Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 nóvember 2003

Heitast í umræðunni - pistill Björns
Katrín Jakobsdóttir var í dag kjörin varaformaður VG með 119 atkvæðum gegn 30 atkvæðum Steingríms Ólafssonar. Kynslóðaskipti verða í forystu íslenskra stjórnmálaflokka með kjöri Katrínar, enda hún aðeins 27 ára gömul og fyrsti fulltrúi Cocoa Puffs kynslóðarinnar í forystu stjórnmálaflokks á Íslandi. Steingrímur J. Sigfússon var endurkjörinn formaður flokksins, eins og við var að búast enda guðfaðir flokksins. Eftir fundinn reynir VG að sækja áberandi til vinstri, þar telja þau sóknarfæri sín gegn t.d. Samfylkingunni. Katrín er hinsvegar að segja það sama og Steingrímur, bara nýjar umbúðir en engar breytingar.

Undirrita á samninginn um aðlögun Evrópska efnahagssvæðisins að stækkun Evrópusambandsins í Liechtenstein á þriðjudag en í framhaldi af því þurfa þjóðþing allra Evrópuríkjanna að staðfesta samninginn. Í Aftenposten í gær koma fram efasemdir um að Frökkum og Spánverjum muni takast að staðfesta samninginn í tíma fyrir stækkun ESB 1. maí nk. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir að menn hafi lagt ofurkapp á að ljúka þessu sem fyrst og lagt nótt við dag að undanförnu "því við höfum óttast að þetta gæti haft áhrif á staðfestingu samningsins.

Í pistli Björns á heimasíðu hans í dag fjallar hann um ráðherrafund sem hann sótti um Schengen-málefni í Brussel og fer yfir það sem um var að vera í bresku blöðunum í vikunni, en hann kom við í London á heimleiðinni.

Sunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um valdaátök á vinstrivæng íslenskra stjórnmála í kjölfar seinustu alþingiskosninga, fer yfir átakalínur í Samfylkingunni og VG, stöðuna innan R-listans í ljósi þess að forseti borgarstjórnar hvetur til þess að VG bjóði sem víðast fram í eigin nafni í næstu kosningum – blasir við að valdatogstreitan innan borgarstjórnarmeirihlutans sé orðin mikil og staða meirihlutans veikist sífellt í kjölfar innbyrðis erja. Ennfremur fjalla ég um breytingar á fjölmiðlamarkaði og sviptingar þar seinustu mánuði. Mikilvægt er að mínu mati að rætt sé um eignahald á fjölmiðlum og tryggt að ekki verði fákeppni á þessum markaði á komandi árum. Að mínu mati er traust og áreiðanleg fréttamennska samhliða markvissri samkeppni á þeim vettvangi mikilvæg.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Silfri Egils í gær ræddu Birgir Guðmundsson, Júlíus Hafstein og Ögmundur Jónasson fréttir vikunnar við Egil. Ögmundi varð tíðrætt um stefnubreytingu Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum. Skaut Júlíus vel á hann vegna þeirra mála. Ennfremur rætt um fjölmiðlun og breytingar á þeim slóðum seinustu vikur vegna breytinga á eignarhaldi DV. Auk þess var rætt stjórnmálastöðuna almennt og það sem helst hefur verið í fréttum. Alltaf vekur jafnmikla athygli hvað Birgir reynir að vera óháður í umfjöllun en er það aldrei. Það stendur Samfylkingin svo að segja á enninu á honum.

Bókalestur - kvikmyndir
Seinustu vikuna hef ég verið að lesa margar bækur. Á þriðjudag var Arnaldur Indriðason rithöfundur, gestur í Kastljósinu og ræddi fyrri bækur sínar og einnig þá nýjustu. Varð ég svolítið forvitinn eftir þetta góða viðtal Kristjáns Kristjánssonar við Arnald, enda hafði aldrei komið því í verk að lesa metsölubók hans, Mýrina. Fór ég niður í Amtsbókasafn á miðvikudag og fékk mér bókina. Hóf að lesa hana um kvöldið og svo góð var hún að ekki var hætt fyrr en hún hafði verið lesin í gegn þá um miðja nóttina. Mæli ég eindregið með þessari bók. Í gærkvöldi horfði ég á megamynd. Er mikill aðdáandi Hringadróttinssögu og horfði því á LOTR: The Two Towers. Alltaf mögnuð mynd.

Vefur dagsins
Að þessu sinni bendi ég á vefinn eyjafjörður.is. Tilgangur heimasíðunnar er að veita gagnlegar upplýsingar um ferðamál og afþreyingu í Eyjafirði. Margt skemmtilegt er þar að finna.

Snjallyrði dagsins
Við skulum ekki spyrja, hvað ríkið geti gert fyrir okkur, heldur hvað það hafi gert okkur.
David Friedman