Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 október 2003

Ríkið í megrun! – ný pólitísk stjarna í Kaliforníu
Í sunnudagspistli vikunnar fjalla ég um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, sem lagt var fram 1. október sl. Ennfremur fer ég yfir helstu tölur sem því fylgja, þær sem skipta alla landsmenn miklu máli. Legg á það áherslu að þingmenn standi sig í að skera niður útgjöld ríkisins eftir fremsta megni og minni á ályktanir SUS-þings í Borgarnesi og afstöðu ungs hægrifólks í þeim efnum. Fram hefur komið í fréttum að gjöld ríkisins á hvern bensínlítra muni hækka um tæplega fjórar krónur, fordæmi ég þá ákvörðun með tilliti til kosningaloforða í vor. Að síðustu fjalla ég um pólitíkina í Kaliforníufylki í vikunni, en Arnold Schwarzenegger var kjörinn ríkisstjóri með afgerandi hætti, er þar ný pólitísk stjarna komin fram á sjónarsviðið.

Leikstjóraumfjöllun - Billy Wilder
Í vikunni birtist leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com um leikstjórann Billy Wilder. Billy Wilder átti hann einstakan feril í kvikmyndaheiminum og telst hiklaust einn af mestu snillingum bandaríska kvikmyndaheimsins á tuttugustu öld. Fáir innflytjendur sem flutt hafa til Bandaríkjanna hafa náð betur að fanga ameríska mannlífsmenningu eða notað tungumálið jafn listilega í kvikmyndahandritum sínum og hann. Wilder var einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldarinnar, sannkallaður meistari í að tjá mannlíf og koma með húmorinn á rétta staði í handrit og gæða þau einstöku lífi. Hann var brautryðjandi gamanmyndanna eins og við þekkjum þær í dag. Hann var snillingur í fremstu röð.