Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 nóvember 2003

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Aðalfrétt gærkvöldsins í fréttatímum var sú að um 60 lykilstarfsmenn í Kaupþingi-Búnaðarbanka hefðu gert samning við félagið um kaup á 23 miljónum hluta í bankanum. Forstjóri Kaupþings-Búnaðarbanka og starfandi stjórnarformaður keyptu hvor um sig um 6 milljónir hluta á genginu 156 á rúmlega 900 miljónir króna. Varð mörgum brugðið við þessi tíðindi. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, sagðist í morgun vera undrandi á þeim samningum sem bankinn gerði við stjórnendur sína um kaup á hlutabréfum í bankanum. Hún hefur sagt að það að gera svona samning aftur í tímann og velja sér dag þegar gengi bréfanna er langt undir markaðsgengi sýni að þeir sem taki svona ákvarðanir séu ekki í tengslum við raunveruleikann. Eftir ríkisstjórnarfund í morgun tjáði forsætisráðherra sig um málið. Hann sagði í yfirlýsingu að stjórnendur bankans væru að koma skömm á frelsið með þessum samningi. Sagði Davíð þetta vera ögrun við fólkið í landinu og tilkynnti að hann myndi taka inneign sína í bankanum út. Mun ríkisstjórnin leita allra leiða til að koma í veg fyrir samninga af þessu tagi í framtíðinni. Tek ég undir með forsætisráðherra, þessi vinnubrögð eru óverjandi og á þessum vinnubrögðum verður að taka.

Bush og BlairÍ dag mun opinberri heimsókn Bush forseta til Bretlands ljúka formlega. Í gær héldu hann og Blair forsætisráðherra, blaðamannafund þar sem margt athyglisvert kom fram. Einnig áttu þeir einkafund í bústað forsætisráðherrans, Downingstræti 10. Margt fleira var á dagskrá gærdagsins. Forsetinn flaug frá London í morgun til Sedgefield. Kvaddi hann gestgjafa sína, drottninguna og hertogann við Buckinghamhöll. Sedgefield verður lokapunktur heimsóknarinnar. Það er kjördæmi Blairs forsætisráðherra. Er á dagskránni kynnisferð um bæinn, teboð á heimili Blair hjónanna í bænum og að lokum málsverður á krá í Sedgefield. Gríðarleg öryggisgæsla verður meðan á heimsókn forsetans til Sedgefield stendur. Leiðtogarnir munu kveðjast í Sedgefield að því loknu. Heimsókn forsetans til Bretlands lýkur seinnipartinn og að því loknu halda forsetahjónin til Bandaríkjanna. Söguleg heimsókn forsetans hefur verið aðalfréttaefni seinustu daga, enda ekki gerst fyrr að forseti Bandaríkjanna fari til Bretlands í konunglega heimsókn.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóriÁ bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag var fjárlagafrumvarp Akureyrarbæjar ársins 2004 til fyrri umræðu. Tekjur bæjarins fyrir næsta rekstrarár eru áætlaðar rúmlega 8,8 milljarðar en rekstarútgjöld Akureyrarbæjar án fjármagnsliða hinsvegar 8 og hálfur milljarður. Skv. fjárhagsáætlunni taka fræðslu- og uppeldismál mest til sín eða alls 2,2 milljarða, félagsþjónustan hálfan milljarð og íþrótta- og tómstundamál tæplega hálfan milljarð. Seinni umræða um fjárlagafrumvarp bæjarins verður eftir tæpan mánuð, þann 16. desember. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, flutti ávarp á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag og kynnti þar frumvarpið og fór yfir ýmis fleiri mál. Fram kom í hans máli að íbúum bæjarins hefði fjölgað um rúmlega 1000 á seinustu 5 árum, eða frá því hann tók við embætti bæjarstjóra, sumarið 1998. Að hans mati er staða bæjarins björt og óhætt að horfa jákvæð fram á veginn. Til marks um það fór Kristján í morgun suður með jólabjórinn til sendiherra okkar sunnan heiða, Sigmundar Ernis. Skemmtilegt þetta!

Ósk ÓskarsdóttirSvona er frelsið í dag
Í dag skrifar Ósk mjög góða grein á frelsið. Þar fjallar hún um afskiptasemi ríkisins í daglegt líf tengt helgidögum. Orðrétt segir hún: "Nú 18 árum seinna þá er ennþá einhver að reyna að stjórna því hvort ég sit eða stend, en nú er það á helgidögum kristinna manna. Hver er þessi forsjárhyggjufóstra minna seinni ára? Jú, ríkisvaldið. Flestir vita að á ákveðnum dögum ársins er velflest starfsemi óheimil, er þá um að ræða skemmtanir (s.s. dansleiki eða einkasamkvæmi) á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram. Jafnframt eru markaðir og verslunarstarfsemi, svo og önnur viðskiptastarfsemi með öllu óheimil. Um bönn þessi greinir í lögum sem sett voru krafti kristinnar trúar, í boði ríkisins. Þau ólög eru efniviður þessa pistils, og bera heitið lög um helgidagafrið (nr. 32/1997)." Ósk með allt sitt á hreinu. Ennfremur birtist góð grein Maríu Margrétar um ályktun landssambands sjálfstæðiskvenna um vændi á dögunum. Hún er ekki sátt við hana og fer vel yfir málið í grein sinni.

Jóhanna og ÞórhallurDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi voru Pétur Blöndal og Steingrímur J. Sigfússon gestir Jóhönnu og Þórhalls. Í upphafi ræddu þau tíðindi dagsins um hlutabréfakaup stjórnenda í Kaupþingi-Búnaðarbanka. Fordæmdu báðir það og fóru vel yfir málið. Að því loknu ræddu þeir um fjölmiðlun í ljósi þess að Pétur hefur lagt fram á þingi ásamt fleirum frumvarp þess efnis að einkavæða skuli RÚV. Eins og við mátti búast voru þeir ekki sammála í þessu máli, enda vill Steingrímur sem minnstu greinilega breyta hjá RÚV. Sagði hann að ef það yrði selt yrði umfjöllun fábrotnari og hættara við einokun nokkurra aðila. Það er fjarstæða, enda benti Pétur á að umræða um stjórnmál og fleira blómstraði nú á Netinu. Nefndi hann sérstaklega að vefur á borð við frelsi.is væri öflugur vettvangur skoðana og ungt hægrifólk þar alveg óhrætt við að segja sína skoðun. Gott var að heyra þetta hrós Péturs um vefinn. Er ég alveg sammála honum um RÚV.

Mr. Deeds goes to TownKvikmyndir - bókalestur
Í gærkvöldi horfði ég á hina klassísku kvikmynd Frank Capra, Mr. Deeds goes to Town. Þar segir frá einfeldningnum Longfellow Deeds sem erfir öll auðæfi ríks frænda síns eftir dauða hans og neyðist til að skipta um lífsstíl á einu augabragði. Hann bjó í smábæ og lifði fábrotnu lífi en kynnist því fljótt þegar til stórborgarinnar kemur að það er enginn leikur að lifa með auðæfunum og hann verður skotmark óprúttinna aðila. Hann grípur til sinna ráða, útkoman óborganleg gamanmynd. Gary Cooper fór á kostum í hlutverki Deeds og var tilefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Jean Arthur fer á kostum í hlutverki hinnar litríku Bebe Bennett. Frank Capra hlaut sinn annan leikstjóraóskar fyrir myndina og hún var ennfremur tilnefnd sem kvikmynd ársins. Að þessu loknu fór ég að lesa í ævisögu Jónasar frá Hriflu, mögnuð lesning um einstakan mann.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á fréttavef CBS. Þar eru góðar fréttir og öflug fréttaþjónusta. Sérstaka athygli vek ég á fréttaumfjöllun í tilefni þess að fjórir áratugir eru frá morðinu á Kennedy forseta.

Snjallyrði dagsins
Lífið er gáta. Lausnin er á öftustu síðu.
Storm Petersen