans. Það er skoðun okkar að frjálst val einstaklinga sé grundvöllur viðvarandi hagsældar á Íslandi og forsenda efnahagslegra framfara. Ríkisvaldið eigi að lágmarka afskipti sín af einstaklingum og fyrirtækjum. Á þinginu var mótuð stefna ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins til næstu tveggja ára og hvet ég alla sem þetta lesa að kynna sér ályktanir þingsins.